MYNDIRNAR SEM HÉR ERU, ERU VALDAR ALGERLEGA AF HANDAHÓFI, FRÁ ÁRUNUM 2006-2008. Þær tengjast innihaldi textans ekki með neinum, hugsuðum hætti.
Það hefur flogið í gegnum hugann, all oft frá þeim degi sem við fD tókum saman hafurtask okkar og fluttum úr Laugarási, að sumt skuli haldið í áfram, en annað þurfi óhjákvæmilega að endurskoða.
Eðlilega hætti ég í ritstjórn Litla Bergþórs og nú blasir við að ég þurfi að gera eitthvað við Facebook síðuna sem ber nafnið Laugarás - þorpið í skóginum. Ég velti fyrir mér hvort það sé rétt að loka henni einfaldlega og rýma þannig fyrir nýrri síðu íbúa í Laugarási. Ég velti einnig fyrir mér, hvort það gæti verið valkostur, að fjarlægja mig sem stjórnanda og afhenda einhverjum öðum keflið. Þá velti ég fyrir mér, hvort ég eigi bara að halda ótrauður áfram við að halda síðunni úti, þó svo ég teljist ekki lengur til íbúa í Þorpinu í skóginum.
Þetta snýst aðallega um að ganga út úr því hlutverki að þurfa við og við að slá á puttana á fólki, sem, í aðgæsluleysi, hefur sett eitthvað inn sem ekki fellur að tilgangi hópsins. Mér finnst að það hlutverk sé betur komið hjá einhverjum sem býr í Laugarási.
Mér finnst þetta allt eðlilegar pælingar og allir kostir uppi á borðinu, í sjálfu sér. Ég er hálfpartinn búinn að búast við því að fá athugasemdir frá notendum síðunnar um, hvað ég, Selfyssingurinn, vilji eiginlega upp á dekk. Ég eigi ekki að vera að skipta mér af lífi fólks í öðrum sóknum.
Ég sé ekki fyrir mér, að loka síðunni, því hún geymir ótal margt, eftir að hafa sinnt íbúum í Laugarási á ýmsan hátt í fimm ár, en þann 10. september, 2015, stofnaði ég hana og nú eru skráðir notendur að verða 700. Ég er þakklátur notendum fyrir, að hafa umgengist síðuna af ábyrgð og þar með hefur nánast ekkert reynt á mig sem ábyrgðarmann fyrir henni. Nei, síðunni mun ég ekki loka, ....... held ég.
Næsti valkostur er að afhenda stjórn síðunnar einhverjum sem ég treysti til að flytja hana áfram inn í óvissa framtíð og setja henni reglur, sem henta Þorpinu á breytingatímum. Auðvitað hafði ég vaðið fyrir neðan mig og fékk naglfastan Laugarásbúa til að gerast stjórnandi auk mín og að því leyti er síðan í góðum málum. Óviss er samt tíminn framundan og fátt sem er hægt að kalla naglfast.
Þriðji valkosturinn, að ég sitji bara sem fastast í fjarskanum og ákveði hvað er þóknanlegt og hvað ekki, verður nú að teljast fremur ólíklegur.
Þar sem ég stóð frammi fyrir því að setja hópnum reglur, á sínum tíma, reyndi ég að hafa þær í stíl við það sem var tilgangur minn með því að búa hann til. Í sem stystu máli, vildi ég hóp sem tæki til umfjöllunar lífið í Laugarási í fortíð og nútíð. Ég sá þetta aldrei sem sölu eða gjafasíðu, heldur miklu frekar sem upplýsingasíðu. Þarna langaði mig að fólk myndi segja frá einhverju, veita og leita eftir upplýsingum, birta gamlar og nýjar myndir, spyrja og svara. Þetta átti aldrei að verða svona hefðbundin "bæjarsíða", það var alltaf færi á því fyrir aðra að setja upp slíka síðu.
Svona hafa reglurnar verið:
Á þessum tíma var ég farinn að fá æ meiri áhuga á því sem liðið er og sá áhugi hefur vaxið frekar en hitt. Ég vonaðist kannski til þess, að ég gæti nýtt mér eitthvað af efninu sem fólk myndi deila þarna inni, á fyrirhugaðan vef um Laugarás, en það hefur ekki gengið fyllilega eftir, enda sýn mín á hópinn mögulega ekki sú sama og annarra notenda að öllu leyti.
Þessi hópur er opinn öllum og tilgangurinn með stofnun hans er að búa til vettvang þar sem Laugarásbúar og aðrir þeir sem áhuga hafa á, geta miðlað því sem þeir hafa fram að færa um Þorpið í skóginum og svæðið sem það er hluti af. Hópurinn gæti t.d. verið vettvangur þar sem íbúar Laugaráss geta kynnt starfsemi sína, fyrirtæki eða áhugamál. Í þessum hópi getur fólk deilt nýjum og gömlum myndum frá Laugarási og nágrenni. Þá er hópurinn kjörinn vettvangur fyrir þá sem vantar upplýsingar um flest sem lýtur að Laugarási.
Ekki er gert ráð fyrir að hér séu hlutir auglýstir til sölu eða gefins, enda aðrir hópar hentugri til slíks.
Nú, þar sem ég stofnaði hópinn, get ég ákveðið hvað verður um hann. Eins og staðan er nákvæmlega núna, þá hef ég í hyggju að stíga til hliðar um næstu áramót og fela öðrum umsjón með gripnum.
Svo heldur lífið bara áfram . 😃
------------ UPPFÆRT 27. október ------------
Ég hef kannski ekki verið nægilega skýrmæltur hér að ofan, en þó svo ég færi stjórn Fb-hópsins á annars herðar, er fjarri því að ég, bráðungur og ferskur maðurinn ætli að leggja árar í bát og treysti því að ég fái áfram að leggja eitthvað til málanna, eftir því sem andinn blæs mér í brjóst.Þetta snýst aðallega um að ganga út úr því hlutverki að þurfa við og við að slá á puttana á fólki, sem, í aðgæsluleysi, hefur sett eitthvað inn sem ekki fellur að tilgangi hópsins. Mér finnst að það hlutverk sé betur komið hjá einhverjum sem býr í Laugarási.
Eftir sem áður, er það mín skoðun, að svona hópur, þar sem engin kauup og engin sala á sér stað, eigi fullan rétt á sér og geti átt blómlegt líf. Í það minnsta vona ég að svo geti orðið áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli