28 júní, 2016

Sumarið kemur í haust - vonandi

"Svo ólík, en samt eins" - Dröfn Þorvaldsdóttir (2016)
Það skall á vetur í október 2008. Hann hefur staðið síðan. Vetur í íslensku þjóðlífi. Því er ekki að neita, að það hefur komið hláka við og við og þá aðallega vegna utanaðkomandi áhrifa. Það hafa einnig komið slæmir frostakaflar, sérstaklega vorið 2013. Þá lá við alkuli, en síðan minnkaði frostið aðeins næstu árin vegna flugvélafarma frá suðlægari slóðum og ekki síst í mars 2016, þegar öflug lægð með uppruna lengst suður í Atlantshafi út af ströndum Suður-Ameríku, reið yfir þjóðina. Það hlýnaði verulega og sólin yljaði rækilega í kjölfarið. 
Því er hinsvegar ekki að neita að sumum hlýnaði meira en öðrum. Það má segja að vorkomunni væri misskipt á landslýð.

Það má halda því fram, að þann 25. júní og dagana þar í kring, hafi orðið þáttaskil þegar þjóðin kvaddi veturinn endanlega.  Þann 27. reið sannkölluð hitabylgja yfir þjóðina; hitabylgja sem allir fengu að njóta. Ekki gera spár ráð fyrir öðru en veður haldist með ágætum í einhverja mánuði. Helst er gert ráð fyrir að það geti brugðið til beggja vona í október. Þá verða enn veðraskil, ef að líkum lætur. Vonir standa þó til að þá muni sumarið loksins festa sig í sessi og ein þjóð í landinu geti gengið saman um ókomna tíð, með sól á himni, blóm í haga, ást í hjarta; sameinuð til móts við nýjar áskoranir á öllum sviðum. 
-------------------
Skelfing er það undarlegt hvað forsetakjörið síðastliðinn laugardag og ítrekuð stórafrek knattspyrnulandsliðsins geta nú lyft manni í hæðir.  Jú, ég gaf frá mér hljóð nokkrum sinnum í gærkvöld þegar hápunktarnir áttu sér stað. Það varð ítrekað rof milli mín og sófans. 
fD hrópaði ekki.
Jú það væri gaman að skjótast til Parísar, en ætli mig skorti ekki nennu til.  
Lélegt. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...