Voru þetta ef til vill mistök af minni hálfu?
Var þetta í rauninni eitthvað sem ég var tilbúinn í?
Varð þetta mögulega viðurkenning á að nú væri ég að nálgast endastöðina?
Mátti líta á þetta sem uppgjöf, fyrir einhverju sem ég ætti að berjast gegn, af alefli?
Var ég að lúta, með þessu, einhverju ósýnilegu ægivaldi, sem enginn fær umflúið, en allir geta barist gegn svo lengi sem kraftar leyfa?
Hvaða heimur var þetta sem ég var þarna að ganga inn í?
Sem betur fer var ég nægilega upptekinn við að reyna að standa í fæturna í hálkunni til að láta þessar hugsanir mínar ekki ná yfirhöndinni, nægilega ákveðinn í að finna, í samráði við fD, auðvitað, öruggustu blettina til að stíga niður fæti á.
Andlit
Svo renndi hópferðabifreiðin inn á planið við búðina. Í gegnum glerið mátti greina grátt hár, eða ekkert, eða litað, jafnvel einstaka derhúfu og þar fyrir neðan andlit sem voru alvarleg eða glottandi, eða brosandi, eða hlutlaus.
Fremstu sætin voru þegar setin og því þurftum við fD að feta okkur inn eftir allri bifreiðinni, framhjá öllum þessum andlitum. Andlitum sem hafa fylgt okkur alla tíð, andlitum sem voru alveg ný fyrir okkur, andlitum sem voru rúnum rist, eða slétt, eða eitthvað þar á milli.
Á leiðinni inn úr gekk á með: Blessaður! Blessuð!, Komdu sæll!, Komdu sæl!, Komiði sæl!, Sæll!, Sæl!, Góðan daginn!, en ekkert Hæ!.
Þessum kveðjum fylgdu bros, nú eða lítilsháttar glott. Þau voru glaðleg, þreytuleg eða bara ...leg.
Vorum við örugglega á réttum stað?
Hópferðabifreiðin lagði af stað, svona rétt eins og væntingar stóðu til, leið sem við höfðum svo sem farið ótal sinnum áður: niður að vegamótunum hjá Reykjum á Skeiðum, þar til hægri, framhjá Brautarholti, niður á Skeiðavegamót þar sem beygt var til vinstri í áttina í Rangárþing. Það var spjallað á leiðinni. Það var enginn upptekinn við snjallsímann sinn (ég smá, reyndar), það var enginn með í eyrunum, þeir sem ekki voru að spjalla, fylgdust með umhverfinu fyrir utan; umhverfi sem þeir þekktu svo vel. Höfðu farið þarna um þúsund sinnum áður.
Ull
Í Rangárþingi ytra var skoðuð ullarvinnsla og fjárhúsin á bænum. Ullin var snert, vélarnar skoðaðar, pælt í framleiðsluvörunum. Þarna var ekki aðeins unnið úr ull af sauðfé, heldur einnig geitum og hundum. Fólkið var upprifið, áhugasamt, hlutlaust eða alveg sama, svona eins og alltaf er. Það var sagt frá og það var hlustað og talað um pljónaskap, peysur, fjölda gramma í dokku, rúning, aðbúnað sauðfjár, tækni við að fóðra féð, kuldann í fjárhúsunum, þvott, þurrkun, vinnslu, þæfingu, spuna og allt hitt sem tengja má við ullarvinnslu og sem ég kann ekki að orða.
Svo var hópferðabifreiðin ræst á ný, farþegarnir voru kannski heldur lengur að koma sér fyrir en í skólaferðalögum æskunnar, en hver þurfti svo sem að flýta sér?
Það kom leiðsögumaður til skjalanna þegar þarna var komið og meðan bifreiðin flutti hópinn enn austar fræddi hann farþegana um ýmislegt sem sjá mátti til hægri og vinstri, rifjaði upp ófærð og snjóakistur og girðingavinnu, sagði frá hrossaræktarmiðstöðvum, kjúklingabúum, sumarhúsum frægra, aflögðum sláturhúsum, óbrúuðum ám og fjöllunum að baki Heklu, sem Tungnamenn fá ekki séð.
Hvolsvöllur
Leiðin lá á Hvolsvöll í Eldfjallamiðstöðina Lava Centre, en svo virðist sem fólkið hafi ekki spjallað nægilega lengi um ullina, ullarvinnsluna, sauðféð, hundabandið, eða vélbúnaðinn, eða skoðað nægilega lengi það sem hægt var að skoða, því þörf reyndist á að drepa slatta af tíma áður en innreiðin í miðstöðina gæti hafist. Það varð úr að leiðsögumaðurinn ákvað að taka hring um Hvolsvöll, sem reyndar var ekki hans heimabær og hann kvaðst sjaldan koma þangað. Þetta varð til þess að hóferðabifreiðin endaði í blindgötu, sem auðvitað var bara ágætt, því okkur bauðst þar að líta tækjabúnað sem sveitarfélagið hafði komið upp fyrir fólk til að æfa sig á, utandyra. Allt fór vel og með ágætum, þegar upp var staðið.
Ja, þessi Eldfjallamiðstöð!
Endurgert, gróið hraun, timburklætt, tölvutæknimusteri. Tími til að ná áttum, dást að glænýrri glæsibyggingunni áður en sest var niður til að gapa yfir dásemdum íslenskrar náttúru á kvikmyndatjaldi, áður en gengið var inn í heim eldfjalla, hrauna, jarðskjálfta í tölvugerðum, litríkum töfraheimi. Stunur, andköf, undur, bros, leikaraskapur, íhugun, hugsanir. Ævintýraveröld.
Etið og drekkið
Eftir eldfjallaævintýrið þurfti að ná sér niður. Við blöstu hilluraðir af drykkjarföngum og leið flestra lá að þeim hlutanum þar sem hægt að að fá prósent. Fá prósent eða mörg. Köld eða stofuheit. Það var sest niður og farið yfir daginn áður en fólkinu var boðið að velja sér af hlaðborði sem var 20 metra langt. Fremst súpan, sem ekki reyndist nú flókin. Málið vandaðist þegar koma að aðalréttinum. Þar sem ekki sást á milli endanna tók maður allt of mikið á diskinn til að byrja með til að geta með góðu móti komið öllu yrir á honum við lok leiðarinnar. Svo var eftir að gera þessu öllu skil og það var annar handleggur. Þessi gengdarlausi gleypigangur Vesturlandabúans. Hugur reikaði, örskamma stund, suður til Bíafra æskunnar, en síðan var tekið til við að koma kræsingunum á sinn stað, með aðstoð viðeigandi drykkjarfanga. Það tókst, en hreint ekkert umfram það. Þá var eftirrétturinn eftir. Hann fór á sinn stað, þó ekki sé nú hægt að halda því fram að líkaminn hafi beinlínis kallað á hann.
Heim
Hópferðabifreiðin beið í þolinmæði eftir því að koma þessu fólki til síns heima. Leiðsögumaður sagði sögur af hinu og þessu, sem fyrir augu hefði átt að bera, en bar ekki, þar sem aldimmt var orðið. Hann fylgdi með þar til Þjórsá tilkynnti að Árnesþing tæki við.
Það er ekki sagt frá þessari ferð frekar.
Ferðin þessi
Ferðalangar: 34-35, úr Biskupstungum að mestu.
Leiðsögumaður í Rangárþingi: Olgeir Engilbertsson, Nefsholti í Holta- og Landssveit
Gestgjafi: Kvenfélag Biskupstungna, en kvenfélagið bauð íbúum í þessa ferð og hana skipulögðu Elinborg Sigurðardóttir og Elín Siggeirsdóttir.
Ullarvinnslan: UPPSPUNI á bænum Lækjartúni þar sem húsráðendur eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson.
Eldfjallamiðstöðin: Upplýsingar um hana.
-------------------------------
Hvernig er það svo að fara yf'rum?
Ég er svona markatilfelli. Enn mengaður af áratuga samneyti við unglinga, hef varla náð því að verða eðlilegur miðaldra karl og stekk svo upp í hópferðabifreið með öldungum.
Piff.
Aldur er nú ekkert nema sú slóð sem við öll fetum frá því við komum úr móðurkviði og þar til við hverfurm aftur í móðurkvið. Jú, sannarlega breytist hugsunarháttur okkar eftir því sem við eldumst, skárra væri það nú. Þar kemur til reynsla og þroski. Við verðum samt alltaf sama fólkið, þurfum bara að kljást við það að sá hluti okkar sem tjáir aldurinn, er fyrst og fremst sá sem við berum hið ytra. Innrætið heldur sér nokk: stríðnispúkinn, hugsuðurinn, bóndinn, kennarinn, leikarinn, grínistinn.... þetta er allt þarna, allt til enda. Þarf sennilega bara stundum að pota aðeins í það svona við og við.
Ég þakka kvenfélaginu fyrir mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli