20 september, 2018

Að efna í aldarminningu (6)

Þar var komið sögu í síðasta hluta þessarar aldarminningar um föður minn, Skúla Magnússon, að þau Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum, verðandi eiginkona hans, höfðu fest kaup að garðyrkjubýli í Laugarási, sem kallaðist Lemmingsland. Þarna höfðu dönsk hjón Börge og Ketty Lemming byggt upp litla garðyrkjustöð, og bjuggu þar frá 1941-1945 (svona um það bil).  Það er sérlega gaman að segja frá því að mér hefur nú tekist að komast í samband við afkomendur þeirra Börge og Ketty, sem þekkja til sögu þeirra á Íslandi og bíð nú spenntur eftir svörum þeirra við spurningum mínum um þessi ágætu hjón. 

Þann 30. maí, 1946 gengu þau Skúli og Guðný í hjónaband eins og lög gera ráð fyrir, enda vart við hæfi að hefja búskap ógift.

Hveratún 1968, séð til norðurs. Lengst t.h. gróðurhúsin þrjú 
og gamla íbúðarhúsið, sem Skúli og Guðný keyptu. 
Fremst fyrir miðju er íbúðarhúsið sem tilheyrði Grósku.
Það sem þau keyptu þarna voru þrjú gróðurhús, ca. 100 m² hvert og 60m²  íbúðarhús með engu eldhúsi. Fólk myndi víst ekki lifa lengi á svona garðyrkjustöð nú.  Það má telja fullvíst, að fyrst eftir að þau komu í Laugarás, hafi þau fengið inni í íbúðarhúsinu í Grósku (Grózku)(síðar Sólveigarstaðir). Á þessum tíma var Skaftfellingur að nafni Guðmundur, sem hafði átt Grósku (sem þá hét óþekktu nafni) í tvö ár, búinn að selja Náttúrulækningafélagi Íslands býlið. Þá voru þarna 4 gróðurhús, alls 600m² og íbúðarhús.
Eina ástæða þess að fyrir liggja upplýsingar um að nýju Laugarásbúarnir hafi búið í Grósku er sú, að þar fæddist elsta barn þeirra, Elín Ásta í júní 1947. Það má með góðri samvisku gera ráð fyrir því, að ekki hafi frú Guðný gert sér að góðu að búa í eldhúslausu húsi og þannig hafi það komið til að þau bjuggu til að byrja með í Grósku.
Magnús Jónsson

Svo var eldhúsið klárt  og flutt inn. Framundan 45 ára búskapur Skúla og Guðnýjar með öllu sem slíku fylgir, þar með 5 börnum á 12 árum. Það hefur nú varla þótt neitt merkilegt á tímum barnasprengjunnar sem varð í hinum vestræna heimi á þessum árum.
Elín Ásta, sem áður hefur verið nefnd, fæddist 1947, tveim árum síðar, 1949,  bættist við önnur dóttir Sigrún Ingibjörg, þá liðu þrjú ár (enda þurfti að vanda sig) þar til fyrsti sonurinn kom í heiminn, í lok árs 1953, en það var Páll Magnús. Fjórða barnið og annar sonurinn, Benedikt mætti á svæðið rúmum tveim árum síðar, 1956. Þegar þarna var komið var nú vísast farið að minnka plássið í litla 60 m² húsinu, ekki síst vegna þess að frá 1950 hafði faðir Skúla, Magnús Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um, búið hjá þeim í Hveratúni. Þar fyrir utan voru oftar en ekki vinnukonur, aðallega á sumrin. Í raun skortir mig hugmyndaflug til að segja til um hvernig þeim var komið fyrir.

Gamli bærinn í Hveratúni. Teikning eftir minni.
Hér til hliðar er gróf teikning af húsinu sem Guðný og Skúli bjuggu í með börnum og afa frá 1947-1961.  Á teikningunni eru ýmsir fyrirvarar, m.a. um hlutföll, en herbergjaaskipanin er nokkuð skýr. Gera má ráð fyrir að systkini mín kunni að hafa sínar skoðanir á þessu og reynist þær réttari en þarna má sjá, verður auðvitað tekið tillit til þess.
Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Það var orðið þröngt á fjölskyldunni þegar þriðji sonurinn, fimmta barnið, Magnús, kom í heiminn í september, 1959. Það var því ekki annað í stöðunni en að fara að byggja. 

Fjölskyldan í Hveratúni 1960.
Myndina tók Matthías Frímannsson en hann starfaði þá sem "eftirlitskennari"  í barnaheimili RKÍ, Krossinum.


Árið 1961 tók við enn einn áfanginn á leið Skúla í gegnum lífið, en um hann verður fjallað í síðasta hluta, sem birtast mun áður en langt um líður, ef að líkum lætur.








Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...