Það haustar, eina ferðina enn. Orðið napurt á stundum þó veðrið undanfarna daga hafa verið harla gott á þann mælikvarða sem settur er á liðið sumar.
Mér finnst ágætt að gera stundum annað en afla gagna, vinna myndir, skrifa texta eða vinna í vef, en þetta hefur nú verið meginstarf mitt undanfarnma mánuði og á því er ekkert lát sjáanlegt á næstu mánuðum.
Þegar ég geri eitthvað annað, þá reyni ég að láta það ekki vera af því tagi sem veldur mér leiðindum. Vissulega kemst ég ekki alltaf hjá því að sinna slíku, en þannig verður það bara að vera.
Eftir að vorið tók við af síðasta vetri og vetrargestirnir hurfu smátt og smátt af pallinum með ungunum sínum, hóf ég að velta fyrir mér hvernig framhaldið gæti orðið. Þegar ég fer að velta einhverju fyrir mér, þá má slá því nokkuð föstu að það fyrsta sem mér dettur í hug verður ekki niðurstaðan. Það má líka slá því nokkuð föstu, að þegar fD segir að ég skuli bara gera svona, og svona og svo svona, þá verður ekkert úr því.
Ég kýs að láta hugmyndir mínar gerjast nokkuð lengi, og ég þarf að vera búinn að hugsa allt til enda áður en ég læt til skarar skríða. Þessi háttur minn á ekki upp á pallborðið hjá fD, sem telur einna helst að skortur minn á framkvæmdasemi stafi af einberri leti, sem auðvitað er raunin. Sá tími sem notaður er til að hugsa áður en maður framkvæmir, verður seint ofmetinn.
Það kom sá tími fyrir nokkru að ég var búinn að hugsa alla leið, hvernig ég hygðist búa að fuglum himinsins á pallinum í Kvistholti á komandi vetri. Grunnurinn sem hann verður byggður á, á sér þá sögu að hafa verið trégrindin utan um gasgrillið sem við ákváðum að keyra í ruslagám í Reykholti. Í okkar huga er gasgrill ekki í tísku lengur, en lítið kolagrill uppfyllir allar okkar þarfir í grillmálum í staðinn.
Grindin utan af gasgrillinu var sem sagt grunnurinn, sem síðan var hugsað í kringum og inn í og nú er fyrsti þáttur í fóðurpallssmíðinni klár. Ungir helgargestir þær Júlía og Emilía Egilsdætur sáu um listskreytingu, sem án efa mun falla ræflunum litlu vel í geð. Götin á bakhliðinni ákvað ég að setja í þrennu augnamiði: 1. Til að fuglarnir setjist þar og skoði kræsingarnar áður en þeim eru gerð skil, 2. til að fuglarnir rammi sjálfa sig inn fyrir mig og EOS-inn, og 3. til að búa til nokkurskonar vindbrjót, þó auðvitað sé ekki þörf á slíku í Laugarási.
Það stendur enn yfir hugsanaferli sem lýtur að því hvernig þak verður sett á pallinn. Ég þykist viss um að því ferli lýkur farsællega, enda vel til vandað hugsunarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli