17 ágúst, 2020

Af gúrkum og öðru grænmeti

Tvennskonar ástand gúrkna
Mér varð það á í gær, eftir verslunarferð, að birta mynd á Facebook, með vel völdum orðum um gúrkur í verslun, sem voru orðnar á haugamat áður en þær voru bornar fyrir viðskiptavini. Þessi færsla hafði í för mér sér talsverð viðbrögð. 

Ég hef áður vegið í sama knérunn, til dæmis bæði hér og hér árið 2012. Mér er löngu orðið ljóst að svona  tuð breytir engu, sem kom berlega í ljós í gær, þegar ég stóð frammi fyrir nýframsettum gúrkum í stórverslun hér á Selfossi. Það hafði auðvitað ekkert breyst. Ég er samt ekki tilbúinn að leggja árar í bát og því sendi ég póst á viðkomandi verslun með aðfinnslum mínum, bæði varðandi þessar gúrkur og annað grænmeti sem þar er alla jafna á boðstólnum. Ég bíð svara, en á ekkert sérstaklega von á að þau sannfæri mig um að breyting verði á (svarið er komið - sjá neðst).

Hvernig er góð, fersk og brakandi gúrka?  Hún lítur nokkurn veginn svona út:

Í það minnsta finnst mér að hún eigi að líta svona út.
Hún á að vera grönn, þvermálið jafnt og yfirborðið hrufótt. Stinn skal hún vera og það finn ég oftast með því að þreifa á hálsinum á henni. Liturinn á henni á ekki að vera dökkrænn og auðvitað ekki ljósgrænn (næstum gulur), heldur þarf hann að vera fagurgrænn, í þá veru sem myndin hér fyrir ofan sýnir. Gúrka á alls ekki að vera slétt og djúp dökkgræn, því að er ávísun á að hún sé römm á bragðið.

Er munur á steinullargúrku og moldargúrku?
Stærstu hluti gúrkna er ræktaður í steinull hér á landi (held ég). Það er vegna þess að þá er auðveldara að stjórna ýmsum þáttum í áburðargjöfinni og ná þar með fram fleiri kílóum á fermetra. Það er þekkt viðhorf að steinullargúrkurnar séu oft bragðlausari og kjöti með gulri slikju, en mér hefur aldrei fyllilega tekist að sannreyna það. Mér finnst ég samt vera öruggari með moldargúrkurnar, ekki síst ef þær eru ræktaðar með lífrænum aðferðum.

Áhrif á markað fyrir gúrkur.
Segjum sem svo, að ég sé neytandi og að ég ákveði að kaupa mér gúrku. Gúrkan sem ég keypti reynist vera "fersk og brakandi" og bragðgóð þar að auki. Er ég þá ekki líklegur til að auka neyslu mína á gúrkum?  Lendi ég í því að kaupa gamla og bragðvonda gúrku er með sama hætti hægt að reikna með því að það muni líða lengri tími áður en ég legg í að kaupa gúrku næst.  Það þarf ekki speking til að átta sig á því. Þar með minnkar markaðurinn fyrir gúrkurnar og stærri hluti framleiðslunnar endar, ef ekki í almennu sorpi (vegna plastumbúðanna), þá kannski sem lífrænn úrgangur.

Hagsmunir garðyrkjubænda af því að sú vara sem stendur neytendum til boða, sé til þess fallin að auka neysluna á grænmeti, eru óhemju miklir. Það er þeirra hagsmunamál, að selja sem mest af grænmeti. Hagsmunir verslunarinnar eru að selja sem mest.  Til þess að auka grænmetisneyslu þarf grænmetið sem blasir við viðskiptavinum verslana að vera það gott að þá langi að kaupa meira í næstu verslunarferð.  Mér finnst þetta svo augljóst, að ég roðna við að slá það hér inn. Ég hef komið heim, oft, án þess að hafa keypt grænmeti, vegna þess að það sem í boði var, var óboðlegt til neyslu. Það er alvarlegt. Hve margir aðrir neytendur hafa þurft að vera í sömu sporum? Hvaða áhrif hefur þetta haft á framleiðslu og neyslu grænmetis í landinu? 

Gúrkurnar sem urðu kveikjan að þessum blæstri.
Pakkningar
Það er orðið langt síðan menn tóku upp á því að pakka gúrkum í loftþéttar umbúðir, einhverskonar, sem ég tel vera miður, ekki síst vegna þess að þannig á neytandinn erfiðara með að átta sig á gæðum gúrknanna. Þannig hef ég, sjálfskipaður sérfræðingurinn í gæðum gúrkna, lent í því, að kaupa gúrku sem uppfylltu gæðakröfur mínar (sjá hér að ofan) í versluninni - stinnar og fínar og fallegar á litinn. Tveim dögum síðar, þegar kom að neyslu reyndust þær vera eins og sjá má á efstu myndinni, hægra megin. Með þessum umbúðum er þessari lífrænu vöru pakkað inn eins og múmíu til að hún líti vel út, sem lengst.  Má ég þá frekar biðja um götuðu pokana, sem gefa miklu betra færi á að meta raunveruleg gæði.

