Í lok Kastljóss þann 9. mars flutti Þórdís Gísladóttir nokkur, pistil um íhaldssemi sumra gagnvart íslensku máli undir fyrirsögninni "Síðasta orðið".
Upplýsingar sem ég fann um bakgrunn Þórdísar eru þessar helstar:
Þórdís Gísladóttir fæddist árið 1965. Hún er með próf í íslensku frá Háskóla Íslands og licentiat-gráðu í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Hún er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld sem bæði hefur samið fyrir fullorðna og börn. Þá hefur hún einnig samið námsbækur.Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra árið 2010.
Pistillinn sem Þórdís flutti er á þessa leið:
Fjölmiðlafólk og við sem tjáum okkur stundum opinberlega fáum oft eitraðar pillur frá froðufellandi málfarslöggum. Það fer í fínustu taugar margra að reka augun í ambögur eða heyra kæruleysislega meðferð móðurmálsins. Hvernig stendur á því að tungumálið er jafn eldfimt og hættulegasta sprengiefni?
Málnotkun vekur sterkar tilfinningar. Facebooknotendur krækja á greinar og benda á ónákvæma orðanotkun og illa orðaðan vaðal, internetið er gullnáma fyrir fólk sem alltaf er með fingurinn á lofti! En hvers vegna eru sjálfskipaðar málfarslöggur svona pirraðar, hvers vegna nennir fólk að standa í því að hnýta í það sem því finnst óvandað málfar, þegar það er nokkuð ljóst að það hefur varla nokkur áhrif? Jú, fólk er skeptískt á breytingar, það vill halda hlutunum og þar með tungumálinu eins og það þekkir það og telur að heimurinn sé á leið til andskotans ef bátnum er ruggað. Og auðvitað þurfum við öll að læra allskonar reglur. Líka málfarsreglur, það er nauðsynlegt að menn setji sér viðmið um hvað sé viðurkennt tungutak. En tungumál breytast, sama hvað hver segir. Enginn á tungumálið og sem betur fer eru ekki til lög um hvernig við eigum að nota það. Mér finnst leiðréttinglaðir beturvitar oft missa af skemmtilegum og skapandi þætti þess að snúa upp á málið, sveigja reglur og semja ný orð. Kannist þið við sögnina að hámhorfa, dagaheitið millari, verðurfarslýsinguna rónablíða og nafnorðið blandinavíska? Þessi orð eru öll nýskráð í slangurorðabókina og þið fáið rokkprik ef þið kannist við þau.
Það er væntanlega þeim ljóst, sem hafa lesið það sem ég hef látið frá mér fara um íslenskt mál, að ég fell í þennan flokk Þórdísar, þar sem er að finna froðufellandi sjálfskipaðar málfarslöggur.
Ég lít á það sem heiður að fá að fylla þann flokk, í stað flokksins sem flokkar allt það sem víkur frá því málkerfi sem íslenskan byggir á, sem "eðlilega þróun tungunnar".
Ef ekki hefði verið til svokallaðar málfarslöggur gegnum sögu íslenskunnar, fullyrði ég, að hún væri ekki lengur til sem sérstakt tungumál.
Sannarlega er það rétt hjá Þórdísi að tungumál breytist hvað sem hver segir. Þjóðfélagið breytist og og tungutakið tekur auðvitað mið af því. Þannig var orðið bifreið ekki til í eina tíð, eða sími, tölva, eða sjónvarp - það segir sig sjálft.
Sem betur fer, er á öllum tímum til fólk sem býr yfir skapandi hugsun til að þróa tunguna áfram í takt við aðra þróun. Ef tungumál fengi ekki að þróast, ætti það sér ekki viðreisnar von. Með sama hætti: ef meginreglur málkerfis tungumáls riðlast, t.d. beygingakerfið, á það sér ekki heldur viðreisnar von. Í því efni er ábyrgð þeirra sem halda tungumálinu að þjóðinni, í ræðu og riti, mikil. Í þann flokk falla rithöfundar, fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn, listamenn, kennarar og bara allir þeir sem fara með málið í ræðu eða riti.
Mér finnst það afskaplega dapurlegt þegar rithöfundar eða kennarar ganga fram fyrir skjöldu og viðhafa niðurlægjandi orðfæri til að skapa neikvæða mynd sem þeim sem láta eitthvað frá sér um ambögur í málfari á opinberum vettvangi. Þannig reynir rithöfundurinn að upphefja sjálfan sig, sem ofurfrjálslyndan, þar sem það fellur víst í kramið.
Ég skil ekki ástæður þessa. Það má ræða þessi mál án þess að kalla fólk nöfnum.
Það er munur á eðlilegri þróun og hreinum ambögum. Þróun verður til vegna þess að umhverfið kallar á hana. ambögurnar verða til vegna leti, metnaðarleysis og (þó það megi varla segja það) vanþekkingar.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það sem ég segi um þessi mál breytir líklegast engu, en ég get í það minnsta haldið því fram með sjálfum mér, að ég hafi reynt. Tungumálið skiptir meira máli en ég og mínar skoðanir. Þannig er ég búinn að gera mér grein fyrir því, að í stað þess að segja "ég hlakka til" segir maður "mig hlakkar til" og að í stað þess að sem "mig langar í ís" segir maður "mér langar í ís". Það er orðinn til einhverskonar þjóðarsátt um að svona skuli þetta vera, að því er virðist.
Ég á enn eftir að sættast við fjölmargt og tek hér þrjú dæmi.
Dæmi 1:
"Þegar ég hitti fólkið, voru þau köld og hrakin".
Það er svo, að íslenska orðið fólk hefur til þessa talist vera hvorugkynsorð í eintölu. Í ensku er samsvarandi orð "people", sem er hinsvegar fleirtöluorð. Þarna erum við farin að taka upp ensku myndina. Vandinn er hinsvegar sá að ákveðni greinirinn sem við setjum á "fólk" er ennþá "-ið" - "fólkið", en ekki "fólkin". Hvenær ætlum við, rithöfundar og aðrir, að stíga skrefið til fulls, að þessu leyti?
"Ég talaði við hana vegna byggingu hússins"
Þetta er bara lítið dæmi um það að fólk er farið (eru farin?) að forðast eignarfall. Ég held nú að flestum sé það fullljóst að íslenskan gerir ráð fyrir því að "vegna" tekur með sér nafnorð eða fornafn í eignarfalli. Þar með ætti maður að segja "vegna byggingar hússins", er það ekki, annars? Ef svarið er neikvætt, hvernig förum við þá með setningar af þessu tagi?:
"Hún kom hingað aðeins vegna mig". eða "Hann hringdi vegna Guðmundi".
"Ásdís grýtti spjótinu 62 metra".
Auðvitað hefur þarna orðið rof við uppruna sagnarinnar "að grýta" sem er komið af nafnorðinu grjót. Ég trúi varla öðru en fréttamaðurinn hafi verið að gera að gamni sínu með þessu vali á sögn, en þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem samhengið við upprunann rofnar.
Sumt fólk hefur beinlínis það hlutverk að vera skapandi. Þar sem tungan er annarsvegar hvílir ábyrgðin á skapandi notkun á herðum rithöfunda, ekki síst. Það er mikil og mikilvæg ábyrgð.
Þegar rithöfundur tjáir sig með þeim hætti sem Þórdís gerði í lok Kastljósþáttarins er það, að mínu mati, varasamt. Þó ég telji (voni) að hún hafi fyrst og fremst verið að vísa til skapandi notkunar tungumálsins að því er varðar myndun nýrra og frumlegra orða, þá geri ég ráð fyrir að margur hafi talið þarna vera stiginn fram enn einn bandamann sinn í baráttunni gegn þeim sem tala fyrir vandaðri notkun tungunnar.
Ég trúi því ekki að rithöfundurinn hafi verið að tylla sér þar.
Aðrir finna sér sína hillu.
(Ég vona að það séu ekki margar ásláttarvillur, Lóa 👮)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli