12 október, 2020

Er of langt gengið?

Andlit þokuð vegna persónuverndar.
Það er að vísu rétt, að svona frá 13 ára aldri og fram undir þrítugt, var ég nú bara talsverður íþróttamaður, með körfubolta og blak sem mínar helstu greinar. Síðan þá er liðin hálf öld eða þar um bil og lífið leiddi mig ekki inn á neina afreksíþróttabraut, heldur þvert á móti. 
Svo fór fD að taka upp á því að fara í göngutúra og lengi vel hafði ég efasemdir um að þeir yrðu til að gera mér eitthvað gott, ungan og sprækan manninn. 

Ég velti aðeins fyrir mér, svona eftir því sem ég breikkaði, hvort ég ætti nú ekki að leggja það á mig að ná því að einhverju leyti til baka, en í önn dagsins vildi það farast fyrir og nóg af öðru, áhugaverðara, sem var hægt að setja framar í forgangsröðina. En ég lét mig hafa það að leggja á mig göngutúra: sannfærði sjálfan mig um að það gæti ekki skaðað, fyrir utan það að fD gæti mögulega farið sér að voða við alla þessa gönguiðkum og þá kæmi sér nú vel ef ég væri til staðar til að bjarga málum. Hvað um það, það var gengið og gengið. Var gengið til góðs?


Nú erum við komin á nýjan stað og þurfum að aðlagast nýrri menningu og komast í kynni við nýtt fólk, eins og gengur. 
Ekki neita ég því, að í æskuhroka mínum var ég haldinn nokkrum efasemdum um hvort það væri nú við hæfi að ég, rétt miðaldra karlinn, færi að skrá mig til þátttöku í ýmsu því sem stendur til boða fyrir eldri borgara hér í næsta húsi. Ég fór með fD til að skoða hvað væri nú í boði, ekki síst vegna þess að starfið sem þarna er um að ræða er ætlað þeim sem eru 60 ára og eldri.  Ekki get ég með góðri samvisku haldið því fram að ég sé 59, endalaust.

Mér leist nú ekki meira en svo á námskeið sem kallast Heilsuefling 60+. Þetta hlyti nú að vera eitthvert dund. Það varð samt úr að ég skráði mig þar til þátttöku - gæti alltaf hætt ef þetta hentaði ekki líkamlegri færni minni og hæfni. Við sóttum þarna tíma í tvær vikur áður en öllu var lokað af þekktum ástæðum. Þessar tvær vikur voru strembnar af tveim ástæðum: 
1. Þetta "heilsueflingardund" var á mörkum þess að ganga frá mér, þó auðvitað léti ég á engu bera. 
2. Ég þurfti að kyngja fordómum mínum og sætta við við að skrokkurinn reyndist ekki vera sá sem ég hefði viljað að hann væri.

Þegar heilbrigðisráðherrann, að ráði sóttvarnalæknis, skellti svo í lás, var ekki laust við að ég saknaði einhvers, mér til nokkurrar undrunar. Því kom það skemmtilega á óvart þegar þjálfarinn blés til æfingar á íþróttavellinum í dag. Þar var tekið á því og visnaðir vöðvar kvöldust til að hverfa úr mögulega varanlegri hvíld. 

Það var ekki nóg með að ég skráði mig í þessa heilsueflingu (styrktaleikfimi, finnst mér samt betra heiti), heldur þáði ég boð frá fréttamanni nokkrum um að ganga til liðs við áratugagamlan gönguhóp, sem þræðir göturnar hér á hverjum virkum morgni, og heldur afmælisveislur á föstudagsmorgnum, þar fyrir utan.

 
Það finnst sumum erfitt að hugsa til þess að leggja af stað í göngu kl. 7.30 á hverjum morgni. Það er hinsvegar nokkur misskilningur, enda er það háttur unglinga, að sofa frameftir, ekki fullorðins fólks. Ég held nú reyndar að þessar ágætu göngur verði ekki daglegar hjá mér, enda kemur þarna göngufólk eftir því sem því hentar og það kemur við. 

Tilefni þess að ég skrái þessa færslu á þessum degi er, að ég hef nú lokið samtals 9 km göngu, ásamt einni fjallgöngu (Fjallið eina) og ótal æfingum af öðrum toga.  Sannarlega efast ég um að ég hefði gott af svona nokkru á hverjum degi. Hinsvegar veit ég, að á eftir því sem er vont og erfitt, kemur alltaf eitthvað gott.  

Andlit ekki þokuð, enda vissu allir af myndatökunni.

Þetta er hið besta mál, allt saman og ekki hef ég enn rekist á nema vandaðar manneskjur á þessum slóðum, allavega meðan ég held pólitískum skoðunum mínum fyrir sjálfan mig. 

Engin ummæli:

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niðu...