06 júní, 2020

Nokkurskonar gestur í eigin landi

Ég þurfti að sinna erindi í Laugarási í dag. Þetta var aldeilis ágætur dagur til þess arna og þorpið í skóginum skartaði sínu fegursta, að stórum hluta (meira um það síðar), enda sá tími ársins þegar gróðurinn er nánast að missa sig í vaxtarþrá. Það var gleðilegt að sjá yfirfull bílastæði við og í nágrenni við Slakka, íslenskir túristar kynntu sér söguna við söguskiltin góðu, fuglar af ýmsu tagi sýndu sínar fegurstu hliðar. 
Sem sagt, gott.
Það verð ég nú að segja, að tilfinningin sem vaknaði við að koma í Laugarás, var harla sérstök og ég er ekki enn búinn að ákveða hvernig best er að láta hana vera, en þykist viss um að ég finn þann farveg sem best hentar. Ég sá útundan mér hvar nýir ábúendur í Kvistholti voru í óða önn að koma sér fyrir..
Ég er viss um að við munum kíkja á þau áður en alltof langt um líður, en sá tími er hreint ekki kominn enn. Við vonum að þeim auðnist að hefja þann góða stað til vegs og virðingar, eins og hann á skilið.
Við höfum nú gert talsvert af því fD og ég að iðka heilsubótargöngur í og í nágrenni Laugaráss. Við gátum ekki annað en rifjað upp fyrri takta þarna, úr því við vorum nú komin á svæðið á annað borð. 
Það er gaman að ganga framhjá stöðum sem er vel við haldið og þar sem snyrtimennska og metnaður fyrir eigin hönd og þorpsins eru höfð í hávegum.  
Af einhverjum ástæðum hefur þeim stöðum farið fjölgandi í Laugarási, sem hefur farið verulega aftur undanfarin ár. Fyrir þessu eru sennilega og stundum örugglega, gildar ástæður, en þó ég búi nú í öðrum hreppi leyfi ég mér að hvetja Laugarásbúa til að gera sitt til að það fólk sem á leið í eða um þorpið fái það á tilfinninguna að þar sé gott samfélag fólks, sem leggur metnað í umhverfi sitt. Það skiptir máli, miklu máli.

Ég veit vel, að ég á ekki að vera að skipta mér af því sem mér kemur ekki lengur við, en almennt séð held ég, að á stað þar sem kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í talsverðum mæli, svona eins og náttúran segir til um, sé það ásýndin sem skiptir harla miklu máli, skiptir jafnvel sköpum hvernig til tekst, svo ekki sé nú meira sagt.

Ég vona að mér fyrirgefist afskiptasemin.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...