Þau eru mörg og margvísleg, hlutverkin og krefjast mis mikils.
Fólk býður sig fram til að starfa í þágu almennings. Það býður fram krafta sína í þágu íbúa sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar allrar. Við slíkar aðstæður, ekki síst eftir það sem gerðist haustið 2008, spyrjum við hvað þar liggur að baki. Við viljum að það fólk sem býður fram krafta sína geri okkur grein fyrir bakgrunni sínum og forsendunum að baki framboðsins. Sum okkar eru búin að læra að þær bakgrunnsupplýsingar sem við erum mötuð með og forsendurnar fyrir því að einstaklingar bjóða sig fram til almannaþjónustu, kunna að vera aðrar en þær sem upp eru gefnar. Við komumst að því þegar samfélagið riðaði til falls, að það er oft harla lítið að marka það sem gerist á yfirborðinu. Við áttuðum okkur á því að það var annað í gangi en okkur var sagt.
Þar með fauk traustið. En það leið ekki á löngu áður en upp reis fólk með ásjónur engla og kvaðst hafa allar lausninrnar fyrir íslenska þjóð og stór hluti þjóðarinnar þjáðu gleypti við boðskapnum.
Það er byrjað að falla á engilsásjónurnar. Sumum finnst að merki um að þær séu að umbreytast í guðlegar ásjónur, öðrum finnst að smám saman, undir ódýrum leikhúsfarðanum sé að koma í ljós, smátt og smátt andlit spillingar, undirferli og dulins tilgangs.
"Skortur á gegnsæi leiðir til vantrausts og djúpstæðs öryggisleysis". |
Sannleikur, réttsýni, hugsjónir, mannúð, jafnrétti, virðing. Allt eru þetta hugtök sem eiga að vera þrungin merkingu, en eru léttvæg fundin þar sem þau leka eða renna, jafnvel frussast út úr munnum stjórnmálamanna meðan ljósið skín á þá og myndavélarnar eru í gangi.
Hvað gerist þegar ljósin slokkna eða þegar myndvélunum er beint annað?
Við þessar aðstæður myndast kjöraðstæður fyrir samsæriskenningar og ekki ætla ég mér að feta þá braut, þó margt komi upp í hugann. Eitt veit ég þó fyrir víst: þar sem ljósið ekki skín og þar sem myndvélarnar og hljóðnemarnir ná ekki til, þar heldur líf stjórnmálamanna eða annarra sem gegna háum embættum í opinberum stofnunum eða stórum fyrirtækjum sem þjóna almenningi, áfram. Hvað er þetta fólk að gera þá? Varla er það bara að kúra. Ekki leggst það í hýði.
Þetta er birtingarmynd vantraustsins í mínum huga.
Þessi stubbur er skrifaður undir áhrifum frá talsverðri reynslu af því að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi, kosningabaráttu forsetaframbjóðenda í landi hinna frjálsu og sjónvarpsþættinum "Spilaborg", sem RUV sýnir þessar vikurnar, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli