Ég hafði einhvernveginn ímyndað mér að það hefðu nú aðallega verið karlar á aldrinum frá 25 og upp úr, sem byggðu þetta mikla mannvirki, sem myndi þýða, að ef einhverjir væru á lífi væru þeir nú, að minnsta kosti 85 ára og mögulega farnir að missa eitthvað úr, svona eins og gengur.
Síðla sumars fékk ég ábendingu um fyrrverandi brúarvinnumann, sem einmitt hafði unnið við brúarsmíðina á þessum tíma. Hann reyndist vera 74 ára og var því 14 ára þegar hann tók þátt í þessu verki með sínum hætti. Hann var nokkurskonar léttadrengur og ég á eftir að fá að vita meira um það, en þarna er um að ræða afskaplega hressan mann, sem hefur reynst vera meira en til í að aðstoða mig við að rifja upp þann eftirminnilega tíma í lífi hans sem þarna var um að ræða.
Í gegnum hann náði ég síðan sambandi við annan, sem hafði verið fullgildur starfsmaður, og var rúmlega tvítugur á þessum tíma. Það þýðir að hann er skriðinn yfir áttrætt; kominn á níræðisaldur.
Mér varð hugsað til þess hvernig ég leit fólk á þeim aldri þegar ég var talsvert yngri en nú. Raunar held ég að hver maður geti ímyndað sér hver ímynd fólks var í huga þeirra á yngri árum.
Svo hitti ég þennan mann og svei mér ef ég varð ekki nokkuð undrandi. Það var fjarri því að á honum væru einhver ellimerki. Ég hefði alveg trúað því ef einhver hefði sagt hann vera um sjötugt. Hjá þessum hef ég fengið gagnlegar upplýsingar um myndefni sem ég fékk frá Vegagerð ríkisins og sem mun birtast í seinni umfjöllun minni í Litla Bergþór í byrjun desember. Það sem meira er þá stefnir í að framhald verði á, þar sem þessir karlar hafa frá ýmsu að segja frá brúarbyggingunni sem ég hlakka til að umbreyta í ritaðan texta.
Þetta var fyrri hluti
Hvítárbrú hjá Iðu eða Iðubrú?
Hvítárbrú hjá Iðu, heitir brúin formlega, sem verður búin að þjóna okkur í uppsveitum í sextíu ár, í desember. Hún hefur yfirleitt, manna á meðal verið kölluð Iðubrúin, sem hefur haft það í för með sér, að þeir sem ekki vita betur, halda að áin heiti Iða. "Hvernig er veiðin í Iðunni?" spyrja menn.
Vandamálið með Hvítárbrúarnafnið er augljóslega það, að það er önnur Hvítá, sú í Borgarfirði. með brú hjá Ferjukoti sem var byggð 1928. Ekki bætir svo úr skák, að fyrir nokkrum árum var byggð önnur brú á Hvítá, sú sem er hjá Bræðratungu.
Eftir stendur, að brúin okkar hér í neðsta hluta Biskupstungna er ekki yfir ána Iðu, eins nafnið Iðubrú gefur til kynna, heldur yfir Hvítá. Þar með hef ég ákveðið fyrir mig að reyna að venja mig af því að kalla hana Iðubrúna og byrja að kalla hana Hvítárbrú hjá Iðu. Eða brúna á Hvítá hjá Iðu. Sannarlega ekki eins þjált og Iðubrú, en réttara.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli