23 október, 2020

Fríður


"Við fluttum í Laugarás árið 1957. Hjalti var þá búinn að steypa grunn að fyrsta gróðurhúsinu okkar, en við byrjuðum að rækta í húsi sem við leigðum af Ólafi Einarssyni. Fyrstu sjö árin bjuggum við í Lauftúni sem krakkarnir í hverfinu kölluðu „Silfurhúsið“ af því að það var álklætt og það glampaði svo fallega á það. Þar var allt nánast jafn frumstætt og hafði verið í Reykholti, munurinn var sá að nýbúið var að leggja rafmagn í Laugarás. Það var lagt fyrir köldu vatni í húsið en þar sem það var sjálfrennandi og engin dæla þá náði það bara að renna í klósettkassann en ekki í vaskinn, við höfðum ekki baðkar. Ég þurfti því að ná í vatn út í hver, sem var nánast við húsvegginn, ef mig vantaði vatn til annars en að sturta niður".  (brot úr viðtali við Fríði, sem birtist í Litla Bergþór 2013 og er einnig á finna á Laugarásvefnum).

Þeim fækkar "mæðrum" mínum. 
Fríður og Hjalti fluttu í Laugarás þegar ég var á fjórða ári, með þrjá stráka, þar af einn jafnaldra, hann Pésa. Þær voru allar mæður okkar í ákveðnum skilningi, konurnar í Laugarási á þessum tíma. Auk mömmu sjálfrar (Guðnýju Pálsdóttur í Hveratúni 1920-1992)), áttum við þarna mæðurnar Fríði í Lauftúni/Einarshúsi), Gauju í Helgahúsi (Guðnýju Guðmundsdóttur (1913-1993)), Jónu á Lind á Lindarbrekku (Jónínu Jónsdóttur (1926-2016)) og Gerðu (Gerda Jónsson í læknishúsinu (1924-2013)),  Jónu Sólveigu á Sólveigarstöðum (1928-2004) og Sigurbjörgu í Launrétt (Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999) sem tók að sér að kenna okkur einn vetur, minnir mig. Svo komu fleiri mæður eftir því sem árin liðu, en þá var ég víst líka farinn að stækka og taldi mig síður þurfa á viðbót.

Ætli Fríður hafi ekki verið krakkinn í þessum mæðrahópi, fimmtán árum yngri en móðir mín, og þar með nær okkur í aldri og þar með meiri töffari. Hún var góð viðbót inn í þétt samfélagið sem þarna var fyrir og þau Hjalti skáru sig ekki úr þegar aðstoðar var þörf. 

Félagarnir Magnús Skúlason í Hveratúni og Jakob Narfi, 1962

"Húsið í Lauftúni hefur ekki verið nema um 40 fermetrar og þar var ekkert þvottahús. Þau voru almennt ekki við bústaðina á þessum tíma heldur voru þvottarnir þvegnir úti við hver eða hjá Guðnýju í Hveratúni sem bjó svo vel að vera með þvottahús. Þegar þurfti að þvo suðuþvott þá var óhreini þvotturinn settur í sápuvatn í bala, svo var öllu skellt í hverinn þar sem það var látið malla góða stund. Ef um eitthvað viðkvæmara var að ræða þurfti að láta vatnið standa og kólna". (
úr viðtalinu við Fríði). 
Við fólki, sem var að byrja búskapinn á þessum tíma, blöstu ekki glæstar hallir, en þetta var nú bara lífið  eins og það var og ég held að ekkert þess fólks sem kom undir sig fótunum í Laugarási á þessum tíma, hafi gert neinar kröfur um að undir það væri mulið með einhverjum hætti. Það trúði á sjálft sig, mátt sinn og megin og lagði síður upp úr ytri umbúnaði. Sannfærður er ég um að það líf sem það bjó sér í Laugarási, hafi verð gott líf, sem sjá má af barnafjöldanum sem spratt út úr þessum litlu húsum og því, hvernig kjörin bötnuðu ár frá ári, eftir því sem garðyrkjunni óx fiskur um hrygg. 

Fríður og Hjalti byrjuðu búskapinn með því að leigja gróðurhús Ólafs læknis og síðan að byggja eigin gróðurhús og loks íbúðarhús í Laugargerði. Þetta óx allt og dafnaði.

Börnin urðu, þegar upp var staðið sex. Hófst með fjórum strákum, Pétri Ármanni (1953), Erlingi Hreini (1955), Hafsteini Rúnari (1957) og Jakob Narfa (1960). Svo komu tvær stúlkur í lokin, þær Guðbjörg Elín (1964) og Marta Esther (1968).  Án þess að gera lítið úr uppruna piltanna þriggja sem fæddir voru áður en fjölskyldan flutti í Laugarás, þá er rétt að halda því til haga að þau þrjú sem fæddust árin í kjölfar flutningsins á þann góða stað, eru tvímælalaust örlítið meira Laugarásfólk. (Þetta er nú smá grín, svona).
Hjalti féll frá 1992, en Fríður bjó áfram í Laugargerði til ársins 2015, en þá flutti hún á Selfoss ásamt sambýlismanni sínum, Reyni Ásberg Níelssyni.

Nú má segja að það sé lokað einum kafla í sögu Þorpsins í skóginum, en Fríður er sú síðasta frumbýlinganna á fimmta og sjötta áratugnum til að kveðja.  Hún lést þann 17. október og útför hennar er gerð frá Selfosskirkju í dag.

Blessuð sé minning hennar.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Takk fyrir þessa samantekt. Sem gamall þorpari finnst mér eg kannast við allt þetta, vissulega sem pjakkur þà en vel eftir þegar Hjalti og Fríða komu og byrjuðu búskapinn i Silfurhúsinu sem mig minnir að Einar Ólafs hafi byggt. Það var settur upp fótboltablettur við húsið og þar var tekist á. Ég hitti Fríðu nú síðast í Aratungu á leiksýningu. Já þeim fækkar frumbyggjendunum. Við erum samt nokkrir eftir sem lifðum þá daga.
Kristinn

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn.  Nú get ég hinsvegar staðfest...