27 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (3)

Elín Jóhannsdóttir með börn sín,f.v. Guðnýju,
Elínu Ástu og Siggeir. Móðir hennar, Elín 
Magnúsdóttir standandi.
  Fyrri færslur um sama efni: (1) og (2)

Hún kom í heiminn þann 7. október 1920, fyrsta barn foreldra sinna, sem þá voru skriðin tvö og þrjú ár yfir þrítugt. Á Baugsstöðum var nóg af fólki til að sinna henni og leiðbeina fyrstu skrefin á lífsgöngunni, enda voru þetta ár 10 einstaklingar með heimilisfesti á Baugsstöðum. Ég hlýt að reikna með, að auk móður hennar, hafi þær Elín, amma hennar, þá 64 ára og frænka hennar, Kristín María Sæmundsdóttir (Stína María), 14 ára, gegnt veigamiklu hlutverki við að sinna henni. 
Það var nóg að bíta og brenna á heimilinu, enda gnægtaborð hafsins í túnfætinum. Faðir hennar Páll var formaður á báti sem hann gerði út frá Loftsstaðasandi og Baugsstaðir voru verbúðir fyrir eina 40 karla á vertíð. 

Þegar Guðný var tveggja ára fæddist foreldrum hennar önnur dóttir, Elín Ásta, síðan kom Siggeir í heiminn 1925, og loks Sigurður 1928. Það segir nú fátt af fyrstu árum í lífi systkinanna þarna til að byrja með. Sigurður er sá sem enn er til frásagnar og eðlilega er minni hans um það sem gerðist á Baugsstöðum áður en hann fæddist, harla gloppótt, þó svo hann sé eins og alfræðiorðabók um fólkið og lífið á Baugsstöðum og í nágrenninu, að ýmsu öðru leyti. 

Hann gat sagt mér það, af skólagöngu þeirra systkina fyrstu árin, að hann sótti um tíma farskóla í Gaulverjabæ og um tíma var ráðinn, að undirlagi Magnúsar Hannessonar í Hólum, kennari sem kom að Baugsstöðum og kenndi Sigga, Helga Ívarssyni, fóstursyni Magnúsar og Hinrik Ólafssyni í austurbænum. Helgi og Hinrik voru ári yngri en Siggi.  Að sögn Sigga taldi Magnús í Hólum farskólann í Gaulverjabæ vera hálfgerðan vandræðastað fyrir fósturson sinn réði þess vegna kennara sem kom frá Eyrarbakka og kenndi þremenningunum á Baugsstöðum.  Siggi segir skólagöngu sína hafa verið um það bil eitt ár alls.

Guðný fékk að njóta leiðsagnar Jarþrúðar Einarsdóttur á Tóftum ásamt æskuvinkonu sinni, Ingunni Ósk Sigurðardóttur, en hún var bróðurdóttir Jarþrúðar. Síðar þróuðust málin þannig, að Jarþrúður fékk inni fyrir Ingunni á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og það æxlaðist svo, að Guðný fór þangað einnig. 

Bréf Guðnýjar til systur sinnar 1932 (12 ára)

Af systkinum Guðnýjar er það að segja, að systir hennar, Elín Ásta, lést skömmu fyrir 11 ára afmælið sitt*.  Bræður hennar, Siggeir (Geiri) (1925-2001) og Sigurður (Siggi) (1928 -) ólust upp á Baugsstöðum og tóku þar við búi foreldra sinna í fyllingu tímans. Það sagði Siggi mér, að eftir að Páll afi hætti að stunda sjóinn (1958) réru bræðurnir (eða bara Geiri) í um tvö ár, en þá var báturinn seldur, hvort sem það var vegna þessað Páll vildi ekki að bræðurnir héldu áfram að stunda róðra frá Loftsstaðasandi, þar sem það var ekki hættulaust (segir Siggi), eða vegna þess að aflinn hafði farið mjög minnkandi..  

Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig ungt fólk á þeim árum sem hér um ræðir hagaði lífi sína, en reikna með að hugsunarhátturinn hafi ekki verið ósvipaður því sem er á öllum tímum. Ég geri ráð fyrir að það hafi komið í hlut Guðnýjar að aðstoða móður sína við húsverkin og að passa bræður sína þegar hún tók að stálpast. Ekki minnist Siggi neinna árekstra milli þeirra systkinanna.   

Guðný og Ingunn Ósk

Sem fyrr segir, varð það úr að Guðný hleypti heimdraganum ásamt vinkonu sinni, Ingunni Ósk frá Tóftum (Tóttum) í Stokkseyrarhreppi. Þær fengu námsvist í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað haustið 1937 og þar var Guðný tvo vetur hjá þeim Sigrúnu P. Blöndal og Benedikt Blöndal, sem fóstruðu þann sem síðan átti eftir að verða lífsförunauturinn. Sennilega mun ég koma að því síðar.

Ég held að það sé nú svo með lífsferil okkar, að okkur finnst hann svo stór hluti af sjálfum okkur, að einhver miðlun á honum til afkomendanna sé okkur ekki ofarlega í huga, fyrir utan það, að afkomendurnir eru börn og síðan fólk með eigin börn og lífsferil, sem fer ekki að velta mikið fyrir sér fortíð foreldra sinna fyrr en á efri árum. Allavega var það þannig að einhver heildstæð og tiltölulega nákvæm sýn af lífi móður minnar á uppvaxtarárum hennar, var aldrei rædd að neinu ráði. Vissulega þekki ég hana í afar grófum dráttum, en við mörgum spurningum sem upp hafa komið síðar, fást líklega engin svör.  Hún skildi eftir sig ógrynni af bréfum frá ýmsu samferðafólki á ýmsum tímum, en úr þeim er ekkert sérlega mikið að fá af upplýsingum, enda oft sem svona bréf oft byggð að sameiginlegri þekkingu þeirra sem skrifuðust á og því tilvísanir harla óljósar, oft á tíðum.

Það sem er framundan hjá mér er að taka saman einhverskonar, sæmilega heildstæða mynd af móður minni, brot frá tíma hennar á Hallormsstað og þann tíma sem leið frá því skólagöngunni lauk og þar til hún var orðin húsfreyja í Hveratúni, með eiginmanni og síðar börnum.  Þetta ætla ég að reyna að kljást við næstu daga.

*þau sem til þekkja segja dánarorsök Elínar Ástu hafa verið skarlatssótt.

Nokkrar myndir:

Systurnar Kristín, Guðlaug og Elín Jóhannsdætur.
 

Páll og Elín á Baugsstöðum


Baugsstaðasystkinin á fermingardegi Sigga (1942?)
Siggeir, Guðný og Sigurður.


Systkinin frá Baugsstöðum og Tóftum. Aftast Ingunn Ósk og Guðný,
miðja Einar og Geiri, fremst Siggi.



Siggi á Baugsstöðum. Hann segir þetta
vera fyrstu myndina sem var tekin af honum.




Börn Siggeirs Guðmundssonar og Kristínar 
Jóhannsdóttur. Aftari röð f.v. Ásmundur, 
Sigurður og Jóhann. Fyrir framan Sigurlaug 
og Guðmundur Siggeir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...