05 október, 2017

Er ég orðinn ellibelgur?

Síminn hringdi í gærmorgun. Hringjandinn reyndist vera ágætur nágranni til áratuga. Var dálítið hikandi við að bera upp erindið þar sem mögulega, hugsanlega myndi ég móðgast. Ég kvað mig ekki móðgunargjarnan mann og hvatti til þess að ljóstrað yrði upp um það sem þarna væri um að ræða.
Ég fékk að heyra hvað málið snérist um og varð ekkert móðgaður. Bara miklu frekar þakklátur fyrir hugulsemina sem að baki bjó og enn eina staðfestingu þess hve gott það er að eiga heima í litlu samfélagi þar sem fólk þekkist meira og minna.
Erindið var að láta mig vita af því, að í dag er fyrsta samvera eldri borgara í Bergholti, milli kl. 14 og 16.
Ég viðurkenni, að ég á dálítið erfitt með að ná utan um þetta allt saman, svo bráðungur sem ég nú er. Ég neita því ekki, að ég spurði sjálfan mig hvort þessi vikulega, tveggja tíma samverustund, þar sem fólk í eldri kantinum kemur saman til að spjalla um lífið og tilveruna, stunda handverk, spila, eða prjóna, eða bara hvaðeina sem hentar. væri eitthvað fyrir mig.

Ég er óhjákvæmilega, með þeirri ákvörðun minni, að láta af störfum og hefja töku eftirlauna talsvert fyrr en flestir gera, kominn með annan fótinn í þann þjóðfélagshóp sem talað er um sem eldri borgara, aldraða eða bara ellibelgi. Ég á það sameiginlegt með þessum hópi, að ég þarf ekki lengur að láta vekjaraklukkuna hringja og bruna síðan í vinnuna á hverjum virkum degi.  Ég ræð tíma mínum sjálfur og ákveð því sjálfur í hvað ég nota hann.

Það sem ég á kannski síður sameiginlegt með þessum hópi er, að ég verð ekki formlega eldri borgari fyrr en eftir ein þrjú ár. Þetta eru þrjú ár sem ég vænti þess að lifa beggja megin þeirrar línu sem einhverntíma var ákveðið að draga milli þeirra sem fullgildir teljast á vinnumarkaði og þeirra sem eru að hefja, með formlegum hætti ferð sína inn í sólarlag lífsins, með öðrum orðum, að undirbúa sig fyrir hið óhjákvæmilega, sem allra bíður, mis fljótt, reyndar.
Þessi lína er auðvitað mannanna verk, einhver meðalvegur sem hefur í rauninni ekkert með að gera einstaklinga, enda þeir jafn mismunandi og þeir eu margir.  Við þekkjum öll fólk sem hefur ekki verið ætlað að ná þessari línu og einnig fólk sem gengur til starfa á hverjum degi þó komið sé vel yfir nírætt. Um þetta vitum við bara hreint ekki neitt.

Það veit sá sem allt veit, að ekki ætlaði ég mér, þegar ég hóf þennan pistil, að fara að láta hann snúast um skilin milli þess sem er og verður og þar með hætti ég því.

Viðbrögð mín við símtalinu voru bara jákvæð, um leið og ég taldi síður líkur á að ég myndi sækja þessar samverustundir að óbreyttu. Ég hef yfirdrifið nóg að gera og í eðli mínu er ég talsverður einfari og hentar því afar vel að dunda mér einn í áhugamálum mínum. Svo verður áfram, óháð einhverjum línum sem samfélagið tengir mig við. Eingöngu háð því hve lengi höfuðið á mér virkar í samræmi við það sem ég ætlast til af því.
Ég er viss um að einhverjir munu halda því fram að eitthvað sé ég nú farinn að bera þess merki að andlegt atgervi sé á undanhaldi, en slíku mótmæli ég auðvitað harðlega.

Er Facebook málið?
Mér skildist á nágranna mínum, sem hringdi, að sá hópur sem hittist í Bergholti væri ekki mikið fyrir Facebook, eða tölvupósta, eða tölvur yfirleitt. Hugmyndir um samskipti með slíkum hætti munu hafa verið slegnar út af borðinu. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu, að síminn væri hentugasta samskiptatækið og settar hafa verið upp úthringilínur, sem felast í því, að hver hópmeðlimur fær það verkefni að hringja í einn eða fleiri aðra þegar þörf er að koma skilaboðum áleiðis.
Það er fjarri mér að gagnrýna þessa aðferð. Símtölin geta leitt til þess að fólk fer að spjalla saman um lífið og tilveruna ásamt því að greina frá því sem framundan er (ef það gleymist þá ekki).

Megintilgangur pistilsins
Kynslóðaskil eru óvenju mikil um þessar mundir. Fólkið sem nú er um sjötugt, er eiginlega yngsta fólkið sem hefur tileinkað sér tölvusamskipti að einhverju ráði, svona á heildina litið.  Milli tölvukynslóðarinnar og símakynslóðarinnar er aldeilis heilmikið bil.  Þeir sem nú eru um sjötugt eru að byrja að þrýsta á þá sem eldri eru, varðandi þessi mál, en enn sem komið er, án árangurs, að mér skilst.
Að máli við mig kom kona sem einmitt dasar línuna á milli þeirra tveggja heima sem áður eru nefndir. Hún bað mig að búa til hóp á Facebook, sem ætlaður væri fólki á aldursbilinu frá sextugu og upp úr.
Ég neita því ekki, að ég varð nokkuð hugsi, en þar sem ég er bara samilega fljótur að hugsa enn, taldi ég þarna vera á ferð góða hugmynd, ekki síst þar sem hún átti uppruna sinn í hópi "hinna". Það er nefnilega þannig að talsvert margir í þeim hópi fólks sem kominn er yfir sjötugt er bara alveg þokkalega tölvulæs og tilbúinn í að dansa þann dans fram í rauðan dauðann. Ég taldi að þarna væri hægt að byggja brú milli kynslóðanna beggja vegna línunnar sem dregin hefur verið.


Ég stofnaði hóp á Facebook.
Hópurinn kallast "Sextíu plús í Biskupstungum".
Ég bjó ekki bara til þennan hóp, heldur tilgreindi ég eftirfarandi sem tilgang hans:

Vettvangur fyrir fólk í Biskupstungum, sem hefur náð þeim góða aldrei sem hér um ræðir. Hér getur verið um að ræða fólk sem enn er á fullu í starfi og leik, fólk sem er aðeins farið að hægja á sér og fólk sem hefur lokið atvinnuþátttöku, en vill gjarnan halda áfram að njóta þess sem efri árin eiga að hafa upp á að bjóða.
Þessi hópur er engan veginn stofnaður til höfuðs ágætu Félagi eldri borgara í Biskupstungum, heldur miklu fremur til að styðja við og koma á framfæri sýn núverandi öldunga og einnig þeirra sem eitt sinn verða vonandi öldungar, á lífið og tilveruna.
Hér er ekki um að ræða félag, heldur nokkurskonar tengslahóp og í hann er boðið öllum þeim í Biskupstungum sem orðnir eru sextugir og sem eru virkir á Facebook.


Þegar ég var búinn að þessu, skilgreindi ég hann sem leynilegan hóp og bauð í hann örfáum einstaklingum, sem ég þóttist viss um að myndu ekki gera úr honum eitthvert stórmál.

Þannig er staðan nú og verður svo að óbreyttu, þó mér finnist æskilegt að hafa einhvern svona vettvang fyrir fólk á minum aldri og eldra, sem á ekki að snúast um aldur, heldur kannki frekar svipuð áhugamál, því áhugi fólks tengist að stórum hluta aldri þess. T.d. er mikið talað um ungabörn á kennarastofu sem ég þekki til, um þessar mundir, sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt.

Svo hef ég margt fleira um þessi mál að segja, en geri það síðar.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...