12 júní, 2022

Blóðugt verkefni

 

Gærdagurinn hefði getað orðið dýr. 

Ég tók að mér ljósmyndatengt verkefni við Laugarvatn, en þar gullsprettu um 300 manns í kringum Laugarvatn, eins og mörg undanfarin ár.  Ég fékk, þessu sinni, það hlutverk, að mynda hlauparana þar sem þeir komu sér yfir fyrsta vaðið og til þess þurfti að flytja mig á björgunarbáti nokkurn spöl. Ekki hófst nú bátsferðin björgulega. 

Ég var auðvitað einbeittur þar sem ég gekk út á bryggjuna til að koma mér um borð, enda hef ég séð ansi mörg myndskeið þar sem fólk er reyna að komast um borð í svona smábáta - komið með annan fótinn á borðstokkinn, þegar báturinn skríður frá bryggjunni  - jæja.


Hvað um það, þar sem ég var ákveðinn í að ganga um borð eins og vanur maður, gleymdi ég að ég hafði komið stóru linsunni fyrir í myndavélartöskunni (sem er alltof lítil fyrir slíka linsu). Svo heyrði ég högghljóð, eins og eitthvað hefði dotti á bryggjuna, sem var raunin. Stóra fína linsan mína hafði fallið úr töskunni og eitt augnablik hélt ég að hún hefði síðan skoppað út af henni og ofan í vatnið, sem var sem betur fer ekki raunin  Hún hafði lent á linsuhettunni (lens hood), sem brotnaði og flaug út í vatnið. Linsan sjálf reyndist ósködduð, en þarna er um að ræða fjárfestingu upp á hundruð þúsunda. Ætli ég verði ekki að læra af þessu, að minnsta kosti vill fD halda því fram. 


Ég komst um borð í björgunarbát Ingunnar án frekari áfalla, í tilskildu björgunarvesti og vel búnir björgunarsveitarmenn sáu til þess að allt væri eins og vera bar. Báturinn brunaði í átt að fyrsta vaðinu, en fyrsti lendingarstaðurinn sem kannaður var, reyndist of aðgrunnur til að hægt væri að koma mér í land þurrum fótum, sem var auðvitað skilyrði frá minni hendi.  Hófst þá leit að hentugri lendingarstað, en þá reyndist þetta föruneyti vera komið heldur nálægt varnarsvæði fuglsins sem beitir einkar harðvítugum aðferðum við að verja svæðið sitt. Kría tók að herja á okkur, en þar sem ég hafði aldrei lent í því að hún gerði annað en hóta því að reka gogginn í höfuðleðrið á mér, kippti ég mér litt upp við árásir hennar. Björgunarsveitarmennirnir voru auðvitað með hjálma á höfðum, en ég var ekki enn búinn að sjá ástæðu til að setja upp hattinn sem ég hafði meðferðis til að skýla höfðinu fyrir sólargeislum. 

 Viti menn, skyndilega lét krían vaða beint á þann stað höfuðs míns þar sem hárvöxtur er sjaldgæfastur. Þetta var hreint ekki vont, en þegar ég síðan þreifaði á höggstaðnum, reyndist blæða talsvert og svo bara hélt áfram að blæða, en ég gat nú ekki farið að láta kalla út björgunarsveit vegna þess, svo ég skellti á mig hattinum og varð ekki fyrir frekari árásum kríunnar eftir það. 


Svo bara tók ég myndir af fólkinu sem lagði á sig að hlaup þennan sprett í kringum Laugarvatn og þegar það var allt komið framhjá, var ekki annað en kalla á björgunarbátinn til að fá flutning til baka, sem allt gett vel og snyrtilega fyrir sig. Ég neita því ekki, að ég hafði athugað hattinn aðeins og sá að hann var alblóðugur að innan, svo ég setti hann bara upp aftur - þetta virtist ekki svo alvarlegt að mér myndi blæða út, en samt fannst mér stundum eins og ég fyndi fyrir lítilsháttar svima (sem var nú bara ímyndun).

Þegar í land var komið fór ég að leita mér aðhlynningar, sem ég fékk að sjálfsögðu og sem ég er afar þakklátur fyrir.  Það er nefnilega þannig að ég tilheyri þeim hópi fólks, sem af tilteknum ástæðum, þarf að neyta lyfja sem stuðla að blóðþynningu og þess vegna tekur það alla jafna talverðan tíma fyrir blóðið að storkna, ef það finnur sér leið út úr líkamanum. Það gerist þó og gerðist þarna, á endanum.

Eins og myndirnar, sem Erla Þorsteinsdóttir tók, sýna, reyndi ég að bera mig vel, meðan Eva Hálfdánardóttir gerði að sárum mínum. 

Að öðru leyti gekk nú dagurinn áfallalaust fyrir sig að mestu og ég þykist góður að hafa komið til baka jafngóður og þegar ég lagði af stað, svona að mestu leyti.

Ég, sem sagt, tók að mér það verkefni að taka myndir af hlaupandi fólkinu og hér eru sýnishorn. Myndirnar í heild má svo sjá í fyllingu tímans á facebooksíðu Gullsprettsins. 













Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...