12 desember, 2019

Gylfi læknir

Þorpshátíð í Laugarási 2003.
Þar sýndu Gylfi og Rut að þau voru samhent hjón. 
Árið 1984 var heilmikið örlagaár í lífi okkar Kvisthyltinga; árið þegar næstelsti sonur okkar greindist með  með hættulegan sjúkdóm, árið þegar við eignuðumst einu dóttur okkar og árið sem við fluttum í nýbyggt húsið okkar í Laugarási, sem við höfðum þá gefið nafnið Kvistholt.
Ég ætla ekki að draga í efa, að Laugarásbúar hafi fagnað komu okkar, en mig grunar að þeir hafi fagnað enn meir nýja lækninum, Gylfa Haraldssyni, sem settist að í Launrétt 2 þá um haustið, ásamt fjölskyldu sinni. Þá var þegar tekinn til starfa á heilsugæslustöðinni, maðurinn sem átti eftir að vera samstarfsmaður Gylfa í áratugi, Pétur Skarphéðinsson.
Í hönd fóru einhverjir heilsufarslega öruggustu áratugir í sögu Laugaráslæknishéraðs. Um þetta hef ég fjallað áður. 
Þar með er ég hreint ekki að gera lítið úr hluta annarra þeirra lækna sem hér hafa starfað. Þeirra hlutskipti, flestra, var hinsvegar lengst af að vera einir ábyrgir fyrir því víðfeðma héraði sem Laugaráslæknishérað var og er.

Ég þekkti Gylfa nú ekki svo vel að ég treysti mér til að fara eitthvað út í að leggja mat á persónueinkenni hans. Hann virkaði þannig á mig, með rólyndislegu fasi sínu, að þar færi maður sem maður gat treyst, tók á málum af yfirvegun, fjallaði um þau hægri og djúpri röddu, leysti málin eins og hann taldi best hæfa hverju tilviki, rétt eins og manni finnst að læknar eigi að gera.

Gylfi var virkur í félagsstarfi af ýmsu tagi í Biskupstungum. Hann var mikill Lions maður, sat í ýmsum nefndum innan Ungmennafélags Biskupstungna, í sóknarnefnd Skálholtssóknar og tók þátt í innansveitarpólitíkinni, svo eitthvað sé nefnt.

Þorpshátíð í Laugarási 2003. Gylfi með feðgunum
Skúla Magnýssyni og höfundi.
Það er örugglega ekki einfalt að vera á daginn læknirinn sem gægist inn í sál og líkama sjúklingsins og sitja síðan með honum á nefndarfundi um kvöldið. Þetta er kannski  eins og að vera tvær manneskjur í einni, en vera samt ein manneskja. "Annars má ég ekkert segja um starf mitt sem læknir, er bundinn algerri þagnarskyldu", sagði Pétur, samstarfsmaður Gylfa, í viðtali í Litla Bergþór. Mér varð stundum á að hugsa með sjálfum mér, að það gæti verið fróðlegt (ef ég væri þannig þenkjandi) að kíkja inn í hugarheim þessara félaga, eftir ríflega þrjátíu ára samskipti þeirra við sjúklinga á þessu svæði.

Þegar Gylfi lét af störfum hygg ég að hann hafi þegar verið farinn það finna fyrir þeim veikindum sem hann þurfti síðan að kljást við. Manni fyndist það nú bara réttlátt að fá að lifa mörg góð ár með fjölskyldu sinni, eftir að starfsævinni lýkur. Slíkt réttlæti er víst ekki til.  Gylfi þurfti að glíma við vanheilsu alveg frá starfslokum. Hann lést annan desember og útför hans er gerð frá Neskirkju í dag.

Eftir situr fjölskylda hans, konan hans sem var honum stoð og stytta, Rut Valtýsdóttir, börnin sem hann eignaðist með fyrri konu sinni, Höllu Arnljótsdóttur, þau Þröstur Freyr og Guðbjört og fóstursynirnir, synir Rutar, en sá yngsti þeirra, Hreiðar Ingi ólst upp hjá Gylfa og Rut að mestum hluta.
Fjölskyldan, sem Gylfi skilur eftir sig er mikið sómafólk og vitnisburður um það sem Gylfi stóð fyrir og sýndi ávallt af sér gagnvart sjúklingum sínum og samstarfsfólki.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...