05 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (7)

Þetta er framhald af 1  2  3  4  5 6 

Ég gekk nú alltaf út frá því sem gefnu, að foreldrar mínir hafi kynnst á Hallormsstað, enda þar bæði á sama tíma. Nú veit ég aðeins betur og aðeins vegna þess að þau tóku að skiptast á myndum á fyrri hluta árs 1945. 

Mikið þykir mér vænt um myndina af þér, ..... Mér þykir verst að ég á enga litla, sæta til að senda þér. En ég sendi þér þá beztu sem ég á - af minni sortinni. Þú færð stærri þegar þú kemur að heimsækja mig. Á þessari mynd er ég 17 ára gömul námsmey á Hallormsstað. Mér finnst vel viðeigandi að senda þér hana. Þá sá ég þig fyrst. Ég man ennþá eftir þér þar sem þú sast á móti mér við borðið hjá Guðrúnu Jens[*]. Manst þú eftir því? Ekki datt mér í hug þá að ég ætti nokkurntíma eftir að kynnast þér. - Mér finnst satt að segja hálf skrítið hvað við erum orðin góðir kunningjar allt í einu. Við sem vorum svo ósköp feimin hvort við annað. Allt "Saklausa svallaranum" að þakka. Mikið er ég honum þakklát. Já, og henni Ingu, að hún skyldi eignast barn og fá mig til að hjúkra sér.
* Guðrún Jensdóttir kenndi matreiðslu, hússtjórn og matarfræði í eldri deild og ræstingu í báðum deildum, allavega þegar skólinn tók til starfa 1930.

Eins og er með sendibréf milli fólks, þá fjalla þau oft um sameiginlega reynslu utan bréfasendinga og því allskyns tilvísanir sem erfitt getur verið að ráða í.  Ég ætla samt að reyna að útskýra fyrir sjálfum mér og ykkur hinum hvernig þetta var.
Ingunn Ósk, margnefnd, var fædd 1917 og því þrem árum eldri en Guðný. Hún fór til náms að Hallormsstað haustið 1936, var síðan við nám í tvö ár, en starfaði síðan við skólann veturinn 1938-9. Guðný kom hinsvegar í skólann haustið 1937, eins og áður segir og var þar í tvo vetur og lauk námi vorið 1939.
Skúli Magnússon var í Menntaskólanum á Akureyri veturna 1936-7 og 1937-8 og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Hvar hann ól manninn veturinn 1938-9 (síðari veturinn sem Guðný var á Hallormsstað), bara hreinlega veit ég ekki. Varla hefur hann verið á Hallormsstað því ef svo hefur verið þá ættu þau nú að hafa rekist oftar hvort á annað en einu sinni sitthvorumegin við matarborð.  Guðný var 17 ára frá október 1937 til október 1938, en þá segir hún þau hafa sést fyrst.

Svo er það með tilvísunan í "Saklausa svallarann", sem ég átta mig ekki alveg á. Finnst ég hafa heyrt af því að þau hafi hist þar sem þetta leikrit var sýnt í Þykkvabæ á einhverjum tíma og hafi þar rifjað upp sameiginlega dvöl á Hallormsstað. Um þetta er ég hreint ekki viss. Það getur vel verið, að tilvísunin sé miklu dýpri og vísi til aðstæðna þar sem þau hittust og þar sem "saklausi svallarinn" hafi verið tekinn til bæna. Hvað veit ég, allavega eru víst fáir eða engir til frásagnar um hvernig þetta gerðist.  Ég gekk meira að segja svo langt að leita á timarit.is að auglýsingumum sýningar á þessu leikverki í Þykkvabæ, einhverntíma, en fann ekkert nægilega sannfærandi.

Jæja, ég held ég reyni ekki að pæla í þessu frekar.

Skúli og Ólafur Stefánsson, síðar garðyrkjubóndi
á Syðri-Reykjum (mynd frá S-Reykjum)

Skúli fór suður í desember 1939, var fyrst á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði, áður en hann fór að Syðri-Reykjum, þar sem hann var síðan í starfsþjálfun og  við störf næstu árin.
Guðný lauk náminu á Hallormsstað vorið 1939 og hélt á heimahagana.
Fyrsta bréfið sem ég hef, sem fór á milli þeirra, er frá Skúla, ritað í febrúar 1942 og ekki er annað að skilja á því en þá væru þau farin að hittast þegar tækifæri gafst. Eftir þetta bréf er gat í bréfasafninu þar til í febrúar 1945. Ekki efa ég að mörg hafi bréfin verið milli 1942 og 1945, en þau finnast ekki. Fyrir því kunna að vera gildar ástæður - hvað veit maður?

