Í Njáluferð í 1. bekk. Þarna fylgist ég með, auðvitað
áhugasamur, fróðleik úr munni dr. Haralds Matthíassonar.
Hvítu prjónahúfuna og lopapeysuna á ég móður minni
að þakka.
|
Fyrir nokkrum árum skaut því óvænt upp í huga mér, að það gæti verið gaman að taka saman upplýsingar um húsin og íbúana í Laugarási. Þarna var varla um meira en 70 ára sögu að ræða svo það ætti nú að vera hægt að ná utan um það.
Söfnun á þessum upplýsingum hefur staðið yfir síðan, svona í hjáverkum og mörgu er þar ólokið.
Önnur saga hefur orðið mér hugleikin með árunum, en hún tengist vinnustað mínum til næstum 30 ára. Þar hafa lengi verið til gamlar ljósmyndir af ýmsu tagi og einnig fullur kassi af skyggnum (slædsmyndum /"slides" - en aðeins þeir sem eru orðnir fullorðnir vita hvað það er).
Njáluferð 1971: Kristinn Kristmundsson sinnir fróðleiksþorsta
tveggja bekkjarfélaga minna, Eiríks Jónssonar frá Vorsabæ
og Magnúsar Guðnasonar.
|
Skólinn og júbílantar hafa lagt fram fé til tækjakaupa vegna þessa og ég hef, þegar eyður myndast í daglegu amstri, lokað mig af í þar til ætluðu herbergi og skannað eða myndað myndirnar sem um er að ræða. Þetta hefur gengið ágætlega og nú eru komnar um 800 myndir, flokkaðar og fínar að sérstakt vefsæði sem stofnað var til af þessu tilefni. Heilmikið bíður skönnunar og þá aðallega myndir sem Rannveig Pálsdóttir/Bubba tók stóran hluta þess tíma sem þau Kristinn Kristmundsson gistu Laugarvatn.
Njáluferð 1971: Þarna má sjá, auk vormanna Íslands, dr. Harald og Björn Inga Finsen, enskukennara. |
Áhugi minn á þessari myndvinnslu efldist til muna þegar ég fann nokkrar myndir frá mínum árum í ML frá 1970-74. Megi þær verða fleiri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli