14 mars, 2016

Mánudagsflug

Mánudagar eru, að margra mati, erfiðastir daga vikunnar. Helginni lokið og framundan 5 vinnudagar. Með árunum hafa viðhorf mín til þessara daga vikunnar breyst smám saman þannig, að ég tel þá hvorki vera betri né verri en aðra daga. Ég hef öðlast heimspekilegra og yfivegaðra viðhorf til þeirra, sem annarra daga. Maður vaknar fyrir allar aldir, talsvert á undan pípinu í vekjaraklukkunni, situr og hugleiðir í núvitundarstíl um stund, athugar hvort eitthvað hafi borið til tíðinda í veröldinni, fær sér kaffisopa og aðra morgunhressingu. Kemur sér síðan af stað þannig að tilsettum tíma á vinnustaðnum verði náð.  
Einfalt og alltaf svipað. 
Allt í föstum skorðum.
Engin óvænt atvik sem raska því sem venja er til. 


Svona var það ekki í morgun.

Þetta byrjaði svosem nógu vel: vaknaður klukkutíma áður en vekjarinn næði að angra mig. Sinnti hefðbundnum morgunverkum. Lokaði útidyrum, Settist upp í Qashqai og ók af stað niður svellbunkann á heimreiðinni. Ekki gaf ég mér tíma, þar sem ég var að vanda mig við aksturinn á svellbunkanum, til að athuga hvort allt væri með felldu. Það var ekki fyrr en ég hafð ekið nokkur hundruð metra á alauðum aðalveginum, að mér varð litið á mælaborðið og varð ljóst að þar var ekki allt eins og vera skyldi. Rauð mynd af bílvél blasti við, einnig gult tákn sem sýndi skrensandi bíl og fleira sem þarna var ekki venjulega.  Að sjálfsögðu setti ég umsvifalaust spurningamerki við þetta allt saman; reiknaði með að þarna hlyti bara að vera um að ræða einhvern samslátt í tölvunni, en ákvað samt að snúa við. Það var engin ástæða til að taka neina áhættu. Það var annar bíll tilbúinn heima í hlaði.  Þar með snéri ég við og ók hem aftur, upp svellbunkann, og lagði Qashqai í hreiðrið sitt.  Á þessari stundu beindist hugsun mín og einbeiting fyrst og fremst að því sem gæti verið að Qashqai, hvernig best væri að leita lausna á því og hversu mikil fyrirhöfn það gæti verið.  Mitt í þessum hugsunum opnaði ég dyrnar og steig út.
Það var vinstri fóturinn sem kyssti klakabunkann fyrir utan og í þann mund sem hann var að taka til sín allan minn þunga, gerðist það sem auðvitað átti aldrei að gerast og sem skýringamyndin hér fyrir neðan lýsir nokkuð vel.

Ég vissi ekki fyrr til, í miðju hugsanaferlinu varðandi það hvað ég gæti gert í Qashqaimálum, en að ég tókst á loft og lá síðan kylliflatur á bakinu. Fyrsta hugsunin var hvort ég væri óbrotinn, og svarið við henni var strax jákvætt. Þarna þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af þvi hvort einhver hefði séð þessa óvirðulegu lendingu. Ég vissi að fD sat inni og kynnti sér fréttir morgunsins og gat því ekki hafa verið vitni.
Ég reis á fætur, fann svo sem ekki fyrir neinu sérstöku, og kom mér inn til að óska eftir láni á og síðan nálgast lykla að Yaris, sem beið þarna þess albúinn að flytja mig til vinnu, með góðfúslegu leyfi eigandans.

Hófst þar með önnur tilraun mín til að komast til vinnu á þessum mánudagsmorgni. Það voru engin óþægileg ljós í mælaborðinu á Yaris og ferðin niður svellbunkann gekk vel, enda vel negld dekk.

Þegar ég var búinn að aka nokkur hundruð metra fannst mér eitthvað vera undarlegt og renndi í huganum gegnum tékklistann. Niðurstðan leiddi mig að þeirri niðurstöðu að ég var ekki með gleraugun. Í kjölfarið lá beint við að álykta að án gleraugnanna væri til lítils að fara í vinnuna.
Þar með snéri ég við, án frekari málalenginga.
Á leiðinni til baka renndi ég í gegnum ýmsar hugsanir, sem flestar tengdust mögulegum afdrifum gleraugnanna. Mér þótti ljóst, að þau hefði ég misst þar sem ég lenti á bakinu á svellbunkanum. Mér fannst samt ótrúlegt að ég skyldi ekki hafa orðið var við þegar þau yfirgáfu andlit mitt. Hvar hefðu þau þá endað? Var ég kannski búinn að stíga á þau? Höfðu þau ef til vill flogið undir Yarisinn ég ég síðan keyrt yfir þau í annarri tilraun minni til að komast í vinnuna?

Heim komst ég aftur, upp svellbunkann, þrátt fyrir gleraugnaleysið. Lagði Yaris í nokkurri fjarlægð frá slysstaðnum og var næstum floginn á hausinn aftur þar sem ég steig út úr honum. Ég grandskoðaði vettvang slyssins, gleraugnalaus, en sá engin gleraugu þrátt fyrir umtalsverða leit. Fór síðan bara inn í hús, eftir að hafa ákveðið að bíða betri birtu til leitarinnar.

"Hver skyldi það nú vera sem vill ekki kaupa sér mannbrodda?"  Það var fD sem tók á  móti mér með rödd sem var þrungin vorkunnsemi.
"Ætli ég þurfi ekki að koma mér í garma og fara út að leita" hélt hún áfram. Treysti greinilega ekki sjón minni til þess arna. Kom sér í garma, setti upp Hagkaupagleraugun, dreif sig út og endaði á maganum á svellbunkanum hjá Qashqai.
"Þarna eru þau". Og viti menn undir miðjum bílnum mátti greina gleraugun og fD renndi sér á maganum nægilega langt til að hún næði þeim, ósködduðum.

Þar með hélt ég af stað í vinnuna þriðja sinni þennan mánudagsmorgun orðinn miklu nær því að trúa að forsjónina, sem líklega hafði valdið óhöppum morgunsins til að koma í veg fyrir að ég færi mér að voða einhversstaðar á leiðinni.

Afleiðingarnar? Jú, það er engu líkara en það sem rifjahylkið geymir hafi tognað eða gengið til. Ég var auðvitað óþreytandi í lýsingum mínum á ævintýrum morgunsins, á vinnustaðnum. Viðbrögðin þar voru misjöfn. Þau bestu sennilega þessi: "En er hjartað ekki enn á réttum stað?"

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...