17 júní, 2020

Kjölturakki eða mannvinur.


Við ætlum að kjósa okkur forseta eftir nokkra daga. Það er svo sem alltaf gaman að skjótast í kjörklefann og leggja sitt gramm á vogarskálina þar sem ákvarðað er ýmislegt sem lýtur að því samfélagi sem við búum í og byggjum. 

Það hefur einstaka sinnum hvarflað að mér að sleppa því að kjósa, en eingöngu í þeim tilvikum þar sem mér var ljóst í aðdraganda kosninganna, að það skipti hreint engu máli hvar ég myndi setja krossinn, því munurinn á þeim sem buðu sig fram væri eiginlega ekki merkjanlegur. 

Í tvennskonar kosningum kjósum við, eða ættum að kjósa út frá lífsskoðunum okkar, eða gagnrýnum stjórnmálaskoðunum. Í fullkomnum heimi væri það svo. Þetta  eru, sem sagt kosningar til Alþingis og sveitarstjórnarkosningar. Ástæðan er einföld: við erum að kjósa framboð sem kynna fyrir okkur hvað þau vilja gera til að efla og bæta samfélagið okkar. Við kjósum fólk og flokka til að ráða stórum hluta þeirra mála sem tekist er á við í næstu fjögur ár á eftir.

Þriðju kosningarnar eru með allt öðrum hætti, því þá kjósum við okkur forseta til fjögurra ára í senn. 
Það eru ekki stefnumálin sem ráða mestu, þegar við ákveðum hver fær atkvæði okkar, heldur einstaklingurinn, saga hans, persónueinkenni, viðhorf til embættisins, sú sýn sem hann hefur á land og þjóð. Við höfum hingað til, að mestu sneitt hjá frambjóðendum sem hafa einhverjar umtalsverðara rætur í stjórnmálastarfi og þeir forsetar sem hafa, að mínu mati reynst okkur best, eru þeir sem hafa skapað sér nafn utan stjórnmálanna. 

Svo lengi sem ég man eftir (slatti af árum) hefur verið reynt að gera sem mest úr því sem þetta embætti er bara hreint ekki: öryggisventill í þeim tilvikum sem Alþingi gengur í berhögg við vilja þjóðarinnar. Hann eigi að vera til staðar þegar gjá myndast milli þings og þjóðar, eins og það hefur verið kallað. Vissulega er það eitt að mögulegum tilvikum sem forsetinn getur þurft að bregðast við, en almennt séð, þá verðum við, Íslendingar góðir, að taka afleiðingunum að því sem við kjósum í Alþingiskosningum. Byrjum þar og sjáum síðan til hvort nokkurntíma verður þörf fyrir einhvern öryggisventil á Bessastöðum.

Þetta ventilsmál fær alltof mikið pláss í aðdraganda forsetakosninga, kannski vegna þess að þær snúast að lang mestu leyti um persónur, en ekki málefni og það getur verið erfitt að fjalla um frambjóðendur að einhverju marki þegar það eru persónur þeirra, sem mestu ráða við valið. 

Eitt eru forsetakosningar, þegar forseti hefur tilkynnt að hann hyggist láta af embætti. Þá er auðvitað sjálfsagt að fólk sem telur sig eiga erindi, bjóði fram krafta sína í þágu þjóðrinnar.

Annað eru forsetakosningar, þegar sitjandi forseti hefur gefið út að hann hyggist gefa kost á sér áfram, eins og staðan er nú. Hafi forseti gegnt embætti sínu í samræmi við það sem ætlast er til af honum, samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og jafnvel staðið sig betur en margir áttu von á og hafi framganga hans verið með þeim hætti að þjóðin að langstærstum hluta telur að sameini hana frekar en sundri, þá finnst mér að þeir sem hafa löngun til að komast í embættið, ættu að hugsa sig fimm sinnum um. 

Við göngum til forsetakosninga vitandi það, að við erum að kjósa til embættis sem er í raun valdalaust. Því fylgirvissulega formlegt vald, en það ættum við að vita, að valdið til að setja lög í landinu er hjá Alþingi, valdið til að framkvæma samkvæmt lögunum er hjá framkvæmdavaldinu og valdið til að dæma í málum, samkvæmt þeim lögum sem gilda, er hjá dómsvaldinu.  Forsetaembættinu hefur ekki verið ætlaður staður í þessu kerfi.

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.  (Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní)
Ef við skyldum nú vilja breyta eðli þessa embættist þá ættum við að gera það í gegnum stjórnarskrána, en mér er til efs að það sé vilji þessarar þjóðar. 

Forseti Íslands er embætti sem á að stuðla að því að sameina frekar en sundra. Í það finnst mér að eigi að veljast sá sem er maður fólksins, án þess að segjast vera það (Til að ekki misskiljist, þá nota ég þarna orðið "maður" fyrir öll hugsanleg kyn). Hver sá sem stígur fram og lýsir sig vera mann fólksins er það ekki. Vissulega væri hann maður einhvers fólks, en sennilega bara einhvers kima samfélagsins. 

Ætli þetta sé ekki komið nóg í bili. Laugardaginn 27. júni kjósum við forseta. Megi okkur auðnast að kjósa mann fólksins til þess embættis.

--------------------
Þjóðhátíðardagur okkar er í dag, dagurinn þegar við sameinumst um að fagna því að vera ein þjóð í einu landi, stolt af þjóðerni okkar, rembingslaust þó. 

Gleðilega þjóðhátíð.




3 ummæli:

  1. Stjórnarskráin, sáttmáli á milli þjóðarinnar og stjórnvalda. Þetta er sáttmáli okkar þjóðarinnar við stjórnvöld og ber stjórnvöldum að virða hann. Það virðist hafa náðst að heilaþvo þjóðina af stjórnvöldum um að forsetinn hafi engin völd. Mér finnst það meiriháttar árangur hjá þeim að ná þessari múgsefjun hjá þjóðinni. Þá geta stjórnvöld gert það sem þeim sýnist og gengið á rétt þjóðarinnar sér og vinum sínum til framdráttar og auðsöfnunar. Það sorglega við þetta allt er að flestir landar mínir hafa aldrei lesið stjórnarskrána en telja sig vita allt um hana, og hanga á greinum sem væri hægt að túlka að forsetinn væri aðeins til punts og mætti ekkert gera.
    Frystu þrjátíu greinar stjórnarskráarinnar fjalla um það hvað forsetinn á að gera og það er margt, en þeir telja sig vera stjórnvöldin hafa náð túlkað stjórnarskrána frá þeim skyldum sem forsetinn er með samhvæmt orðana hljóða.
    2. grein er svo hljóðandi: Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.
    13. grein: Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
    15. grein: Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
    19. grein: Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

    Ef að forsetakosningarnar snúast aðeins um það hvernig manni lík við hann sem persónu, en ekki hvernig honum gegnur að standa undir þeirri ábyrð sem honum er falið sem skipstjóra á þjóðarskútunni, er ég ekki sammála því.

    SvaraEyða
  2. Þar sem nafn á þeim sem setti inn ummælin sendi ég inn annað skeiti. Sæll frændi og nafni. Ég gat ekki á mér setið að senda þér línu út af þessum pisli því að ég get ekki séð að þetta er rétt hjá þér.

    Þinn frændi og nafni

    Páll Siggeirsson

    SvaraEyða
  3. Það er einmitt það, nafni. Okkur greinir á i grundvallaratriðum og það verður bara svo að vera,
    Bestu kveðjur.
    PMS

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...