Síðasti neysludagur og geymsla.
Grænmeti er þess eðlis, að eftir að það hefur verið uppskorið (fjarlægt af plöntunum) er tíminn þar til þess er neytt, takmarkaður. Þetta eru augljós sannindi. Hvernig til tekst með geymsluna fram að síðasta mögulega neysludegi fer eftir ýmsu, en þar skiptir hitastig við geymsluna einna mestu máli.
Það eru miklir hagsmunir garðyrkjubænda, að tryggja það, að grænmetið sem þeir senda frá sér, fái viðunandi meðhöndlun og að það komist í hendur neytenda áður en það er byrjað að rotna og skemmast.  Þetta er sannarlega ekki auðvelt verkefni að fást við, ekki síst þegar allskonar heildsölur taka að sér að sjá um söluna. Hvernig á að fara að því að brýna fyrir heildsölum og smásölum að grænmetið sé viðkvæm vara sem þarf rétta meðhöndlun? Hver ber áhættuna af því að varan seljist? Þegar ég var í þessum bransa bar ég, sem framleiðandi, skaðann. Ég fékk ekki greitt fyrir grænmetið sem ekki seldist og því var fleygt á haugana. Er það svona enn? Er áhætta heildsala og smásala af verslun með íslenskt grænmeti kannski engin, öfugt við það grænmeeti sem þessir aðilar flyja inn?

Er mögulegt að merkja grænmeti með einhverjum hætti, þannig að ég geti séð, þegar ég ætla að kaupa mér gúrku, hvenær hún var skorin af plöntunni og hvenær "best fyrir" dagur hennar er?  Ég skil að það er varla einfalt verkefni að koma þessu á, en myndi það ekki gerbreyta gæðum þess grænmetis sem er að finna í grænmetisborðunum?

Meira af póstinum til verslunarinnar
Jæja, ég sendi póst á verslunina sem ég heimsótti í gær. Ég læt nafn hennar liggja milli hluta, en væntanlega ymislegt hægt að segja samsvarandi um margar aðrar verslanir.  Póstur minn var svohljóðandi, eftir inngang:
Okkur vantaði gúrku og það var greinilega nýbúið að fylla á grænmetishillurnar, meðal annars voru þarna tveir kúfaðir kassar af gúrkum - gúrkum sem ég myndi varla gefa hænunum mínum ef ég ætti þær. Ég læt fylgja mynd. Þessar gúrkur voru augljóslega búnar að reyna margt, og búnar að bíða lengi eftir að komast fram þar sem viðskiptavinir gætu keypt þær og gætt sér á þeim.  Það get ég fullyrt að það fólk sem keypti þessar gúrkur hjá ykkur í gær, munu hugsa sig um tvisvar áður en þeir reyna að kaupa gúrkur hjá ykkur aftur. Þeir munu sennilega leita annað.
Það sem ég velti fyrir mér er, hvernig í ósköpunum ykkur dettur í hug að bera svona vöru á borð. Hvaða þekkingu hefur starfsfólk ykkar á grænmeti, úr því það sér ekki muninn á gæðavöru og ónýtri? Er ykkur bara alveg sama um gæði og ferskleika grænmetis? 
Já, ég veit, að það verður  að fleygja því grænmeti á haugana sem er orðið of gamalt og ég veit að það er sóun. Hinsvegar leyfi ég mér að benda á, að  fólk sem er vant því að kaupa gæðagrænmeti, er líklegra til að kaupa það aftur. Fólk sem situr uppi með lélega og óneysluhæfa vöru er síður líklegt til að kaupa það aftur.  Þið getið sagt sem svo, að ykkur sé nokk sama, en ég vona að svo sé ekki.

Það er fleira.
Það eru birtar fréttir af því að íslenskt, útiræktað grænmeti sé farið að streyma í verslanir. Meðal annars blómkál, sem okkur langaði að kaupa. Það var til íslenskt blómkál hjá ykkur í gær, sannarlega. Hausarnir voru 5-7 cm í þvermál og brúnskellóttir eftir að hafa lent í rigningu áður en þeir voru skornir. Við keyptum ekki blómkál þó nóg væri til af því innflutta.

Tvisvar hef ég freistast til að kaupa hjá ykkur tómata í bökkum. Ég mun hugsa mig um áður en ég geri það aftur. Í báðum tilvikum kom í ljós, að þeim hafði verið staflað í flutningum þannig að þeir voru sprungnir á hliðinni sem snéri niður og voru byrjaðir að mygla (kom auðvitað ekki í ljós fyrr en koma að því að neyta þeirra. Þeir litu fallega út ofan frá séð.

Ég neita því ekki, að ég fæ á tilfinninguna, að ykkur sé bara algerlega sama um gæði grænmetis í hillum ykkar. Sé svo, finnst mér það dapurlegt. Ég vona sannarlega að þið takið ykkur á varðandi gæði þess grænmetis sem þið komið fyrir í hillum ykkar, ekki síst þegar framleiðsla á íslensku grænmeti er í hámarki. Ég viðurkenni það jafnframt, að það kemur fyrir að ég fæ ágætis grænmeti hjá ykkur hér á Selfossi og nefni þar sérstaklega gúrkurnar frá Akri. 

Von mín er sú, að haugamatur hverfi úr grænmetishillunum hjá ykkur og að þið farið að leggja meiri áherslu á og metnað í að bjóða viðskiptavinum ykkar gott, íslenskt grænmeti.

Baráttukveðjur


Ég er nú búinn að fá svar við erindi mínu frá vöruflokkastjóra ávaxta og grænmetis, svohljóðandi:



Sæll Páll,
Takk fyrir þessar greinagóðu upplýsingar.
Við munum nýta okkur þær í viðleitni okkar til að bæta gæði á íslensku grænmeti og þekkingu starfsfólks okkar.
Í samstarfi við innlenda birgja og bændur, stefnum við sífellt á að gera betur í þessum efnum.

Með kveðju,


Megi Guð láta gott á vita, eins og gömlu konurnar sögðu í gamla daga. 





 





 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...