04 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (6)


Þetta er framhald af 1  2  3  4  5 
 
Það varð ekki úr að Guðný yrði þriðja veturinn á Hallormsstað til að kenna prjónaskap og ég geri fastlega ráð fyrir að hún hafi náð að vera viðstödd ferminguna hans Geira.
Þegar suður var komið, vorið 1939, tók við tími sem hægt er að lesa ýmislegt um í bréfum. Ég geri nú ráð fyrir að Guðný hafi farið að leita fyrir sér um vinnu, en hafi jafnframt áfram átt Baugsstaði sem heimahöfn.  Mér sýnist, að fljótlega hafi hún fengið vinnu hjá hjónunum Grétari Fells (1896-1968), rithöfundi og Þuríði Kolbeinsdóttur Fells (1896-1943),  og að þar hafi allt gengið eins og best verður á kosið og myndaðist mikill vinskapur milli hennar og þeirra hjóna. Þuríður lést þann 9. október, 1943 (f. 1896), tveim dögum eftir að Guðný varð 23 ára, en í tilefni afmælisins sendu þau hjón henni eftirfarandi kveðju:

Guðný mín, er gengur þú til sængur,
gott er, ef þín bíður draumsins vængur
og lypt þér getur ofar öllum stjörnum.-
En - ýmislegt fleira er nauðsynlegt jarðarbörnum.

Þau klæðast þurfa og halda á sér hita.
Hérna er náttkjóll. - Megi hann á það vita,
að fáklædd bráðum farir þú að skarta
í faðmi einhvers sveins, er kýs þitt hjarta.

Hún fékk, sem sagt, náttkjól í afmælisgjöf.

Þuríður, Grétar og Svava

Grétar Fells kvaddi Guðnýju þegar hún hvarf til annarra starfa vorið 1944, með þessum hætti:

Til
Guðnýjar Pálsdóttur
frá Baugsstöðum, orkt
við burtför hennar
14. maí, 1944.

Til okkar komstu - aldrei því ég gleymi -
er yfir grúfðu helský, þung og dökk,
og illur grunur var sem vofa á sveimi. -
Mín vitjar oft sú minning, hljóð og klökk.
Og konan mín - í sínum hulda heimi -
mun hugsa til þín og - með kærri þökk.

Og þó þú hafir flúið Flóa engið
og fengið í staðinn kaldan malarstig
og hafi kannski óorð af mér fengið,
ég ætla samt - að Drottinn blessi þig,
og þarna hafirðu heillaspor þín gengið,
og himinninn muni borga fyrir mig.

---"---
Frá þeim, sem urðu að mæta hel og harmi,
þú hefur trausta fylgd um lög og grund:
Þökk og vinarhug, sem verndararmi
mun vefja þig á hverri reynslustund.
Lát gróa allt hið besta í þínum barmi,
og bernsku þína geym og fórnarlund.

Vináttan við Grétar Fells og síðari konu hans Svövu (1907-1995) hélst alla tíð og ég man heimsóknir þeirra í Hveratún.

Af bréfi sem Þuríður Fells skrifaði Guðnýju í apríl 1943, má ljóst vera, að það er kominn ungur maður í spilið, en þar segir:

... Og nú kem ég að "HONUM", sem ekki má nefna. Já, þú ert hamingjusöm, Guðný mín, að vera ástfangin. Þetta er einkennilega sætt eitur eða sæl vansæld, eða hvað á nú að kalla það - allt saman af því að mennirnir eru svo lagnir á það, að láta hið bezta og fegursta verða sér til kvalar. Því hvað er fegurra en að elska og vera hrifinn eða heillaður af annarri mannlegri sál - eða einhverju sem er þess vert, að það sé elskað, t.d. fagurt landslag, fagurt sönglag eða fagurt málverk? Gallinn er aðeins sá, þegar um mannlegar sálir er að ræða, að þá viljum við fara að nudda okkur utan í þær, - og þó fyrst og fremst utan í þetta ytra gerfi, sem þær birtast í - og úr því verður auðvitað oft - leiðinlegt "nudd". Nei, ég segi þér satt, Guðný mín, að ég er karlinum mínum sammála um það, að svo kölluð "óhamingjusöm ást" er ekki til, það er að segja ef ástin er sönn. Hvers vegna ætti þér að líða illa þótt þú vitir af einhverjum yndislegum - voðalega - agalega - sætum manni, jafnvel þótt þú getir ekki gert þér vonir um að smakka á honum eða borða hann upp til agna???  Karlinn minn segir - og hann veit nú stundum hvað hann syngur - að hægt sé að prófa ástargildi sitt og annarra með því að spyrja sjálfan sig:

ER ÞESS TILFINNING, SEM ÉG KALLA ÁST, FRIÐGÆF?

Það er að segja: Veitir hún mér frið?

Sé svo ekki, þá er ekki um sanna ást að ræða, heldur eitthvað annað - lílega girnd eða holdsfýsn - kjötkraft ........ En þetta fer nú að verða allt of hátíðlegt hjá mér og mér hefur aldrei látið það að vera hátíðleg, og því er bezt að snúa sér að einhverju öðru.

