01 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (5)


Þetta er framhald af 1  2  3  og 4

Hallormsstaður
Það er svo sem ekki margt sem ég finn til að segja frá dvöl Guðnýjar á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, en þar var hún í skóla veturna 1937-38 og 1938-39.  
Eitt bréf er þó að finna frá haustinu 1938. Það byrjaði hún að skrifa  á 17 ára afmælisdaginn sinn, þann 7. október, til Möggu [Margrétar Júnúsdóttur rjómabússtýru á Baugsstöðum] og fjallar um daginn þann. Hún heldur síðan áfram með bréfið þann 9. október og lýkur því þann 16.  Mér varð á að hugsa, að fólk hljóti að hafa hugsað með allt öðrum hætti um tímann á þessum árum. Ég sé sjálfan mig setjast niður til að skrifa tölvupóst og taka mér 10 daga í það. Þarna var nú ekki asanum fyrir að fara.

Margrét Júníusdóttir t.h. og Guðrún 
Andrésdóttir. Mynd frá því um 1960.

Hvað um það hér koma brot úr bréfinu, og það gefur nokkra mynd af lífinu á Hallormsstað hjá þessari 17 ára yngismey.

[Laugardagur 7. okt.]
Fyrst í morgun þegar ég opnaði augun, lá bréf á koffortinu mínu og í því var bók og kort frá skólasystrum mínum. Bókin var: Þitt ríki komi, eða 77 sálmar.
Svo í dag var ég að fara að sækja vambir út í tunnu við ána og önnur stelpa var með mér. Mæti ég þá Blöndal [Benedikt Blöndal] og hann sagði mér að ég ætti 2 skeyti niðri á Hallormsstað og hvort ég vildi ekki stökkva eftir þeim núna. Ég þáði það og hljóp með allt gorið og strigasvuntuna niður eftir. Og ég varð alveg hissa á öllum þessum ósköpum. 
Svo núna í kvöld var drukkið kaffi og skreytt borðið með blómum og allskyns kökur með kaffinu. Og ég látin sitja við vinstri hönd frúarinnar [Sigrún P. Blöndal, skólastýra] og matreiðslukonan svo við hliðina á mér. Ég er hrædd um að ég hafi ekki á von á þessu. Og nú er ég komin upp í rúm og skrifa þetta á hnjánum og þá kom Rósa upp til mín með vasa með blómum frá Þórnýju.

Mér líður vel hérna og ég vona að það standi sem lengst. Ég get ekki sagt að ég finni til leiðinda. Það hefur alltaf verið nóg að gera. Við höfum núna í heila viku verið að atast í slátri og verðum víst líka í næstu viku. Það er nú bara skemmtilegt.Ég hef nú ekki meiri vilja núna. Við förum á fætur kl. 7 á morgnana og oft seint að sofa og nú er ég orðin syfjuð. Ætla að hætta.

[Sunnudagur 9. okt.]
Það er komið kvöld og ég er óánægð með dagsverkið. Fyrst fengum við kakó kl 8 1/2 , svo strax þegar ég kom upp eftir fór ég undir sæng og svaf til að ganga 1. Svo hefur dagurinn farið alveg til einskis. Ekki kemur pósturinn ennþá og ég er orðin langeyg eftir honum, því núna hlýt ég að fá mikið af bréfum.
Ég var að enda við að skrifa mömmu, það er þriðja bréfið sem ég skrifa henni. Mér finnst það nú lítið. Ég er ekki í myrkrinu við að skrifa. Það eru hér tvö ljós, annað er ég með hérna á borðinu hjá mér.
Það er öðruvísi en heima, en samt held ég að ég vildi heldur vera komin heim og sitja við kerti eða lampa. En það er samt allt gott hérna hjá mér núna og ég er alltaf ánægð. En það versnar víst allt þega bóklegu tímarnir koma og fara að verða reglulegir tímar. En vonandi verður það nú ekki.

