Ég giska á að þessi mynd gæti verið tekin nálægt þeim tíma sem Guðný hvarf úr foreldrahúsum. Guðný með Elínu, móður sinni. (mynd frá Baugsstöðum) |
Símtalið áðan. Þetta var annars ljóta sambandið. Ég komst bókstaflega í illt skap vegna þess, enda að vonum, þar sem ég þurfti að tala af öllum kröftum og var það þó varla nægilegt. Það er nú víst allt í lagi með símann hjá þér, eftir því sem Áslaug segir. Hún ætlaði að tala við Rvík rétt áður og sagði að varla hefði heyrst nokkuð til hennar. Samkvæmt þessu eru mistökin sennilega hérna megin, en það er auðvitað jafn afleitt fyrir okkur. Ekki þykir mér líklegt að við getum notað símann að nokkru gagni, jafnvel þótt hann sé í lagi, vegna þess, að ég hef ekki skap til að láta 10 - 15 eða 20 manns hlusta á það sem ég myndi, undir venjulegum kringumstæðum segja.
Áður en lengra er haldið finnst mér rétt, að setja Laugarás í aðeins meira samhengi:
Þjóðviljinn 14. feb. 1945 |
Garðyrkjustöð mun verða sett upp í Gröf á næsta ári á vegum hlutafélagsins Gróska h.f., sem er eign NFLÍ og nokkurra félagsmanna. Stöð félagsins í Laugarási verður seld, en hin nýja mun halda áfram að sjá Matstofunnl fyrlr grænmeti og svo heilsuhælinu sjálfu, þegar þar að kemur.
En, aftur að Guðnýju og Skúla og þeirra framtíðarplönum.
Næst þegar ég skrifa get ég vonandi eitthvað sagt þér um Lemmingsleifarnar. Dálítið hef ég kvefast við þessa Rvíkurför, en samt er ég varla þungt haldinn.
Guðný 27. mars - á BaugsstöðumÉg er alltaf að vona að þér lítist á staðinn, sem þú varst að tala um, um daginn.Ég hef, satt að segja, mikinn áhuga fyrir honum. Og mér finnst að þar muni okkur geta liðið vel. Þar erum við frjáls og áháð öðrum. Og þú ert svo duglegur og ég mun reyna að hjálpa þér. Ég ætla að hafa nokkrar hænur, svo við höfum egg að borða, Svo getum við haft svolitla garða. Æ, ég hugsa svo margt í sambandi við þetta og þó þetta sé í ólagi og niðurníðslu, þá ættum við að geta reist það við fljótlega. Mér finnst að þetta yrði okkur tryggari staður, en ef þú yrði hjá Stefáni........
Páll bóndi á Baugsstöðum, 1962
Pabbi fór að spyrja mig um hvað gengi í sambandi við tilvonandi bústað okkar og sagði ég honum þá eins og var. Hann varð himinlifandi og honum fannst að þetta væri góður staður fyrir okkur. Sagðist hefði viljað skoða þetta með þér og mér og mér heyrðist á honum að hann skyldi hjálpa okkur eins og hann gæti. Og honum þótti stór kostur að bankinn átti þetta, þá væri öðru máli að gegna. Og líka ef þessi gróðurhúsaræktun ætti ekki framtíð, væri eins um alla aðra framleiðslu.Ég er tilbúin að koma til þín hvenær sem er og gæti skaffað mann þér til aðstoðar - Geira eða Sigga, ef með þarf.
Í eftirskrift segir Guðný Skúla að taka þetta ráðslag hennar ekki of alvarlega, heldur gera það ssem honum sýnist réttast; hún muni verða alveg sátt við það.
Skúli, 2. april - á Syðri-ReykjumMér þótti mjög gaman að heyra, betra að segja, sjá álit þitt á tilv. búskaparháttum okkar. Í raun og veru erum við alveg sammála. Helst vildi ég hafa mitt kot út af fyrir mig og vera engum háður hvað atvinnu snertir. Konungur vill sigla, en byr verður að ráða. Það er nú einu sinni svo, að ekki er allt heppilegast sem maður vill þegar á allar hliðar málanna er litið, þó er sagt, og eflaust er það rétt, að viljinn sé fyrsta og æðsta skilyrði þess að sigur vinnist í hverri raun.Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn, þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi.Ég hringdi til [...] (umboðsmannsins), þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og hann bað mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerð ég með því að senda Elís Pétursson á hann um síðustu helgi. Þá var nú karlinn fullur og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá.Siggi bílstjóri fer á morgun og ætlar hann að athuga þetta nákvæmlega fyrir mig og festa það ákveðinn tíma, sé það ekki þegar selt.Eðlilega varstu dálítið undrandi á þessari deyflu minni, að ég skyldi ekki vera búinn að skoða Laugarás. Orsökin var nú sú, sem ég hef þegar greint. Þó að þessi fyrirhuguðu áform mislukkist, sem er eins líklegt og hitt, þá trúi ég því, að maður geti einhversstaðar holað sér niður, en ánægður þó, með tilveruna þegar stundir líða.Gott var, að pabbi þinn skyldi vera ánægður með þessa hugmynd í sambandi við Laugarás. Það er alltaf örvun ef reyndir og nýtir menn leggja jákvæð orð til málanna.Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri afleitt að missa mig, einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæt hann ekkert við því sagt, fyrst svona stæði á.
Með góðri samvisku held ég að ég geti haldið því fram að með þessum bréfaskriftum sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að steininum hafi verið kastað. Þau Guðný og Skúli festu kaup á Lemmingslandi í því ástandi sem það var, vorið 1946 og hófu þar líf sitt saman, engum háð, nema bankanum og öllum víxlunum sem þurfti að samþykkja.
Um líf þeirra í Hveratúni fjölyrði ég ekki, umfram það sem ég skrifaði um pabba fyrir rúmum tveim árum.
Ég bendi einnig að umfjöllun um Hveratún á Laugarássíðunni.
Svo bendi ég að viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við pabba, sem birtist í Litla Bergþór og sem ég fékk að birta á Laugarássíðunni, margnefndri.
Ég hyggst svo reyna að setja frá mér nokkur orð um móður mína á afmælisdegi hennar á morgun, 7. október.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli