27 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (1)

Kór Selfosskirkju var búinn að halda í sér í ein tvö ár þegar við fD komum til sögunnar síðastliðið haust. Við getum alveg litið svo á að örlögin hafi komið því svo fyrir, að fyrirhugaðri Ítalíuferð hafi verið frestað ítrekað, þannig að við kæmumst með. Ég leyfi mér allavega að halda því fram, eða hvernig má skýra það, að á fyrstu eða annarri æfingunni var okkur gefinn kostur á að skrá okkur til fyrirhugaðrar ferðar kórsins suður til Ítalíu í júní á komandi ári. Sá júní er kominn og ferðinni er lokið.

Það er aðallega fyrir sjálfan mig og mögulega einstaka trygga fylgjendur bloggskrifa minna, sem ég sest við lyklaborðið og renni í gegnum þessa ferð, í nokkrum hlutum. Hér verður væntanlega um að ræða frásögn, eða umfjöllun sem varpar ljósi á mína upplifun og skoðanir og einskis annars. Aðrir þátttakendur verða bara að skrá eigin frásagnir af því sem eftir situr eftir vikulanga ferð Kirkjukórs Selfosskirkju og maka til Gardavatnsins, dagana 18. - 25. júní. Ég mun reyna að fara varlega í að fjalla um einstaka ferðafélaga, þar sem ég telst varla vera nægilega rótgróinn enn, til að geta búist við að kórfélagarnir þekki nægilega vel til mín og þess hvernig ég get verið, þegar grannt er skoðað.

Flugferðin hefst.

"Kemur ekki til greina!" hljómaði yfirlýsing fD, þar sem hún stóð í farþegarými vélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Jú, hún vissi það svo sem, þegar þarna var komið, að við myndum ekki fá sæti hlið við hlið í vélinni sem átti að flytja okkur til Malpensa flugvallar við Mílanó, frekar en önnur pör. Þarna blasti veruleikinn, hreinn og tær við frúnni: henni ætlað að setjast milli tveggja Ítala á heimleið eftir mögulega dásamlega ferð til Íslands. Henni þótti einfaldlega til of mikils ætlast, en það fór samt svo, að hún fylgdi því sem sætisnúmerið sagði, en hélt samt áfram uppi mótmælum við þeim fáránleika sem þarna var um að ræða. Mér var ætlað sæti beint fyrir aftan hana, einnig milli tveggja Ítala á heimleið. Allt fór þetta nú samt vel, enda kom mjög fljótlega í ljós, að allir Ítalirnir þekktust vel og voru jafnvel úr sömu fjölskyldu og þeir reyndust harla kátir með að skipta bara um sæti, þannig að fD endaði við hlið mér, eins og vera ber.  
Það má alveg halda því fram, að það hafi verið einstaklega fáránlegt hvernig fólki var raðað í þessa vél til Ítalíu. Það má jafnvel segja að það hafi verið sennilega verið yfirlýst markmið þeirra sem sætaröðuninni réðu, að stía pörum í sundur. Tilgangurinn er vandséður - mögulega að gefa selfysskum kórfélögum færi á að kynnast ítalskri menningu og samskiptum. Mér finnst ég hafa heyrt af því að einn kórfélaginn hafi lent á milli ítalskra elskenda, en ítalsir elskendur eru sagðir geta verið mjög ástríðufullir. Þessir munu hafa verið af því tagi - gátu ekki hvort af öðru litið, en gengu þó ekki lengra en kyssast fyrir framan andlitið á þessum kórfélaga, sem mun hafa fundist háttalagið fremur vandræðalegt.

Sætaskipanin fór vel, hjá okkur fD í það minnsta (held ég) og það var nú fyrir mestu og síðdegis þennan laugardag lyftumst við í hæðir áður en við síðan lentum á Malpensa flugvelli, rétt fyrir utan Mílanó á Ítalíu. Eftir langa göngu um flugvallarbyggingar þar, (þar sem ég nýtti mér bruntækni sem boðið var upp á, meðan fD hélt sig við sína aðferð við að ganga milli staða) komumst við út og hittum það fararstjóra frá ferðskrifstofunni Eldhúsferðum, sem er tengdadóttir Eddu í Dalsmynni, sem mögulega einhver af eldri kynslóðum kannast við síðan í barnaskóla í Reykholti.  Það tók svo við meiri ganga, og meiri ganga og loks akstur í rútu til bæjarins Desenzena við suðurenda Gardavatnsins, en hann stóð yfir í eina 2-3 tíma.   Hótelið reyndist vera svona hótel, eins og hótel eru. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...