18 október, 2020

Eilítið um aðventu- og/eða jólaljós - tími til kominn


Hvítárbrú um jól 2017
Þau voru geymd í kassa niðri í kjallara í Kvistholti og á einhverjum tíma, stundum snemma, stundum seint (fór eftir því hvenær ég var búinn að safna nægri nennu til) klæddi ég mig upp og fór að athuga hvað væri nú í þessum kassa. Úr honum tíndi ég síðan það sem taldist nothæft, fann til tröppuna lúnu og tók til við að hengja upp.  Lengi val vildi ég draga þetta sem lengst, undir því yfirskyni að frestur væri á illu bestur, enda ekki mikill áhugamaður um skreytingar, þó ekki neiti ég því að aukin lýsing í mesta skammdeginu geti lyft andanum aðeins upp úr mesta sortanum.

Kvistholt í jólabúningi 2016
Kjarni málsins var sá, að þarna hafði ég þetta að mestu leyti í eigin höndum: val á litum og magn af ljósakeðjum. Ekki var um það að ræða að fD vildi hafa miklar skoðanir að þessari framkvæmd, þó ég minnist þess einhvertíma að hún hafi eitthvað farið að ýta á mig þegar nálgaðist óhóflega að jólin yrðu hringd inn og ekki ein einasta ljósakeðja komin upp í Kvistholti.

Ég, hinsvegar, var og er sérstakur áhugamaður um lýsingu á Hvítárbrú í skammdeginu og mér finnst að ef einhversstaðar er ástæða til að lýsa upp skammdegið, þá er það á mannvirki eins og þeirri fögru brú, en hún er víst ekki umfjöllunarefnið hér.

Nú blasir annar veruleiki við og heldur flóknari.

Við erum flutt í húsnæði með 25 íbúðum, sem munu þurfa að koma sér saman um hvernig lýsingu skuli komið fyrir á svölum. Í þessum 25 íbúðum er fólk sem á ekki ólíka sögu og við fD þegar kemur að þessum málum: nýflutt úr einbýlishúsum þar sem það þurfti engan að spyrja um lýsingartegund. Þetta fólk er kannski með 40 ára lýsingarhefð í farteskinu og vill mögulega engu breyta þar um. "Ég er búin(n) að nota rauðar perur í 40 ár og hef ekki huga á að breyta því!" svo er annar/önnur sem á erfitt með að sjá fyrir sér annan lit en bláan, eða gulan eða hvítan eða grænan, já, eða bleikan. Svo eru það fólk sem vill ekki sjá svona "jólaljósvitleysu".

Nú blasir við að það þurfi að ná lendingu í þessu ljósakeðjumáli. 

Við fD búum á stað sem blasir við öllum þeim fjölda sem á leið um þjóðveg 1 og því væri nú ekki nema eðlilegt að við gerðum dálítið mikið úr jólaljósum þetta árið.  Mér koma í hug kastarar sem snúast og blikka, eða ljósafoss fram að útistofunni, eða að koma fyrir upplýstum, risastórum, ruggandi jólasveini fyrir innan glerið, sem væri tengdur við hátalara, hrópandi "hó, hó, hó!" úr um hátalara sem komið væri fyrir utan á húsinu, á milli þess sem Bing Crosby syngi "Jingle Bells" með reglulegu millibili. 

Nei, ætli það. 
Mér finnst margt merkilegra og mikilvægara í lífi mínu, en að fara að gera eitthvert  mál úr jólaljóskeðjum og vil gjarnan leyfa sérstöku áhugafólki um slíkar lýsingar, að ákveða hvernig þeim verður háttað. Mín vegna mætti láta það í hendur hvers og eins að ákveða sína lýsingu - að fjölbreytnin fengi að ráða. Við lifum á tímum þar sem fjölbreytileikinn á upp á pallborðið. Því ekki í þessu sem öðru?

Megi okkur takast að ná svo góðri lendingu í lýsingarmálin, sem unnt er. Það er ekki hægt að fara fram á meira.

Engin ummæli:

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niðu...