17 mars, 2017

Rétturinn til að vera eins og mann langar að vera.

Þessi pistill bendir ótvírætt til þess að ég verði sífellt þjálfaðri í að segja ekki neitt í mörgum orðum, en segja þó margt.
Stundum stend ég mig að því að hafa hug á að segja, bæði á þessu svæði og í töluðu máli, nákvæmlega það sem mér býr í brjósti (sem er nú ekki alltaf birtingarhæft), en ákveð jafnharðan, að það sé sennilega ekki þess virði.
Hvað myndi ég hafa upp úr því annað en heilaga vandlætingu heimsins?
Yrði ég einhverju bættari?
Myndi tjáning mín breyta einhverju umfram það sem nettröllunum tekst að koma til leiðar?
Svo velti ég auðvitað fyrir mér hvort öðrum komi við hvað mér finnst um hitt og þetta?
Svo ekki sé nú nefnd spurningin um það hvort einhver hefur yfirleitt áhuga á að öðlast innsýn í hugarheim karls á sjötugsaldri (hvíts, meira að segja), sem þekkir ekki sjálfan sig í þeim "staðlmyndum" sem dregnar eru upp af körlum af þessu tagi, eða körlum yfirleitt..

Það fer auðvitað ekki milli mála, að ég hef fullan rétt á að halda fram skoðunum mínum, hvort sem þær eru rökstuddar eða ekki. Ég þarf bara að svara því hvort þessar skoðanir megi bara ekki vera mínar, og í sófanum með fD.
Skoðanir mínar og sýn mín á lífið eru til staðar, en stundum er bara betra að þegja; leyfa þeim sem vilja tjá sig út í hið óendanlega, í hópi jábræðra/jásystra sinna, án þess að nokkur nenni að bregðast við.
Auðvitað er ég ekkert upprifinn yfir því að ég skuli ekki bara láta vaða, en að sama skapi dálítið stoltur af sjálfum mér að halda ekki út á það forarsvað sem íslensk umræðuhefð býður upp á.

Kannski sætti ég mig bara við þá STAÐALMYND sem ég er settur í. Kannski endar með því að ég trúi því að þar eigi ég heima. Ég fæ daglega að vita af því hvaða flokki ég tilheyri, án þess að hafa gert mér grein fyrir að þar ætti ég heima.  Ég fæ daglega að vita af því hvað ég er, hvernig ég er og hvað ég stend fyrir. Ég fæ daglega upplýsingar um það að ég eigi að vera öðruvísi en ég er og haga mér öðruvísi en ég geri.  Myndin sem ég fæ af sjálfum mér, á hverjum einasta degi, er hreint ekki falleg. Því miður. Mér hefur ekki fundist ég vera neitt sérstaklega vondur maður, eða verulega ósanngjarn í framgöngu minni. Finnst meira að segja, að ég hafi lítið eitt til brunns að bera, sem er jákvætt, uppbyggilegt eða hlutlaust.  Það er víst ekki svo, er mér sagt, daglega.  Ég er alltaf að troða á öðrum eða taka pláss frá öðrum.

Einhversstaðar var sagt: "Ég er eins og ég er" og það er mikið til í því. Ég fæddist í þennan heim með tiltekna kosti eða galla, í líffræðilegum skilningi. Það er víst hægt að breyta því nú til dags, sem getur vissulega verið jákvætt þar sem það á við.  Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mér beri verða við kröfum um að ég breyti mér frá því sem ég varð í móðurkviði. Ég hef ávallt hafnað því, vegna þess, að ég er eins og ég er. Ef ég er mögulega tiltölulega sáttur við sjálfan mig, í stórum dráttum, þannig, þá er það bara svo og verður svo.

Til að hafa þetta nú allt á hreinu þá má gjarnan skipta út orðunum ég/mig/mér/mín hér fyrir ofan og setja í staðinn hann/honum/hans eða hún/hana/henni/hennar.
Setji fólk 3. persónu fornafn í stað 1. persónufornafns, bið ég það að hugsa sem svo, að á bak við þau sé ungt fólk á mótunarárum. Ég fer ekki fram á annað.
----------------
Hvað sem því líður, þá er tilefni þess að ég settist niður á þessum föstudegi til að skrifa mörg orð sem segja kannski ekki neitt, af ástæðum sem í honum má finna ef vel er að gáð, myndin sem er hérna efst, en hana sá ég í einhverjum vefmiðli.  Þarna voru á ferð Guðrún Jónsdóttir(ljósmyndarinn) og dóttir hennar Sóley Tómasdóttir (fyrirsætan). Guðrún kenndi með mér fyrir ártugum síðan. Hún var litrík baráttukona þá og hefur verið síðan. Sóley var þá barn að aldri. Ég man ekki eftir mikilli baráttu hjá henni þá, fyrir einhverjum málstað, en hún hófst og stendur enn.Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...