Ég tek mér það bessaleyfi að leyfa innihaldi bréfanna sem Guðný og Skúli sendu sín á milli, að stærstum hluta  árin 1945 og 46 að vera áfram óþekkt á samfélagsmiðlum, að því leyti sem snýr að persónulegri tjáningu þeirra og tilfinningamálum. Hlutverk þessara bréfa var að viðhalda sambandi sem smám saman þróaðist yfir í hjónaband.  Ég reyni að sjá foreldra mína (sem áttu eftir að verða) sem ungt fólk, sem var að fóta sig í tilverunni. Manni finnst oft að eldra fólk hafi aldrei verið ungt og reynslulítið, sérstaklega foreldrar manns, sem oftar en ekki eru holdgervingar fullkomnunarinnar. Auðvitað er það aldrei svo. 

Skúli og Stefán Árnason
(Mynd frá S-Reykjum) 

Skúli og Guðný opinberuðu trúlofun sína árið 1945, svo mikið er víst, en það sá ég í bréfi frá Ellý (Elín Ágústdóttir, dóttir Viktoríu Guðmundsdóttur, sem var hálfsystir Elínar, mömmu Guðnýjar (ömmu minnar) og átti heima á Aðalbóli í Vestmannaeyjum ásamt foreldrum sínum og systkinum).    
Í bréfinu segir Ellý meðal annars:
9/9 - 1945
Ja, sá óratími síðan ég hefi skrifað þér. Mikið vildi ég að það væri sími á Baugsstöðum, þá fylgdist maður kannski svolítið með fjölskyldunni og fengi smá tilkynningu áður en fólk opinberar. Annars grunaði mig nú að þetta myndi ske þá og þegar,bæði af því að ég hugsa að þú hefðir komið hingað og svo var Stefán nú eitthvað að blammera með blómamanninn.  ....
Já, Guðný mín, þú fannst þá þann rétta. Þetta kemur eins og skrugga, segja sumar giftu kellurnar.

Hér fylgja nokkrir kaflar úr bréfunum, sem eru þess eðlis að ég tel mér óhætt að láta þær fljóta hér með:
Starfsfólk á S.-Reykjum. Fremst fyrir miðju er 
Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)

 Skúli 25. feb. 1945 - á S.-Reykjum
Í morgun vaknaði ég með þeim góða ásetningi að láta það verða mitt fyrsta verk að skrifa þér. Lítið varð nú samt úr þessu, því að rétt í því er hefja skyldi starfið, fylltist allt af strákum í kringum mig og þar með var draumurinn búinn. Síðan var talað og talað eins og gengur. Að lokum fengu þeir mig með sér á skíði. Deginum hef ég eytt að mestu við skíðagöngu. Þá á ég eftir að framkvæma það, er ég síst hefði viljað láta sitja á hakanum, en það er bréfið til hennar vinkonu minnar. Hvernig verður nú með það? Nú er ég þreyttur, bráðum syfjaður og hugurinn mestmegnis á skíðum úti á hjarni, stritandi við að verja slæman skíðamann falli.
Í dag ætluðum við héðan frá Reykjum niður á Eyrarbakka til að sjá leikinn Mann og konu. Vegna atvika sem þér munu kunnug var leiknum frestað, sem og öðrum skemmtunum. Þetta tækifæri ætlaði ég að nota til að sjá framan í þig, þó ekki væri nú meira. Síðar koma dagar og ráð, hvað sem skeður.
Það er annars mikið hvað þú getur enzt til að stunda þessar blessaðar sængurkonur. Starfið er auðvitað gott og göfugt, enda skyldi það síst lasta. En ömurlegt held ég það hljóti að vera. Þú gefur mér það nú raunar til kynna í bréfi þínu, að ekki sértu fullkomlega ánægð. Líklega ferðu engar grafgötur um hvernig hentast muni að hegða sér, er þú gerir skyldu þína við þjóðfélagið.
Guðný 15. mar. 1945 - á Baugsstöðum
Þegar ég var að fara í fjósið til að mjólka, þá kom strákur úr hinum bænum og færði mér bréf frá þér. Það hafði komið með mjólkurbílnum. Ég ætla ekki að lýsa vímunni, sem ég hef verið í frá því ég fékk bréfið. Og nú, þó ég sé orðin þreytt og syfjuð, get ég ekki stillt mig um að "tala við þig".
Nú er ég komin heim í "ríki mitt" og sit á "prívatinu mínu" og hef góða birtu frá raflampa á borðinu - og hlýju. Auk þess hef ég aldrei haft svona gott næði þegar ég hef skrifað þér.
Það er svo yndislegt að vera komin heim, en nú þarf ég að fara upp að Ölfusá á laugardagsmorguninn og hjálpa síðustu húsmóður minni á Aðalbóli. Bóndinn þar á 20 ára bílstjóraafmæli og langar hann að bjóða heim körlum, og ég er beðin að hjálpa til við að taka á móti þeim.
Starfsmenn á S-Reykjum. (mynd frá S.-R.)


