Ekki ætla ég hér að reyna að skilgreina hvað náttúrulegt umhverfi er, utan það að halda því fram, að nátturulegt sé það umhverfi, sem maðurinn hefur ekki tekið sig til og breytt í sína þágu. Þar með er bara til náttúrulegt umhverfi þar sem mannshöndin hefur í engu komið að. Þróunin hefur verið sú gegnum allan þann tíma sem maðurinn hefur gengið á þessari jörð okkar, að hann hefur í æ ríkari mæli verið að beisla náttúruna í sína þágu með einhverjum hætti. Lengi framan af var þessi þróun tiltölulega hæg, en á tuttugustu öldinni fór manninum að takast að beisla náttúruna æ meir og æ hraðar. Eftir því sem hann náði betri tökum á henni, fjölgaði hann sér æ hraðar og nú er svo komið, að upp rísa hópar sem krefjast þess að nýtingu mannsins á náttúrunni verði settar skorður. Ekki veit ég það, en mig grunar að það sé við það að verða of seint að gera nokkuð í málinu, þar sem ríkir hagsmunir kalla á að enn skuli hún nýtt til enn meiri hagnaðar og velsældar mannsins.
---------------------------
Tekið af: |
Maðurinn gerir sér æ minni grein fyrir því hvað er náttúrulegt. Það er náttúrulegt þegar nýtt líf kviknar. Það er náttúrulegt að lífi ljúki. Hvorttveggja er eðlilegasti og náttúrulegasti hlutur í heimi. Það sem gerist milli lífs og dauða, að því er manninn varðar, snýst í æ meiri mæli um ónáttúrulega hluti. Áfram eru börn vissulega getin og þau fæðast foreldrum sínum. Áfram deyr maðurinn þegar sá tími kemur. Að hvaða leyti öðru getum við sagt að maðurinn búi í eða lifi í náttúrulegu umhverfi?
Það er orðið frekar langt síðan maðurinn tók sig til og fór að nota dýr, bæði sér til viðurværis, skemmtunar eða til að auðvelda sér lífið. Gömul saga og ný. Þessi lífsstíll hans hefur fyrir löngu verið samþykktur sem hinn eðlilegasti þáttur í mannlífinu, enda væri mannskepnan hreint ekki söm án hans. Getum við þá haldið því fram, að húsdýr mannsins hafi búið við eða búi við náttúrulegar aðstæður? Hver væri staða þessara dýra ef maðurinn hefði ekki not fyrir þau? Væru þau yfirleitt til?
Áhrifavaldar nútímans segja okkur að það sé ljótt að halda dýr. Þau eigi að fá að njóta sín í náttúrulegu umhverfi sínu, sem vekur upp ótal spurningar.
Hvert er náttúrulegt umhverfi þessara dýra á Íslandi: sauðkindarinnar, nautgripsins, heimiliskattarins, poodle hundsins, svínsins, svo dæmi séu tekin? Hver yrðu örlög þessara dýrategunda hér, ef þeim væri gert að lifa í náttúrulegu umhverfi sínu?
Það er sannarlega sorglegt í ákveðnu samhengi að vita til þess, að litlu lömbin, sem fæðast á vorin, eigi bara nokkurra mánaða líf í vændum. Að þá verði þau hrifsuð frá mæðrum sínum, drepin og étin. En þá þarf að velta fyrir sér hvað yrði ef þetta væri ekki svona.
Hver yrðu örlög okkar, nútímafólksins á Íslandi, ef okkur yrði gert að lifa í náttúrulegu umhverfi okkar? Ég er nú þeirrar skoðunar, að við yrðum ekki langlíf. Við erum komin svo langt frá því sem getur talist náttúrulegt, að það er næstum ógnvekjandi. Svo langt erum við komin frá náttúrunni, að við treystum okkur til að dæma um hvað telst vera náttúrulegt - án þess að bera nokkurt skynbragð á hvað það er - og líka að trúa "spekingunum". Í landi blindingjanna er sá eineygði konungur.
Fæðingar og dauði eru náttúrulegustu fyrirbæri lífs á jörðinni. Að því er manninn varðar gerist hvorttveggja orðið inni á þar til gerðum stofnunum (já, ég veit að það eru til allskyns afbrigði af fæðingum og dauða), en gengur það?
Hve margir þeirra sem eru yngri en fertugir skyldu hafa verið viðstaddir fæðingu eða dauða lifandi veru af einhverju tagi? Verður það ekki að teljast frekar ónáttúrulegt?
--------------------------------
Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég ætti bara ekki að gerast áhrifavaldur. Það strandar oftast á nokkrum þáttum, til dæmis þessum:
1. Mér er meinilla við að taka sjálfur.
2. Ég er ekki sléttur og felldur.
3. Mér líkar illa við hugmyndina um þetta fyrirbæri.
4. Ég bara hef ekki hugmynd um hvað maður þarf að gera til að verða áhrifavaldur.
Ég veit hinsvegar að ef mér tækist að verða áhrifavaldur, myndi margt breytast í samfélaginu. Það held ég, svei mér þá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli