19 júlí, 2020

"Það fer allt á Selfoss"

Baugsstaðir
Baugsstaðir
Ég skildi aldraðan frænda minn, sem ég hitti í gær, þar sem hann sat í herbergi sínu á Fossheimum og horfði út um gluggann á bílastæði þar sem hann hafði talið 60 bíla daginn áður. 
Á Fossheimum er hann í svokallaðri hvíldarinnlögn í einhvern tíma, en býr annars einn á bænum sínum niðri við ströndina. 
"Það fer allt á Selfoss" ítrekaði hann. Hann telur bæina eða þorpin, þar sem áður var talsverð sjósókn og fiskvinnsla, mega muna betri tíð. Þar sé ekkert eftir. Með tilurð Árborgar hafi örlög Stokkseyrar, Eyrarbakka  og byggðarinnar í kring, verið ráðin.

Hann vill ekki flytja á Selfoss, en hann lét svo sem ekki illa af sér, hann frændi. Á Fossheimum fær hann að njóta þjónustu sem hann fær ekki annars og öryggis, sem sannarlega er manni mikilvægt sem skriðinn er vel inn á tíunda áratug ævinnar. Ég hygg að honum finnist lítt eftirsóknarvert að búa við umhverfi þar sem plastblóm fylla gluggakistur og bílar bílastæði. Það væri betra að fá að njóta þess að hafa mjaðjurtina fyrir utan gluggann sinn. 

Frændi nýtur þess að vera fullkomlega skýr í kollinum. Það held ég að sé eftirsóknarvert á hans aldri. Ég hygg að það sé helst skrokkurinn sem gæti verið betri, en það er nú ekki við öðru að búast að hann fari að gefa eftir þegar ævilengdin er orðin sú sem raunin er.

Knarrarósviti (efsti hluti)
Hann sagði okkur frá ýmsu þá stund sem við áttum með honum í gær, meðal annars frá því þegar amma starfaði í Rjómabúinu eitt eða fleiri sumur. Kaupið hennar þá var 1 króna á dag. Á svipuðum tíma var sett upp gjaldskrá fyrir að fá að skoða Knarrarósvita, en þar var fólki gert að greiða vitaverðinum 25 aura fyrir að fá að fara upp í vitann. Þessi gjaldskrá var ekki uppfærð í samræmi við þróun verðlags og mörgum árum seinna, þegar frændi var þar vitavörður komu ýmsir að skoða  vitann, eins og gengur, meðal annars menn á fínum bílum, vel stæðir menn, sem réttu honum krónupening og vildu fá til baka. Voru víst bara góðir með sig. Þá kveðst fændi hafa sagt þeim frá daglaunum móður sinnar (ömmu) í Rjómabúinu og að þessir 25 aurar hefðu þá verið fjórðungur daglauna hennar. Spurði hvort það væri þá ekki eðlilegt að þeir reiddu fram fjórðung daglauna sinna fyrir að fá að skoða vitann. Það mun hafa orðið fátt um svör og þessu tali var eytt.

Hólavatn, Rjómabúið, Baugsstaðir
Í stjórn Rjómabúsins sátu eintómir karlar og í rjómabúinu störfuðu eingöngu konur; konur, vegna þess að öll áhöld voru úr tré og það var auðvitað mikilvægt að hreinlætis væri gætt í hvívetna og það mun hafa útilokað karlana. Þeir voru nógu góðir til að stjórna öllu saman.

Ég fann það, að frændi hafði áhyggjur af Rjómabúinu, en það stendur honum talsvert nærri. Ekki veit ég hvort þær áhyggjur eru réttmætar, en þær snúa helst að því hvernig vatnsrennslinu að búinu er stjórnað og tengist einhverjum mannvirkjum við Hólavatn (sjá mynd), en þaðan var, á sínum tíma, grafin rás, um 1,5 km,  að búinu og vatnið sem fékkst með því móti knúði þau tæki sem notuð voru við smjörframleiðsluna.  
Það er mér auðvelt að viðurkenna að vit mitt, þegar kemur að þessum málum, er vart mælanlegt.  
Smjörið úr rjómabúinu var selt til Englands, enda og dýrt fyrir venjulega Íslendinga. Þeir létu sér nægja bræðing, sem var búinn til með því að blanda saman tólg og lýsi, sem síðan var borðað með þorskkjömmunum.

Frændi kom víða við í þessari stuttu heimsókn og mér reyndar löngu ljóst að hann er ótrúlegur viskubrunnur um fyrri tíma.  Sannarlega hefur verið gerð heimildamynd þar sem hann er í aðalhlutverki, en það þarf að koma meira til, ekki síst að því er varðar  sögu Baugsstaða á 20. öld. 

"Það fer allt á Selfoss", þar sem bílarnir spúa koltvísýringi út í andrúmsloftið.    

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum, 7 ára, 1935.
Mynd: Margrét Júníusdóttir
Frændi er móðurbróðir minn og heitir Sigurður Pálsson. Hann hefur búið á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi alla tíð, en hann fæddist árið 1928. Fyrstu myndina sem tekin var af honum, tók 
Margrét Júníusdóttir, þegar hann var 7 ára.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...