29 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (4)

Þetta er framhald af 1, 2 og 3

Ég hef nú setið við og reyni að átta mig á hvað ég má eða má ekki fjalla um í þessum skrifum um móður mína, hana Guðnýju Pálsdóttur frá Baugsstöðum. Ég játa það, að í mínum fórum er þykkur bunki af bréfum til hennar og frá henni og ýmislegt fleira í rituðu máli. 

Mér finnst það ljóst nú, að skriftarkennslan sem Guðný fékk, líklegast hjá henni Jarþrúði Einarsdóttur, eða konu sem hét Krístín, var til fyrirmyndar og rithöndin var falleg alla tíð.

Ég hef ákveðið að leika núna biðleik, meðan ég reyni að komast að niðurstöðu um hvernig best er að taka á framhaldinu.

Það var haustið 1934, og Guðný var orðin 14 ára. Sennilega var hún þá undir handarjaðri Jarþrúðar Einarsdóttur sem áður er nefnd. Stílabókina, sem hún notaði við skriftarnámið, bæði til að æfa skriftina sjálfa og einnig til að ástunda skapandi skrif, geymdi hún síðan alla tíð. 
Ég held að mér sé alveg óhætt að birta hér eftirfarandi sögu sem hún skrifaði haustið 1934.



3. stíll Skáldsaga eftir mig
Einu sinni var maður, hann átti 3 dætur, sem hétur Helga, Sigga og Dóra. Helga var þeirra els og var hún þeirra duglegust og laglegust. En hún var alltaf höfð útundan hjá hinum systrunum.
Einu sinni átti að verða dans skemmtun í sveitinni sem Helga átti heima í. Og áttu nú yngri systurnar báðar að fá að fara, en Helga átti að vera heima, ein alla nóttina, en pabbi hennar og mamma fóru og báðar yngri systurnar líka.
Nú fara þau, en Helga er ein eftir. Hún tekur bók og fer að lesa og les uppundir klukkutíma. Svo verður hún syfjuð og fer að hátta sig og lét loga á kerti, því þetta var skömmu fyrir jól.
Síðan leggst hún útaf, en getur með engu móti sofnað, hvernig sem hún fer að. Þá heyrir hún að það er eitthvað þrusk fyrir utan gluggann. Hún verður hálf smeyk og þorir ekki að líta upp. Heyrist henni svo vera bankað, svo hátt og ónotalega á þilið að henni verður svo bilt við að hún þorir sig ekki að hreyfa. Og er þá kallað með hárri rödd: "Ljúk þú upp fyrir mér, eða ég bryt gluggann!" og brá henni nú enn meira en áður því hún gat ekki hreyft sig til þess að ljúka upp, hvað þá að hún gæti nokkuð, ef þessi maður kæmi inn um gluggann. Þá heyrist henni eins og einhver rödd hvíslaði að sér: "Rís þú upp og lúk þú upp fyrir honum, því það verður þér til góðs".
Þá sagði hún við sjálfa sig: "Ekki get ég það, því það þori ég ekki."
Þá sagði röddin: "Ekkert að óttast, ég er með þér."
Þá fór Helga að reyna að standa upp og átti hún þá hægt með það. Hún setti í sig kjark og klæddi sig, tók kertið og labbaði ú í bæjardyr. Þegar hún hafði opnað bæinn kom maður að dyrunum og ávarpaði hana á þessa leið: "Góða stúlka, gef þú mér bita, ég er svo svangur, hef ekki bragðað mat í 3 sólarhringa."
"Já", sagði Helga, "gjörðu svo vel og komdu inn."
Hann var nú ekki álitlegur, með hrafnsvart hár og allur grútskítugur og rifinn frá hvirfli til ilja og þar að auki berfættur.
Er hann hafði matast, fór Helga að spyrja hann hvað hann héti og sagðist hann ekki muna það, því það væri svo langt síðan hann var hjá mennskum mönnum. Svo sagði hann henni ævisögu sína, þegar hann hafi verið strákur hafi honum verið rænt burtu og honum hafi ekki tekist að flýja fyrr en þetta. Og ef hún geti bjargað sér úr höndum óvinanna þá geti hún fengið mikil auðæfi, því hann hafi átt svo ríka foreldra og ef honum tækist að finna þá, þá ætti hann henni líf sitt að launa.
Nú lánaði hún honum vatn og greiðu og hann þvoði sér og Helga varð alveg hlessa. Þarna var kominn laglegur unglingur í staðinn fyrir skítuga manninn.
Síðan kom fólkið, þegar kl. var 4 um nóttina og var nú allt til gert til þess að bjarga manninum.
Svo liðu tveir dagar og enginn kom til þess að leita að honum og hélt hann þá, að hann væri úr allri hættu.
Svo á 4. degi lögðu af stað, Helga og ókunni maðurinn til þess að komast heim til foreldra mannsins.
Á 3. degi komust þau alla leið og varð nú mikill fagnaðarfundur. Og skömmu síðar var haldin veisla mikil og voru þau þá gift, Helga og ókunni maðurinn. Svo tóku þau vð búinu og bjuggu saman við góð kjör til æviloka.

Áttu börn og burur
grófu rætur og murur;
smjörið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann
sem hlýða kann.
Brenni þeim í kolli baun
sem ekki geldur mér sögulaun
fyrr í dag en á morgun.
Köttur út í mýri,
setti upp á sér stýri,
úti er ævintýri.

Guðný Pálsdóttir 14 ára 

Nú get ég farið að hugsa næsta leik, í friði og ró. 


             FRAMHALD

 
 

 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...