01 september, 2021

Eldri borgarar: Það vantar einn hlekkinn

Hjúkrunarheimili á Selfossi Mynd frá RUV
Ég bý við Austurveg á Selfossi, þar sem  mikil byggð íbúða fyrir eldri borgara er og hefur verið að rísa. Hér er um að ræða tiltölulega hentuga stærð íbúða, fyrir fólk sem er að stíga út úr önnum starfsævinnar og út úr stórum einbýlishúsum, sem eru orðin alltof stór fyrir þarfir þess.  Hér við Austurveginn er risið heilt hverfi fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk, sem keypt hefur þessar ágætu íbúðir fyrir heilmarga tugi milljóna. Þetta er valkostur fyrir það fólk sem þetta getur - sem hefur getað selt einbýlishús og haft efni á að kaupa íbúðir í af þessu tagi, á þessum stað.

Hér skammt frá er verið að byggja glæsilegt hringlaga hjúkrunarheimili, sem ætlað er að taka við fólki sem komið er í þá stöðu að geta ekki séð um sig sjálft lengur. Það þarf hjúkrun. Þetta má segja að þetta hjúkrunarheimili sé, eins og önnur slík, endastöð fólks hér á jörð. Hjúkrunarheimili eru dýr valkostur, eins og okkur ætti að vera orðið ljóst, og þar að auki eru heilmiklir biðlistar eftir að plássi fyrir fólk, sem þarf þá að teppa rándýr pláss á þjóðarsjúkrahúsinu, sem síðan orsakar ofurlanga biðlista þar. 

Það eru, held ég, allir sammála um, að það sé mikilvægt að draga úr þörfinni fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og það er almennt mikilvægt að skapa aðstæður til að takast á við stórvaxandi fjölda eldri borgara nú og á næstu árum.
Þessi mynd sýnir fjölda fæddra síðastliðin 120 ár. Í ljósa reitnum er fólk sem er núna
á aldrinum 50 til 70 ára - fólkið sem mun fylla hóp eldri borgara næstu árin.  Heimild Hagstofan.

Stjórnmálin og eldri borgarar

Í aðdraganda kosninga eru enn á ný ofarlega í talanda stjórnmálamanna ástin á velferð eldri borgara. Munurinn er kannski sá nú, að við baráttufúsari eldri borgara er að eiga. Hippakynslóðin og bítlakynslóðin sætta sig ekki við að gleymast milli kosninga. Þær kynslóðir sem eru nú að komast á eftirlaun gera allt aðrar kröfur til lífsgæða en þær sem á undan hafa komið. 
Eins og einhver sagði í útvarpsviðtali, þá lítur þetta fólk ekki á harmonikkuleik með polkum og rælum, sem afþreyingu. Það má vel segja að hér sé um alveg nýjan þjóðfélagshóp að ræða. Þetta er hópur sem lifir lengur og er hress lengur, sem bætist auðvitað ofan á, að um er að ræða fjölmennasta hóp eldri borgara sem nokkurn tíma hefur þurft að sinna.

Stjórnmálamennirnir tala nú hver í kapp við annan um að það þurfi að auka við og efla þjónustu við eldri borgara, án þess, að því er virðist, að vita mikið um við hvað er að eiga.
Það á að stórefla heimaþjónustu (sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu). Þetta er áherslumál númer eitt.  Mér finnst þeir ekki hafa hugsað það mál til enda. Á sú heimaþjónusta að felast í þrifum á heimilum fólksins, líkamlegum þörfum, félagslegum og andlegum þörfum?  

Í þessum glæsilegu íbúðum sem eldri borgarar leggja í kaup á, hérna við Austurveginn, er fólk frá um það bil sjötugu til um það bil níræðs. Það er nokkuð algengt að annar makinn sé látinn og ekkillinn eða ekkjan sitja ein eftir í íbúðinni góðu. Þetta er að mestu leyti fólk sem getur vel séð um sig sjálft og stundað félagslíf af krafti, ef því er að skipta. Það er komið í litla og viðráðanlega íbúð, en rándýra. Það hentar vissulega sumum, sérstaklega þeim sem áttu  einbýlishús til að selja. Það eru ekki allir  í aðstöðu til kaupa á svona íbúðum. 


Milli heimilis og hjúkrunarheimilis.

Mér finnst sárlega vanta í umræðu um málefni eldri borgara hugmyndir um hvernig við ætlum að leysa úr málum þess stóra hóps fólks, sem  býr tiltölulega einangrað í of stóru húsnæði, en getur alveg séð um sig sjálft, jafnvel til æviloka. Sannarlega er það einn valkosturinn að kaupa íbúð eins og hér á Austurveginum. 
Mér finnst vanta hlekk á milli heimilis fólks sem kemst á eftirlaun, og hjúkrunarheimilis. Sá hlekkur á að vera til þess ætlaður, að fólk þurfi síður eða seinna, eða aldrei á hjúkrunarheimili að koma.  Þetta væru klasar með litlum, ódýrum/ódýrari íbúðum, sem fólk gæti keypt eða leigt. Jafnframt væri góð aðstaða fyrir íbúa þessara klasa til að sinna áhugamálum, njóta samvista við annað fólk, stunda heilsurækt og svo framvegis.  Litlu íbúðirnar væru athvarf, sem hver og einn dveldi í eftir því sem hann kærir sig um.


Heimaþjónustan

Jú, jú það er örugglega gott og gilt að efla heimaþjónustu, en hún mun seint ná að fullnægja öllum þörfum fólks. Hvað með ekkjuna, eða ekkilinn, sem hittir fáa eða engan utan manneskjunnar sem kemur (kannski daglega - hver veit) vegna þess að hún fær greitt fyrir það? Ætli þessi heimaþjónusta eigi að fela í sér að sinna félagslegum þörfum - spjalla, til dæmis?  Hvað með hjónin sem eru búin að vera saman í 70 ár og eru búin að tæma öll sín umræðuefni?  Svona fólk myndi eflast við að komast í sambýli eins og ég nefni hér að ofan, lífsgleðin myndi aukast og lífslíkur þar með. 

Það vantar millistig fyrir fólk sem þarf að forða frá einangrun inni á heimilum sínum. Maðurinn er félagsvera og samfélag við annað fólk frestar eða hindrar þörfina fyrir pláss á hjúkrunarheimili.

Elliheimili framtíðar

Nútímalegt elliheimili er það sem ég vil kalla eftir. Væri alveg til í að hjálpa til við að skipuleggja það, með mina kynslóð og þær næstu í huga. Heimili af þessu tagi ætti ekki að verða dýrt í rekstri, þar sem íbúarnir ættu íbúðirnar, eða væru með þær á leigu, og sæi mikið til um sig sjálft. 
Hringleikahúsið okkar hérna á Selfossi gæti örugglega nýst vel til þess arna - en það á að verða hjúkrunarheimili, segir sagan.Engin ummæli:

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um...