07 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (9) LOK

Fjölskyldan 1960
mynd Matthías Frímannsson
  Þetta er framhald af 1  2  3  4  5  6 7 8

Í dag, 7. október, 2020 er öld liðin frá fæðingu móður minnar. Ér er nú búinn að fara yfir æviferil hennar, eftir því sem mér hefur verið unnt, en örugglega er margt sem hefði átt heima í svona samantekt, sem mér hefur ekki tekist að grafa upp. 

Hér í þessum síðasta þætti, hef ég ætlað mér að reyna að búa til einhverskonar mynd af Guðnýju Pálsdóttur, en það virðist ætla að verða hægara sagt en gert.  Þar kemur aðallega tvennt til. Annarsvegar er varlegt að treysta gloppóttu minni, en ég hef löngum búið við að að búa ekki yfir minningum sem aðrir, í kringum mig hafa á hraðbergi. Hinsvegar á ég 4 systkini sem kunna að hafa talsvert aðra sýn á og betra minni um móður okkar en ég. Þar með gæti skapast misræmi í frásögnum, ef eitthvert þeirra skyldi nú taka sig til og rifja upp sögu Hveratúnsfjölskyldunnar. Mér fyndist það reyndar vel við hæfi.


Auðvitað get ég látið duga það sem skrifaði fyrir tveim árum, þegar 100 ár voru frá fæðingu Skúla Magnússonar, enda líf þeirra og starf samofið frá því þau hófu búskap vorið 1946 og þar til Guðný lést. Þau ráku saman fyrirtæki og voru eigin herrar, eins og þau hafði dreymt um.  Jú, rétt er það, að með þeim var ákveðin verkaskipting - allavega eftir fjölskyldan stækkaði. Hann sá þá um hið ytra en hún um það sem var innávið.  Margt fólk í nútímanum á erfitt með að átta sig á því að nútíminn er aldeilis gjörólíkur þeim veruleika sem var fyrir áratugum og hneykslast jafnvel á því hvað konur létu yfir sig ganga áður fyrr. Ætli sé ekki best að ég hætti mér ekki lengra út á þessa braut.

Með elsta soninn um 1955

Mamma var húsmóðir í sveit, fyrst og fremst og ég tel hana hafa verið stolta af því hlutskipti sínu, enda held ég að hún hafi mátt vera það. Starf hennar, held ég að hafi verið talsvert snúnara og umfangsmeira en við getum jafnvel ímyndað okkur. Þarna var barnafjöldinn meiri en nú er algengt. Foreldrar mínir tóku þátt í að framleiða barnasprengjukynslóðina eftir stríð. Læknavísindin drógu úr barnadauða og pillan var ekki komin á markað. Það þurfti að sinna öllum þörfum allra á heimilinu, vinna matvæli, matbúa, þvo, þrífa, sauma föt, sinna ungbörnum, ala upp stálpaðri börn og bara almennt að skapa  heimili þar sem fólki leið sem best. Hafa ber í huga að það voru ekki til uppþvottavélar, sjálfvirkar þvottavélar eða kæliskápar á þessum frumbýlingsárum. Ég sé fyrir mér, að vinnudagarnir hjá Guðnýju Pálsdóttur hafi verið ansi langir. 



.

Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið 
sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var 
byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Íbúðarhúsið í Hveratúni gat nú varla talist beisið þegar Skúli og Guðný fluttu þar inn. Það var um 60 fermetrar. Í því var ekkert eldhús til að byrja með, það var stofa, svefnherbergi þar sem öll fjölskyldan svaf, nema afi, sem fékk eigin skonsu, sem var jafnframt borðstofa á daginn. Svo var lítið búr, lítið baðherbergi og lítil geymsla sem var einnig þvottahús. 


Ég minnist þess ekki að mér hafi einhverntíma þótt þröngt um mig í þessu húsi, ekki einusinni þegar við vorum orðin 8 undir lok sjötta áratugarins. Svo var amma á Baugsstöðum dugleg að koma í heimsókn og svaf þá í stofunni. Á sumrin voru vinnukonur til að passa börnin og hjálpa til í garðyrkjunni og í einhverjum tilvikum sváfu þær í tjaldi í garðinum fyrir sunnan hús.  

Guðný var mikil fjölskyldumanneskja sérlega metnaðarfull þegar kom að börnunum. Hún var trúaðri en gengur og gerist í nútímanum og það varð ekki undan því vikist að fara í messu þegar messað var og þegar ekki var bíll á heimilinu var gengið í Skálholt. Ég man að ég var búinn að fá alveg nóg af öllum þessum kirkjuferðum. Hún var ekki beint sátt við það, konan, þegar móasik mynd Nínu Tryggvadóttir var sett upp í kirkjunni í stað krossins sem þar hafði verið komið fyrir til bráðabirgða. Ekki veit ég hvernig hún hefði brugðist við ef við hefðum ákveðið að sleppa því að skíra eða ferma börnin okkar. Hún tilheyrði, eins og ég hef áður nefnt, kynslóð, sem hafði allt önnur gildi í hávegum, en þau sem nú eru efst á baugi.  Þannig var það nú bara og þótti harla eðlilegt - hvort það var gott, hinsvegar, er svo allt annað mál. 


Var hún ströng? Ég leyfi mér að halda það og þá ströng á þann hátt að hún setti börnum sínum mörk. Ég held jafnframt að ég hafi ekki haft neitt slæmt af því - þó ég viti það ekki. Það verður víst seint leitt fram í dagsljósið úr þessu.  

Ég hef áður minnst á Jarþrúði Einarsdóttur (1897-1967), sem var kennari Guðnýjar á æsku og/eða á unglingsárum. Hún var frá Tóftum og langafi Jarþrúðar og langamma Guðnýjar voru systkin.  Þessar tvær héldu sambandi alla tíð og skrifuðust á og Guðný trúði Jarþrúði fyrir ýmsu sem varðaði börnin. Ég gerist nú svo djarfur, að birta hér hluta úr tveim bréfum sem hún sendi Jarþrúði (hvernig þau komu síðan til baka til hennar aftur, veit ég auðvitað ekki, en grunar að það hafi gerst eftir að Jarþrúður lést).  Þessi bréf eru skemmtileg heimild um lífið í Hveratúni. Fyrra bréfið er frá 1958. Þá var bara Magnús ófæddur og fjölskyldan bjó í Gamla bænum. Þá var Ásta 11 ára, Sigrún 9 ára, Páll að verða 5 ára og Benedikt tveggja ára. Þarna bjó Magnús afi okkar einnig og aðstoðaði við uppeldið á sinn hátt. 

Með Þorvaldi Skúla, Guðna Páli og Agli Árna

6. des. 1958

Nú eru börnin að hlusta á barnatímann í útvarpinu. Það er sérstaklega gaman að horfa á Pál, hvað hann hlustar af miklum áhuga - sá litli er svolítið farinn að hafa vit á að hlusta og þó er það nú ekki allt, sem hentar honum, en oftast er hann fullur áhuga þegar hann situr hjá afa sínum og hann segir þeim sögur. Það er oft hljótt þegar hann segir þeim sögu. Það er gott að hafa afa. Þeir eru nú ekki allir eins og Magnús. 

Palli er byrjaður  að kveða að hjá pabba sínum. Hann virðist ætla að verða áhugasamur námsmaður. Þegar byrjaði að skyggja á kvöldin í haust heimtaði hann strax að pabbi hans færi að kenna sér. Vonandi verður það varanlegt.

Nú, það er ég sem er að reyna að koma þessu saman og því ekki nema von að ég tíni fram eitthvað jákvætt um mig.

Með Guðnýju Rut 1984

Þau voru fleiri bréfin til Jarþrúðar og hér eru staðan á öllum börnunum tekin  fyrir. Við vorum snillingar, að sjálfsögðu. Þarna var Ásta á fimmtánda ári, Sigrún á því þrettánda, Páll 8, Benedikt 5 og Magnús 2ja ára: 

7. febrúar, 1962

Ásta er á Skógaskóla. Ég fékk bréf frá henni í gær. Hún er mjög ánægð. Það er nýafstaðið miðsvetrarpróf. Þar stóð hún sig vel. Fékk 9,09 í meðaleinkunn. Hún lærði ensku og dönsku í bréfaskóla SÍS í fyrravetur og kemur það sér vel núna. Enskan er hennar bezta fag, þ.e.s. henni finnst hún svo skemmtileg. Það er auðvitað grobb að vera að skrifa þér þetta, en það geri ég af því að þú hefur hug á þessum hlutum. Hún fékk 9,9 í ensku og 9,7 í dönsku.

Sigrún er í barnaskólanum í Reykholti. Ef hún herðir sig ætti hún að ná fullnaðarprófi í vor, en hún er 12 ára. Hennar bezta fag er kristinfræði. Það er öfugt við Ástu því hún var lægst í henni á miðsvetrarprófum, sennilega ekki lesið nóg undir það.

Páll hefur verið í skóla hjá dýralæknisfrúnni, en er nú hættur og stendur til að senda hann með Sigrúnu eftir tæpl. hálfan mánuð. Hann er orðinn sæmilega lesandi og á gott með að læra. En verst er hvað hann er hroðvirkur varðandi skriftina. Vonandi getur Óli Möller lagað það, en hann er mjög góður skriftarkennari. Það var sem fargi væri létt af Páli þegar hann mátti fara með Sigrúnu í skólann.

Benedikt er 5 ára og er mjög áhugasamur námsmaður, a.m.k. enn sem komið er. Rekur á eftir því að hann sé látinn lesa. Hann er farinn að kveða að og les stutt orð.

Magnús litli er skýr og skemmtilegur. Þar er gott mannsefni, ef hann verður ekki eyðilagður í uppeldinu. Því miður er ég ekki góður uppalandi.


Ég tek fram að ég sleppi ákveðnum þætti, þar sem fjallað er um mál sem betur er sleppt, en mamma dró fátt undan í bréfunum til Jarþrúðar. 

Nú verð ég bara að vona, að systkini mín fyrirgefi mér að hafa dregið þau svona fram í dagsljósið, en tel þetta ekki hafa verið þeim til vansa.

Mömmu þótti ekki leiðinlegt að fá gesti, en mér finnst að það hafa alltaf verið mikill gestagangur í Hveratúni, Ættingjar og æskuvinir voru oft á ferðinni og nutu góðgerða, enda var alltaf eitthvað til í búrinu. Maður get nokkuð treyst því, enda voru ferðir í búrið til að kanna hvort þar væru kökur sem búið var að taka sneiðar úr, eða kleinur. Þó ég segi það sjálfur þá var mamma snillingur í að baka og kleinurnar hennar og flatkökurnar engu líkar. 

Samfélagið í Laugarási, allavega þar til ég hleypti heimdraganum, var afar  þétt. Fólkið kíkti oft í heimsókn hvert til annars, skiptist á jólagjöfum og afmælisgjöfum og  tók þátt í gleði og sorgum. Þegar einhver fermdist var sérstök veisla fyrir ættingjana og síðan önnur fyrir nágrannana.   

Ég efast ekki um, að við þetta gæti ég bætt ýmsu og reikna með, að eftir nokkur ár muni hafa opnast enn frekar inn á æskuár mín og þar með minningar um mömmu. Það bíður þá síns tíma.

Guðný Pálsdóttir hefði átt að eiga lengri ævi, en að því er ekki spurt, frekar en fyrri daginn. Á níuanda áratugnum fór hún að kenna veikinda sem síðan leiddu til þess að hún lést þann 19. desember 1992, 72 ára að aldri. Útför hennar fór fram í Skálholti að þar hvílir hún hjá eiginmanninum, sem lifði hana sem nam 22 árum. 

 

Leiðið í Skálholtskirkjugarði.
Mynd Ásta Skúladóttir

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...