11 júní, 2020

Kannski öfgakennd fortíðarþrá.

Nei, þetta er ekki eins slæmt og það hljómar, en einhverntíma, meðan Kvistholt var í svokölluðu söluferli, tók ég mig til, með keðjusögina góðu að vopni, og sagaði niður stubb af furutré, sem hafði staðið í svokölluðum Sigrúnarlundi frá því ég var bara barn í Laugarási, en sem var farið að skyggja á pallinn og draga þannig úr möguleikum á sóldýrkunartjáningu okkar Kvisthyltinga.  
Þegar þetta tré hafði verið fellt fyrir einum sjö árum var skilinn eftir um það bils meters stubbur af þessu tré og ég hafði alltaf ætlað mér að saga þennan stubb niður, en það hafði frestast, eins og gengur.

Ég, sem sagt sagaði niður þennan stubb, en í framhaldi af því datt mér í hug, að það gæti verið gaman að taka með, þegar kæmi að flutningum, einhverskonar minjar um trjágróðurinn í Kvistholti. Því varð það úr að ég sagaði stubbinn í sneiðar, sem síðan voru með því fyrsta sem við fluttum á Selfoss.

Ekki hafði ég svo sem ákveðið neitt um hvað gert yrði við þessar furusneiðar - var búinn að ímynda mér einhverskonar minnismerki um fyrri tíð, verk sem myndi ætíð minna okkur á áratugina í Kvistholti. 

Síðan lágu þessar sneiðar hér fyrir utan á nýja pallinum og biðu örlaga sinna. 

Það þurfti að setja upp lampa í hjónaherberginu, því lampalaus getur maður ekki verið. Auðvitað var þarna um að ræða sömu lampa og voru í Kvistholti, hvernig gat annað verið?

Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum, að fD varpaði fram ígrundaðri hugmynd sinni um að nýta furusneiðarnar í tengslum við uppsetningu lampanna í hjónaherberginu. Ég veit ekki hvað mér fannst um þá hugmynd til að byrja með, en smám saman fór ég að sjá fyrir mér leið til að láta hugmyndina raungerast. 
Svo fór undirbúningurinn af stað, og í framhaldi af honum framkvæmdin. Þarna kom WORX-inn í góðar þarfir. Fyrst juðað með mjög grófum og síðan fínum, svo rykhreinsað, þá lakkað, síðan pússað og loks lakkað tvisvar.  Festingaferlið hafði ég á þeim punkti hugsað allt til enda, eins og maður á að gera, enda gekk allt eftir, eins og upp var lagt með. 

Það er ekki amalegt að hugsa sér, að það síðasta sem maður sér fyrir svefninn en sneið af Kvistholti og það er einnig það fyrsta sem maður sér að morgni. 


Nei, þið sem teljið að nú sé heldur langt gengið í þránni eftir því sem var - hér er allt í góðu og við fD erum óðum að ná betri tökum á þeirri nýju tilveru sem við höfum komið okkur í.   Það er hinsvegar gaman að eigna minningar og eitthvað sem kveikir á þeim við og við. 
Það er nefnilega þannig, að ef ekki væri fyrir það sem var, þá væri ekkert núna, og heldur engin framtíð. Okkur er hollt að hafa það bak við eyrað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...