[ Sunnudagur 16. okt.]
Inga [ Ingunn Ósk Sigurðardóttir] er komin. Nú líður mér vel. Ég get ekki sagt þér neitt nýtt. Verð nú að slá botninn í bréfið því bíllinn er að fara. Ég bið hjartanlega að heilsa Gunnu [Guðrún Andrésdóttir] og líka Rjómabúinu.
Annað bréf hef ég undir höndum sem Guðný skrifaði móður sinni í mars 1939, og var þá farið að styttast í námslok.  Þetta bréf er skrifað af ákveðinni ástæðu og er konan að leita liðsinnis foreldranna í því efni. Hér er hluti bréfsins:

(19. marz 1939) 
Ég er að koma af samkomu austan úr Skriðdal, en þangað hefði ég ekki átt að flækjast. Mig langar til að skrifa Sillu [Sigurlaug Siggeirsdóttir] þá ferðasögu. Ég ætla að skrifa þér um annað, þ.e. Frú Blöndal talaði við mig á laugardaginn og spurði hvort mér væri ekki sama þó hún skrifaði pabba og talaði um næsta vetur við hann. Eins sagði hún, að sig langaði til að ég yrði á þriggja vikna prjónanámskeiði hér í vor og vill spyrja ykkur hvort þið vilduð það ekki. Hún ætlar þá að fæða mig.  En ef ég yrði á þessu námskeiði yrði ég ekki heima þegar Geiri [Siggeir Pálsson]yrði fermdur  og komi ekki heim fyrr en í byrjun júní. 
En nú ætla ég að biðja ykkur um það, ef pabbi fær bréf frá frúnni og skrifa henni aftur, að hann segist í bréfinu ekki geta látið mig vera hérna svona lengi. En hún vill láta mig læra að prjóna til þess að ég yrði hérna næsta vetur, að ég gæti þá kennt prjón. En ég held ég láti ykkur alveg um það hvort ég verð heima eða hérna. "Ég vil heldur vera heima". Þið skuluð segja frúnni allt sem ykkur sýnist ef hún hefur skrifað ykkur.

 Svo segir Guðný frá veikindum Frú Blöndal og heldur síðan áfram:

Mikið er hún góð við mig. En ég finn það að ég get ekki orðið eftir þegar Inga [Ingunn Ósk Sigurðardóttir] fer heim, þó ekki séu nema þrjár vikur. Ég vona að þið getið ráðið fram úr þessu. Ef þið álítið gott að ég verði hérna, þá verð ég. Ég veit að ég hef gott af því. Mér þykir verst hvað frúin treystir mér vel og leggur mikið uppúr mér - því ég á það ekki skilið, alls ekki.
Sigrún og Benedikt á Hallormsstað með syni sínum,
Sigurði (standandi) of fóstursyni, Skúla Magnússyni.


Loks segir Guðný í eftirskrift:

Segið Frú Blöndal ekki að ég vilji ekki vera hjá henni. Heldur að þið megið ekki missa mig, því ég vil vera hjá henni, en frekar hjá ykkur.

Já, þær eru ýmsar klemmurnar sem finna þarf lausn á. Ekki trúi ég að það hafi verið auðvelt fyrir Guðnýju að ákveða að skrifa þetta bréf til foreldra sinna, enda fer ekki á milli mála í bréfinu og síðar á lífsleiðinni að Frú Blöndal reyndist henni ávallt afskaplega vel og fyrir henni bar hún mikla virðingu. 

Ég kem síðar að því hvernig dvöl Guðnýjar á Hallormsstað hafði afgerandi áhrif á tilveru okkar Hveratúnssystkina og afkomenda okkar. Mögulega má einnig segja að þetta bréf hafi skipt sköpum í því efni.....hver veit?

Guðný (fyrir framan til vinstri) með nokkrum skólasystrum á Hallormsstað, sem ég veit ekki nöfnin á.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...