24 nóvember, 2017

Saman í þessu

Það er verið að reyna að berja saman ríkisstjórnarnefnu, sem er svo sem gott og blessað. Sumir brjálaðir yfir því eins og venja er til. Aðrir bara sáttir og svo allir þeir sem gæti ekki verið meira sama.
Á meðan þetta stendur yfir undirbúum við hér í neðsta hluta Biskupstungna að minnast þess, með pompi og prakt, að innan nokkurra vikna verða liðin 60 ár frá því Hvítárbrúin, sem tengir byggðina vestan og austan árinnar. Hér væri margt með öðrum hætti ef þessi brú hefði ekki komið til.

Við ætlum að taka í notkun nýja ljósakeðju, sem næstu árin mun lýsa vegfarendum leið í mesta skammdeginu, minna okkur á jólahátíðina og skreyta þetta fagra mannvirki sem brúin óneitanlega er.
Ljósakeðja af þessu tagi kostar sitt. Við hófum söfnun sem hefur gengið framar vonum og við erum afskaplega þakklát þeim sem hafa lagt sitt til, hvort sem það er í smáu eða stóru. Án þeirra hefði þetta ekki orðið.
Þeirra verður getið og þeim þakkað betur þegar upp verður staðið.

Það er venjan, þegar mikil mannvirki eru tekin í notkun, að til eru kallaðir forystumenn og stjórar af ýmsu tagi til að klippa á borða, ýta á takka, nú eða gefa skipun um formlega opnun viðkomandi mannvirkis.
Þetta fórst fyrir þegar Hvítárbrúin var opnuð þann 12. desember 1957.
Úr því verður bætt nú.
Það verður enginn borði klipptur, það verður ekki ýtt á neinn takka, það verður ekki gefin nein skipun. Það verður miklu magnaðra en allt það sem fólki hefur áður dottið í hug við svipuð tækifæri.

Nú vinna íbúar í Skálholtssókn, frá Spóastöðum í norðri að Helgastöðum og Eiríksbakka í suðri, að undirbúningi fyrir formlega opnun brúarinnar, tendrun brúarljósanna og sextíu ára afmælið.
Margir leggja hart að sér til þess að gera þessa hátíð okkar sem skemmtilegasta og eftirminnilegasta. Ekki endilega óskaplega hátíðlega, enda ætlum við að freista þess að hafa þetta allt fremur lágstemmt, en bara því afslappaðra og skemmtilegra.

Það er ekki  markmið okkar að freista fjöldans til að vera viðstaddan, heldur fyrst og fremst þá sem búa eða einhverntíma hafa búið í grennd við og notið góðs af þjónustu brúarinnar, þá sem hafa styrkt kaupin á ljóskeðjunni og aðra þá sem áhuga kunna að hafa á brúnni og okkur.
Það eru allir velkomnir, en við munum ekki auglýsa þessa samkomu með neinum áberandi hætti í fjölmiðlum, svona fyrirfram. Þetta blogg mitt tel ég ekki vera fjölmiðil, nema kannski þegar ég ýti á einhverja takka sem tengjast........ já, ekki fara lengra þangað.

Ekki get ég látið hjá líða, úr því ég er að fjalla um Hvítárbrúna, en nefna að að í blaðinu okkar hér í Tungunum, Litla Bergþór, sem á að koma út fyrir hátíðahöldin, er síðari hluti samantektar minnar á aðdragandanum að, og byggingu þessarar miklu brúar.  Ég hika ekki við að misnota hér aðstöðu mína, og hvetja áhugafólk um brúna og bara lífið í Biskupstungum almennt í fortíð og nútíð, að verða sér úti um áskrift að þessu merka riti.  Það er létt verk: þarf bara að senda tölvupóst á netfangið lbergthor@gmail.com, með nafni, kennitölu og heimilisfangi.




Ég þakka mínum sæla fyrir það að vera nú kominn á eftirlaun, því sjaldan hefur verið í eins mörg horn að líta og nú og einstaklega ánægjulegt að hafa tækifæri til að taka þátt í svo gefandi iðju eins og hér er um að ræða.








Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...