12 mars, 2016

Bönnum það bara

Í sannleika sagt veit ég ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við fregnum af því, að einhver, að öllum líkindum fulltrúi sveitarstjórnar Blaskógabyggðar, eftir að ákvörðun hafði verið tekin þar, er búinn að koma fyrir skilti í brennustæði við Brennuhól, þar sem Laugarásbúar hafa í fjölmörg ár hist á gamlárskvöld, til að njóta ylsins frá veglegum bálkestinum sem safnað hafði verið í allt árið. Þarna hafa Laugarásbúar einnig fengið að njóta skottertu í boði björgunarsveitarinnar og flugeldasýningarinnar í Reykholti í fjarskanum.

Það sem mér finnst mæla með því að banna losun við Brennuhól er aðallega sú misnotkun á staðnum sem erfitt hefur verið að sporna við.
Það er til fólk sem lifir fyrir sig í núinu. Þetta fólk skortir sýn á að verk þess kunna að hafa áhrif á líf/lífsgæði annarra, eða lætur sig það bara engu skipta. Það hefur brenglaða siðferðiskennd og ætti bara að skammast sín. Þetta er fólkið sem fór með ruslið sitt í brennustæðið við Brennuhól; gömul sófasett, eða eldhúsinnréttingar og jafnvel bara úrgang.
Mig grunar að þessi staða sé uppi nú vegna þessa fólks.

Ég tel hinsvegar, að það hefði átt að láta reyna á aðrar leiðir áður en gripið var til þess ráðs að setja þarna upp skilti sem bannar losun af af hvaða tagi sem er,  t.d. sakleysislegt skiltið sem búið var að koma þarna fyrir og sem flutti þessi skilaboð: Hér má einungis henda timbri, engu öðru, annars missum við brennuleyfið.

Það sem nú blasir við, ef við Laugarásbúar, svo hlýðnir og lítillátir sem við erum nú, þurfum að flytja allt timbur sem fellur til hjá okkur, aðallega vegna grisjunar, upp í Reykholt, en það er 12 km. spotti. Þar með þurfum við að eiga bíl með dráttarkúlu og viðeigandi kerru. Síðan þurfum við að fá eins og einn gám af timbri sendan úr Reykholti þegar áramót nálgast, ef við stöndum þá bara nokkuð í þessari áramótavitleysu á annað borð.

Það sem er kannski erfiðast að kyngja í þessu máli er samráðsleysið. Við vitum ekki einusinni hver setti þetta skilti þarna upp þó svo leiða megi líkur að því.

Það er líklega kominn tími til að við stofnum þorpsráð og kjósum okkur þorpshöfðingja til að sinna samskiptum við utanaðkomandi vald.  Ég er viss um að í skóginum leynist fólk sem er tilbúið að tala máli okkar út á við.


Til að fyrirbyggja misskilning, þá var það SA-hvassviðri á þessum degi, sem getur orðið vart við Brennuhól (þó ekki verði þess vart í þorpinu sjálfu), sem felldi bannskiltið. Ég viðurkenni hinsvegar, að ég reisti það ekki upp.

2 ummæli:



  1. Góður pistill að vanda, Palli.

    SvaraEyða
  2. takk fyrir að tala um þetta stið það algerlega að það þarf íbúasamtök hér í Laugarási
    kv Sigrún

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...