Árin sem Guðný var í þessari vist hjá Grétari og Þuríði, líklega frá því fljótlega eftir að hún kom frá Hallormsstað, glímdi Þuríður  við mikla vanheilsu sem lyktaði með því, að hún lést haustið 1943. Guðný virðist síðan hafa haldið heimili fyrir Grétar til vors 1944. 

Það sem hún tók sér fyrir hendur í þegar hún kom úr borginni, virðist hafa verið af sama meiði: að sinna þeim sem þurftu á hjálp að halda. Ég veit um, í það minnsta þrjá staði, þar sem hún kom til skjalanna þar sem um var að ræða fjölskyldur með nýfædd börn og var hún þá að aðstoða mæðurnar við heimilishaldið, sem gat verið þungt víða, enda barnafjöldinn oft talsvert meiri en nú tíðkast.  

Guðný og Ingunn Ósk á Hallormsstað.

Í janúar fæddist þeim Ingunni Ósk Sigurðardóttur, oft nefndri vinkonu Guðnýjar, og Páli Björgvinssyni á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, sitt fyrsta barn, Ragnheiði Sigrúnu, og má nærri geta að Guðný hafi verið til taks tila að aðstoða hina nýbökuðu móður, enda annasamt heimili. Páll var á kafi í félagsmálum og var oddviti Hvolhrepps frá 1949 til dauðadags 1967.  Ingunn á Efra-Hvoli kom talsvert við sögu í tilhugalífi foreldra minna, trúi ég.

Bræðraborg (Kirkjuvegur 8)

Frá Efra-Hvoli fór Guðný til aðstoðar á Bræðraborg (Kirkjuvegi 8) á Selfossi, en þar höfðu þá nýhafið búskap á Ólöf Bryndís Sveinsdóttir (Binna), frá Tóftum eins og Ingunn Ósk og æskuvinkona Guðnýjar og Jón Ingibergur Guðmundsson, sem þá var bifreiðastjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna og Kaupfélagi Árnesinga. Hann varð seinna yfirlögregluþjónn í Árnessýslu og var alltaf kallaður Jón lögga í mínu ungdæmi. Saman gengu þessi hjón undir heitinu Jón og Binna og komu oft í heimsókn í Hveratún. Þarna í janúar 1945 eignuðust Jón og Binna sinn fyrsta af fimm sonum, Ingvar og auðvitað kom Guðný til aðstoðar.

Aðalból (Hrísholt 8) 
þarna var Bifreiðaeftirlitríkisins til húsa um tíma


Þriðji staðurinn sem ég veit að hún kom við sögu í samsvarandi erindagjörðum, var Aðalból á Selfossi, en það var hjá fólki sem hún þekkti ekkert til.

Ég var dauf af því að nú er ég ennþá einusinni að hafa vistaskifti, og fer ég til fólks sem ég þekki ekkert. Hef ekki einusinni séð frúna. Það er hér við Ölfusá. Þar eru vandræði af því það vantar svo stúlku. Og ég er nokkurskonar líknarsystir. Í þessu  tilfelli ól konan barn og kom það dáið. Hún hefur haft stúlku, sem verður að fara heim til sín vegna þess að þar eru veikindi. Barneignir eru mitt fag, þó ég þurfi ekki að fæða neitt af mér til þess að stunda þær. Ég fæ ekki að vera í friði. Það eru tveir staðir sem búið er að að biðja mig um aðstoð og þykir mér ekki meira en svo vænt um að fólk sé að fást við þessa framleiðslu.
(úr bréfi til Skúla, dags 18. febr. 1945)

Í bréfi sem hún sendir síðan Skúla í byrjun marz segir hún um dvölina á Aðalbóli:

Ég hef mikið að gera, en ég hef ekki nema gott af því - er orðin spikfeit. Hér eru fimm drengir 12-10-8-6 og 3ja ára gamlir og konan getur lítið ennþá. Hún er mjög myndarleg svo ég hef gott af því að vera með henni. Læri að minnsta kosti hvernig ég á að hegða mér ef ég eignast svona marga stráka!! Og það er ekki lítill kostur. Þeir eru mjög góðir við mig og hefur mér tekist vel að hæna þá að mér.*

Ég geri  mér alveg grein fyrir því að Guðný kom víðar við en á þeim stöðum sem hér  hafa verið nefndir, á þeim 5 árum sem liður frá því hún lauk dvöl sinni á Hallormsstað og þar til  samband hennar og fóstursonarins á Hallormsstað fór að taka á sig verulega alvarlega mynd.  Ég hyggst reyna að gera grein fyrir því eftir mætti - næst. 


* Hjónin sem Guðný var þarna hjá voru að öllum líkindum, Guðrún Jónsdóttir frá Melshúsum á Eyrarbakka og Vigfús Guðmundsson. Elsti sonurinn var Eggert sem lærði bifvélavirkjun og var síðar slökkviliðsstjóri á Selfossi. Næstur var Guðni, seinast umsjónarmaður á Nesjavöllum í Grafningi. Svo kom Þór, hagfræðingur að mennt, síðar skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þá Jón, sem var skipstjóri hjá Eimskip. Yngstur sonanna var Örn, sem var mjólkurfræðingur. Guðrún lést 1950.  


FRAMHALD

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...