"Börn í leik" Dröfn Þorvaldsdóttir (2015) |
Ef ekki fæddust nein blessuð börn væri mannkynið sannarlega í djúpum skít - en það fæðast börn. Reyndar eru íbúar svokallaðra þróaðra þjóða, sem mér sýnist að, að mörgu leyti megi kalla úrkynjaða (þetta var illa sagt og vanhugsað - kannski), komnir að þeirri niðurstöðu, að börn séu til vandræða fremur en eitthvað annað. Í það minnsta fækkar börnum meðal þessara þjóða og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um ástæðurnar, þó á þeim hafi ég vissulega ótæmandi úrval skoðana.
Hversvegna ætti fólk að eignast börn, yfirleitt?
Varla fyrir slysni, enda hægur vandi að skipuleggja barneignir á þessum tímum.
Ég get alveg tínt til nokkrar mögulegar ástæður.
1. Meðfædd þörf mannskepnunnar, eins og annarra dýra, að geta af sér afkvæmi. Það er reyndar ekkert meira um það að segja. Örugglega góð og gild ástæða.
2. Krafa stórfjölskyldunnar (ekki síst mæðra, ímynda ég mér) um að fjölgun eigi sér stað. Með öðrum orðum, utanaðkomandi þrýstingur. "Er eitthvað að? Geturðu ekki átt börn?"
3. Þörf samfélagsins til að til verði einstaklingar til að standa undir samfélagi framtíðarinnar. Það verður að búa til framtíðar skattgreiðendur til að halda hjólunum gangandi, standa undir efnahagslegum vexti. Það þurfa alltaf að vera til neytendur framleiðslunnar. Einhvernveginn þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, ævikvöld foreldranna og annað það sem hver kynslóð þarf að geta staðið undir.
4. Þrýstingur jafnaldra. Allir vinirnir eru búnir að eignast börn og birta dásemdar myndir af á þeim á samfélagsmiðlum. Þessar myndir tjá endalausa hamingju foreldranna. "Þetta er frábært! Ætlar þú ekki að fara að koma með eitt?"
5. Sú hugmynd að börn séu stöðutákn. Þau sýna fram á að foreldrarnir eru færir um að fjölga sér og sjá fyrir sér og sýnum. Foreldrar og börn njóta virðingar umfram þá sem einhleypir eru eða barnlausir.
6. Krydd í tilveru hverrar manneskju. Sá tími kemur að djammið um hverja helgi fullnægir ekki lengur þörfinni fyrir merkingarbært líf. Tákn um það að einstaklingurinn er orðinn fullorðinn og maður meðal manna. Nýr taktur í lífið.
Ég gæti örugglega haldið lengi áfram að skella fram mögulegum ástæðum fyrir barneignum fólks. Það má segja að allar ástæðurnar sem ég taldi hér fyrir ofan tengist með ýmsum hætti og að þannig ráði oftast ekki ein ástæða umfram aðrar. Ég held því hinsvegar fram, að þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn, ráði ástæða númer þrjú minnstu.
Hvað um það, barn er getið og það fæðist, eftir dálítið dass af bumbu- og/eða fósturmyndum á facebook. Það er hægt og bara harla auðvelt, að deila hamingju foreldranna með öðrum, og hversvegna þá ekki að gera það?
Það er okkur öllum ljóst, að öllum foreldrum finnst sitt barn fallegast og best. Því ekki að fá staðfestingu á því? Það er alltaf gott að fá hrós. Við höfum öll þörf fyrir það. Við þekkjum öll slíkt hrós: "AWWWW", "Dúllan", "Þetta krútt" og svo framvegis.
Sumum er þetta ekki nóg, og ganga lengra. Það má jafnvel segja, að hrósþörfin verði að fíkn, að gleðin og hamingjan vegna krúttsins verði æ mikilvægari eftir því sem það verður fyrirferðarmeira.
Það verður smám saman ekki nóg að birta krúttmyndir með fyrirsjáanlegum viðbrögðum. Það þarf meira.
Þá koma oftar en ekki til hugmyndaríkir pabbar. Dæmin felast í myndunum sem hér fylgja.
Er rétt að líta á börn sem leikföng, eða nota þau í því samhengi? Því verður hver að svara fyrir sig, en í stóra samhenginu, sem felst í lið númer þrjú hér fyrir ofan, held ég nú að leikfangsvæðing barna geti verið nokkuð varasöm. Hlutverk foreldra er að skila af sér einstaklingi sem þeir eiga ekki og hafa aldrei átt, nema kannski í orði kveðnu. Það er sannarlega í góðu lagi að þeir njóti þess að eignast barn og njóti samvistanna við það. Foreldrarnir mega hinsvegar ekki líta framhjá þeirri staðreynd að litla krúttið vex og þroskast út frá því umhverfi sem það fæddist inn í og ólst upp í.
Ég get svo haldið áfram og fjallað um aðkomu samfélagsins og ábyrgð þess, en ég nenni því eiginlega ekki að svo komnu máli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli