12 júlí, 2018

Hvað er eiginlega málið með totann minn?

Eins og ég átti svo sem von á, þá reyndust viðtökur við síðustu færslu minni hér, blendnar, en það sem kom mér dálítið á óvart var hve margir virðast hafa lesið. Það segir mér, að málefnið hreyfir við okkur uppsveitafólki.

Þegar upp er staðið þá er það að mínu mati, dæmigert fyrir vandræði okkar þegar kemur að verkefnum, sem eru of dýr fyrir einn hrepp og jafnvel fyrir þá alla saman. Öll förum við að ota okkar tota og ekki verður neitt úr neinu.

Minn toti hefur verið Laugarás. Það kann að virðast augljóst þeim sem lesið hafa, að ég á heima í Laugarási. Þar með er málflutningur minn dæmdur úr leik að stórum hluta. Eingöngu vegna totans míns.  Mér finnst slík viðbrögð hinsvegar benda til talsverðrar grunnhyggni og lítilsvirðingar á því sem ég hef haft fram að færa.

Allt í lagi með þetta allt saman: Ég á heima í Laugarási og þar með eru skoðanir mínar á staðsetningu dvalar- og hjúkrunarheimilis tortryggilegar og að engu hafandi. Ef ég byggi á Laugarvatni og héldi þeim ágæta stað á lofti, gilti það sama og það sama ef um væri að ræða Reykholt, Flúðir, Borg, Árnes eða Brautarholt.
Hvað myndi gerast ef við færum nú að ota öðrum totum? Ég myndi til dæmis sjá marga kosti við það að stofna dvalar- og hjúkrunarheimili á Laugarvatni, nú eða á Brautarholti. Þannig yrðu skoðanir mínar væntanlega marktækari, þar sem ekki væri hægt að halda því fram, að ég hefði sérstakra hagsmuna að gæta.

Það sem verður að gerast, hér í uppsveitum er, að okkur takist að sjá tota annarra í annarskonar ljósi.

Ég veit að það skiptir engu máli þó ég upplýsi um það, að totinn minn í þessum málflutningi er ekki til kominn vegna persónulegra hagsmuna minna af málinu. Mér finnst, eins og staðan er nú og útlit allt, harla ólíklegt að ég muni eyða síðustu æviárum á dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu.  Sannarlega þykir mér vænt um Laugarás og svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, uppsveitirnar allar. Þetta er vísast eitt besta svæði á landinu til að búa á (nema kannski á þessu sumri), en um leið átta ég mig á því, að síðustu æviárin fela í sér áskoranir sem eru mikilvægari en staðsetning einhvers húss. Þar hlýtur maður að telja mikilvægara að aðgengi þeirra sem að standa sé eins gott og hægt er.  Aldraður einstaklingur á oftast afkomendur sem vilja geta kíkt í heimsókn án þess að þurfa að leggja að baki tuga eða jafnvel hundraða kílómetra akstur.  Margir þeirra sem nú eru aldraðir í uppsveitum eiga hér stóran hluta afkomenda sinna, aðrir engan, svona eins og gengur. 
Ég vil sjá það fyrir mér að aldraðir sem þurfa að þeirri þjónustu sem dvalar- og hjúkrunarheimili veita, geti fengið þá þjónustu sem næst afkomendum sínum. Annað fyrirkomulag er út úr kortinu og ótækt.

Laugarás, eða ekki Laugarás. Stóra spurningin snýst ekki um það, heldur miklu fremur um það að ná samstöðu um að byggja dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það skiptir mestu.
Mér þykir miður ef einhverjir halda, eftir skrif mín um þessi mál að ég sé ekki þroskaðri en svo að geta ekki séð neitt nema naflann á mér (sem reyndar hefur gerst erfiðara með árunum).

Faðir minn, feður margra okkar og mæður, afar og ömmur, sem þurftu og þurfa á þeirri þjónustu sem hér er um að ræða, að halda áttu og eiga engan annan kost en fara á biðlista og lenda síðan einhversstaðar, jafnvel í hundraða kílómetra fjarlægð frá afkomendum símum.
Þetta er ekki boðlegt og ekki það sem mannvinsamlegt samfélag getur boðið þegnum sínum.
Framundan er öldrun barnasprengjukynslóðarinnar, þeirra okkar sem fæddumst í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.  Það er stöðugt háværari krafa um að þetta fólk fái viðeigandi þjónustu síðustu ár ævinnar.

Ég legg til, að ráðinn verði óháður aðili til að meta aðstæður hjá okkur á þessu svæði og leggja til hentugustu og hagkvæmustu staðsetningu fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili.  Í framhaldinu sameinist sveitarsjórnirnar um þann kost sem þar birtist og leggist í víking til að fá nauðsynlegt fjármagn. Mig grunar að slíkt geti orðið auðveldara á næstunni, þar sem barnasprengukynslóðin mun ekki sætta sig við að deyja á biðlistum.

Svona í lokin við ég nefna tvennt:
1. Hér er auðvitað ekki bara verið að fjalla um hjúkrunarheimili, heldur öll þau þörfu mál sem stranda á hreppapólitík, engum til góðs, en skaðar marga og tefur margt.

2. Verði ekki úr því að hjúkrunarheimili verið byggt í Laugarási, sem ég mun mögulega aldrei upplifa, þá ítreka ég þá skoðun mína, að kominn sé tími til að uppsveitahrepparnir losi um kyrkingartak sitt á þorpinu í skóginum; flytji málefni þess út úr lokuðum fundarherbergjum oddvitanna
Í sem stystu mál þá tel ég að ekki sé lengur neinn grundvöllur fyrir sameign hreppanna á Laugarásjörðinni.

------------

Myndirnar sem fylgja voru teknar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar er afskaplega vel búið að öldruðum og starfsfólkið einstakt. Þarna dvaldi faðir minn síðustu æviárin og myndirnar sýna hann ásamt fjórum langafabarnanna.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...