Guðrún Andrésdóttir, vinstra megin og Margrét Júníusdóttir fyrir framan Rjómabúið, sem þá var orðið að verzlun, eingöngu. Myndina fékk ég á Baugsstöðum. |
Ég er auðvitað búinn að átta mig á því, að allt umhverfi þeirra sem voru á mínum núverandi aldri fyrir 20-30 árum, var gjörólíkt því sem nú er og hyggst því bara fara mínu fram í trúnni á það að maður er ekki deginum eldri en maður telur sig vera og hana nú.
Ég var í heimsókn hjá Sigga frænda mínum á Baugsstöðum í gær og þar kom Rjómabúið á Baugsstöðum til tals frá ýmsum hliðum, meðal annars þær Margrét og Guðrún (Margrét Júníusdóttir (1882-1969) og Guðrún Andrésdóttir í Hellukoti (1909-1992)). Þær stöllur ráku einmitt verslunina í Rjómabúinu þegar ég var sendur í sumarvist hjá afa og ömmu um og upp úr 1960.
Þegar hugurinn reikaði til þessa tíma, svona óralangt inni í fortíðinni, skaust enn að mér hugmyndin um að ég væri nú bara orðinn skrambi gamall, en ég bægði henni bara umsvifalaust frá mér. Frá þessum tíma til dagsins í dag hefur veröldin bara þotið áfram á margföldum þeim hraða sem hún gerði í aldir þar á undan.
Ég man vel eftir þessum gömlu konum í Rjómabúinu og hvernig þar var umhorfs. Vissulega engin framleiðsla á mjólkurafurðum lengur, en þar var hægt að kaupa sælgæti. Hvernig sælgæti það var man ég nú ekki, en líklega, í það minnsta, kandísmolar og einhverjir gosdrykkir. Svo man ég eftir brilljantíninu, en það bendir til að þarna hafi ég verið kominn á þann aldur að velta fyrir mér tískustraumum í hárgreiðslu. Brilljantínið var fljótandi olía, gulleit í glærri flösku. Það var svo sett í hárið, svo dugði. Fljótlega fór að renna undan hárinu og niður á ennið. EN þetta var töff og nauðsynlegt. Brilljantínhárgreiðsla var enn við líði þegar ég fermdist og er vel skjalfest.
Magga og Gunna munu hafa dvalist í Rjómabúinu virka daga, en fóru hjólandi til síns heima á Stokkseyri um helgar, að sögn Sigga. Þegar þær voru búnar að læsa versluninni, settu þær stein fyrir dyrnar og krossuðu síðan yfir. Þar með voru þær klárar í helgarleyfið.
Rjómabúið var rekið sem slíkt frá 1905-1952, en eftir það sem verslun þar til Margrét lést árið 1969.
Rjómabúið á Baugsstöðum. Mynd af vef BBL |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli