Ef ég væri kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim. En þó fD sendi stundum frá sér vísbendingar um að ég þurfi, í það minnsta að fara að láta mæla í mér heyrnina, hefur ekki komið til þess enn, og þó svo votti fyrir stöðugu suði, þá heyri ég bara alveg ágætlega. Það skal enginn mótmæla því.
En væri ég kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim um tíma í gærkvöld.
Við vorum á samkomu, þar sem meirihluti gestanna var á aldrinum 16 ára til tvítugs, en síðan nokkur fjöldi árabilinu frá því um þrítugt og vel fram á áttræðisaldur. Ég tilheyri þessum síðarnefnda hópi.
Þetta var glæsileg samkoma og mikið í hana lagt, allir í sínu fínasta pússi, forréttur, aðalréttur og eftirréttur og allt það. Þegar haldnar eru vandaðar samkomur af þessu tagi er venjan að fá veislustjóra til að halda utan um dagskrána og fara með gamanmál, eins og sagt var eitt sinn,
Þarna var sem sagt veislustjóri. Kyn hans skiptir ekki máli í þessu samhengi. Hann hélt utan um dagskrána. Hann stóð sig bara nokkuð vel í þeim þætti starfs síns.
Undir rós eða ofan á
Ekki þykist ég ætla að vera sá sem veit allt um hvernig gamanmál veislustjóra eiga að vera. Veit bara hvernig ég vil hafa þau, þannig að mér sé skemmt. Gamanmálin mega gjarnan fara út á jaðar þess sem boðlegt er, þau mega gjarna varpa í hugann myndum sem fá hláturinn til að ískra í manni, þau mega fela í sér einhvern snúning sem fær mann til að skellihlæja vegna þess hve sniðug þau eru, þau mega jafnvel fela í sér orð sem alla jafna eru ekki sögð. Það sem þau eiga að fela í sér er ákveðin hugsun, eitthvað sem búið er að pæla í og setja síðan saman þannig að gaman geti verið að.
Það var þarna sem veislustjórinn kallaði fram þá tilfinningu hjá mér að það væri betra að vera með heyrnartæki, svo ég gæti bara slökkt á þeim. Í staðinn sat ég þarna, sem dæmdur, starði á dúkinn og fitlaði við borðskrautið. Ég hugsaði sem svo, að gamanmálum veislustjórans væri ekki beint að mér og minnihlutanum sem ég tilheyrði og þar með væri þetta í raun ekki mál sem kom mér mikið við. En ég var þarna og gat ekki annað, úr því sem komið var - heyrnartækjalaus.
Hingað til hef ég ekki talið mig vera neina tepru og hef verið tilbúinn í hitt og þetta án þess að fella um það dóma.
Þegar maður les skáldsögu reynir á ímyndunaraflið. Textinn birtist manni og það verða til myndir í höfðinu af persónunum, umhverfinu, samskiptunum og tímanum. Maður sér kvikmynd í höfðinu, sem rennur í rólegheitum fyrir hugsskotssjónum manns. Textinn er þarna handa lesandanum og hver og einn túlkar hann á sinn hátt.
Veislustjórinn skildi ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið, en birti áheyrendunum nákvæma sýn á allt það sem gerist á miðju mannslíkamans, hvort sem var aftan á þeim hluta líkamans, framan á eða neðan á. og það var það eina sem hann hafði fram að færa sem gamanmál - svona nokkurn veginn.
Hann hefði getað gert þetta svo miklu betur og mér er til efs að gamanmál af þessu tagi sé það sem helst höfðar til ungs fólks. Jú, sannarlega hlógu þau. En fannst þeim þetta fyndið?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli