04 október, 2017

Enn eina ferðina: bara hann

Persónudýrkun er vafasamt fyrirbæri, svo ekki sé meira sagt, en þegar við erum farin að láta heilan stjórnmálaflokk snúast um eina persónu, erum við komin út á harla vafasamar brautir. Í mínum huga er eitthvað bogið við fólk sem sækir inn í slíka flokka.  Ætli þetta stefni í að verða þriðju kosningarnar til Alþingis í röð, þar sem ein persóna nær að láta alla umræðu snúast um sjálfa sig?

Ég hneigist til að kenna fjölmiðlum um þetta, að stórum hluta, því varla ropar þessi persóna öruvísi en að úr verði flennifyrirsögn og í kjölfarið logandi samfélagsmiðlar.

Ef um væri að ræða manneskju sem býr yfir einhverjum persónutöfrum, glæsileik, myndugleik, öryggi, manngæsku, mannskilningi, eða bara einhverjum jákvæðum eiginleikum sem myndu geta sannfært mig um að þarna væri á ferð framtíðarleiðtogi þessa örsmáa eyríkis, gæti ég skilið alla umfjöllunina.

Ég sé ekkert birtast mér, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan, nema einstakling sem hefur komist í þessa stöðu vegna einhvers annars en hæfni til þess arna, eða gáfna og mér er fyrirmunað að skilja hvað þar er, nákvæmlega við hann sem  veldur því að upp undir 10% þjóðarinnar kveðst myndu kjósa flokkinn hans. Því þetta er bara flokkurinn hans - einskis annars. Flokkur þar sem hagsmunir hans og persóna virðast vera það sem skiptir  máli.

Það sem er kannski alvarlegast í þessu er, að á meðan hann heldur fjölmiðlum uppteknum við sjálfan sig, fær  Flokkurinn að fara sínu fram í skugganum - skugganum þar sem ljósið verður að fá að skína, ef einhver von á að verða fyrir þá sem þurfa mest, til að fá tækifæri til að lifa  mannsæmandi lífi. Skugganum þar sem menn "víla og díla" með líf annarra í eigin þágu.

Ábyrgð fjölmiðla er jafnvel meiri en okkur grunar.

Sjálfsupphafnig og persónudýrkun eru eitur í mínum beinum, hvað sem það segir nú um mig, en auðvitað skiptir það ekki máli.

Ég lýk þessu á mynd af þessari persónu, sem dregin er upp af fyrrverandi flokksfélaga hennar:

Eftir hádegi mætti formaðurinn og við það breyttist andrúmsloftið, tillögur voru dregnar til baka og frjálslynt fólk dró sig til hlés. Þarna var ég fyrst var við það að „óþægilegu“ fólki var stuggað frá og einangrað. Allt starfið snerist um að halda línunni, og formaðurinn lagði línuna, ekki grasrótin.

Sama vetur atvikaðist það svo að ég varð sessunautur formannsins í veislu 
[....].  Sessunautur minn var ekki sá beitti samfélagsrýnir sem ég hafði séð á opinberum vettvangi. Heldur var hann frekar óöruggur og var um sig, þetta virtist mér ekki vera maður sem skeytti mikið um nærumhverfi sitt og hvað þá fólkið sem þar var.

Þetta er mynd sem mér finnst lýsa þeim sem ég sé í fjölmiðlum, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan.

Kannski er mér að yfirsjást eittvað. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...