13 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (4)

Framhald pistla með sama nafni, nr. 1, 2 og 3.

Ef við ímyndum okkur nú, í einhverskonar tölvuleik (svoleiðis leikir eru til), að við ættum að skipuleggja landssvæði þannig, að allir hlutar svæðisins fengju að njóta sín og að svæðið væri til þess fallið að draga til sín fleiri íbúa og öflugri starfsemi. Það vææri einnig gefið, að svæðið væri láglaunasvæði og það væri okkar hlutverk að efla það þannig að það yrði eftirsótt til búsetu. Það væri gefið að á svæðinu byggju 3000 manns, þetta væri dreifbýlissvæði með 7 stöðum þar sem byggð væri þéttari.

Þarna þyrftum við að taka tillit til ýmissa þátta, t.d. aðstæðna á  hverjum stað og staðsetningar, Við þyrftum að velta fyrir okkur hverskonar uppbygging á svæðinu kæmi sér best á hverjum stað. Það vill kannski svo til, að ef svæðið er skoðað í heild, eru þessir staðir misjafnlega heppilegir fyrir mismunandi starfsemi.
Á myndinni hér efst er ég búinn að teikna upp ímyndað svæði til að vinna út frá.

Ég ætla að byrja á að velta fyrir mér þeim þáttum þar sem mikilvægt er að allir íbúarnir á svæðinu hafi sem bestan aðgang og gef mér það, að það sé skilyrði í leiknum að við megum aðeins hafa einn þátt af hverju innan svæðisins. Þá vaknar spurningin: Hvar væri heppilegast að setja niður grunnskólann, stjórnsýsluna, félagsþjónustuna, heilsugæsluna, lögreglustöðina eða heimili eldri borgara, til dæmis? Auðvitað myndi ekki vefjast fyrir mér að staðsetja grunnþætti af þessu tagi. Hvað með þig?
Hinir staðirnir henta sannarlega vel fyrir ýmislegt annað: ferðaþjónustu, jarðrækt, iðnað og  framleiðslufyrirtæki af ýmsu tagi, allskyns starfsemi sem byggði að þeim mannauði eða náttúrulegum aðstæðum sem til staðar væru.

Fjölskyldan í Hveratúni, 1960
Ef við gefum okkur nú, svona til að gera leikinn dálítið erfiðari, að staðirnir sem ég kalla 2 - 7 hafi talsvert sjálfstæði, en hafi með sér einhverja ákveðna samvinnu um ýmis mál, og að jafnvel vinni sumir þeirra meira saman eða aðrir, til að styrkja stöðu sína á svæðinu.

Gefum okkur, til að bæta enn í, að staðirnir 2 - 7  ráði yfir og jafnvel eigi stað nr. 1.  Væru það þá eftir sem áður hagsmunir þeirra, að efla þann stað? Kæmi það sér ef til vill svæðinu í heild best?  Hvað myndi verða um svæðið, ef þeir sem héldu um stjórnartauma á hverjum stað, myndu einbeita sér að því að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni síns staðar, eða kannski freista þess að ná samkomulagi við þann stað sem næstur er, um alla helstu þætti sem á svona svæði þurfa að vera?
Ef við gefum okkur að okkar svæði þurfi að keppa við nágrannasvæði um fólk og uppbyggingu, hvernig færi svæðið út úr þeirri samkeppni? Myndum við tapa þeim leik?
Ég held það.


Ég ætla að hætta í þessum leik og fara að huga að þáttum í lífi mínu sem meiri ástæða er til að ætla að ég geti haft áhrif á.







Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...