Skúli 13. sept. 1945 - á S.-Reykjum
Stefán [Árnason] talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín, að Sigríður hefði alveg neitað sér og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú myndir geta komið, en það vissi ég ekki.. Líklegt þótti mér að heyannir og garðar myndu halda þér heima fram í næsta mánuð. Þú lætur mig vita hvað hugsanlegt væri að þú gætir komið fljótt, búinu á Baugsstöðum að meinalausu. Einnig, hversu lengi þú getur verið fram á vorið og hve mikið kaup þú vilt hafa.
Guðný 17. sept. 1945 - á Baugsstöðum
Pabbi, Silla og ég vorum ein á engjum í dag og slógum öll. Bræður mínir báðir slæmir í kringum sig. Siggi hefur lítið mátt reyna á sig síðan ég skrifaði síðast og hefur orðið að fara til læknis við og við.
Svo var Geiri að kasta upp í alla nótt og hefur legið í dag. Við hirtum okkur upp í gær. Það er slæmt ástand að þurrkurinn skuli ekki ætla að verða lengri en þetta.

Þá er að snúa sér að aðal efni bréfsins - ég var auðvitað ósköp ánægð þegar ég fekk þessar fréttir - er mun léttari á mér síðan. Það er víst ekkert því til fyrirstöðu að ég geti þetta. Og býst ég við að Silla verði heima. Mamma vill auðvitað helst ekki missa mig, en ekki get ég alltaf verið mömmubarn. Núna togar líka annað, syerkara afl í mig. Hún heldur að ég sé alveg farin ef ég fer, segist ekki reikna með því að ég verði heima næsta sumar, en ég reikna með því - og hughreysti hana.
Já,þú vilt fá að vita hvenær ég geti komið - það held ég að geti ekki orðið fyrr en um miðjan október. En sé mjög áríðandi að ég komi fyrr þá gæti ég reynt það. Hvað vorinu viðvíkur, þá get ég ekkert ákveðið um það. Það fer eftir kringumstæðum. En ég lofa því að hlaupa ekki fyrirvaralaust í burtu. Ég er ekki bundin við neitt sérstakt hvað því viðvíkur. Þá er það kaupið. Ég styn og veit ekki hvað ég á að segja, 4-500 - Jóhanna hafði 500 í fyrra - auðvitað þarf ég pening eins og hún. Annars er ég ekkert hörð á því, það fylgja vistinni svo mörg hlunnindi, er það ekki satt? Þú ræður hvað þú segir við hann um það. Veist hvað má bjóða höfðingjanum.
 
Það varð úr að Guðný var ráðin að Syðri-Reykjum frá 15. október og til 14. maí, ef mögulegt væri. Kaupið skyldi vera kr. 500 á mánuði.

Svo byrjar að verða vart við framtíðarpælingar skötuhjúanna.

Guðný - 28. jan. 1946
í eftirskrift bréfsins segir hún:
Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun.
    Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni, eða mann sem            gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt            "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín - annað var það nú ekki.

Dvöl Guðnýjar á Syðri-Reykjum varð styttri en til stóð, þar sem hún veiktist og þurfti að dvelja í Reykjavík um hríð. Ekki kemur fram hverskonar veikindi var um að ræða, en hún dvaldi hjá hjónunum Bjarneyju Bjarnadóttur (1901-1981) og S. Þorkeli Sigurðssyni (1897-1965) að Ránargötu 9a. Dóttir þeirra hjóna er Guðrún, húsfreyja á Seglbúðum í Landbroti. Það var afar oft gist á Ránargötunni þegar Hveratúnsfólk átti leið í borgina. 
Þarna er símasamband komið á, þó kvartað sé yfir að sambandið sé lélegt og að það sé hægt að hlera það sem sagt er.  
Með auknu símasambandi fækkaði bréfasendingum - þannig var það nú bara.

Þarna var byrjaður að koma skriður á hlutina, en frá því greini ég næst. 


Rétt er að geta þess að ég ákvað að setja hér inn myndir frá Syðri-Reykjum, þar sem ég gat tímasett þær nokkurnveginn. Myndir frá veruleika Guðnýjar á þessum tíma, eru ekki til staðar svo ég viti. Sannarlega hefðu slíkar myndir frekar átt að vera hér, enda snúast skrifin um hana, fyrst og fremst.


Engin ummæli:

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niðu...