25 desember, 2016

Sópraninum krossbrá

Messur eru nú yfirleitt þess eðlis að fátt kemur á óvart. Það stefndi í eina slíka á þessum degi í Skálholti, nema ef til vill að því leyti, að nokkrum mínútum fyrir upphaf messunnar lá fyrir hvað sálmar eða verk yrðu sungin, en þannig er það bara.
Svo hófst messan, reyndar ekki alveg eins og til stóð, en kór og kirkjugestir fengu fyrirmæli um að ganga í kringum jötu sem komið hefur verið fyrir í kirkjunni í tilefni jólanna og syngja á meðan öll fjögur erindi sálmsins "Nóttin var sú ágæt ein". Látum vera, þetta var, eins og maður segir öðruvísi, þó fD hafi haft um það orð eftir á.
Að þessu búnu hófst síðan messan samkvæmt því ritúali sem finna má í bók séra Bjarna sem kallast "Messa á jólum". Allt eins og við var búist.
Þá kom að prédikun.
Prédikanir eru þannig í Skálholti, að kórinn heyrir allajafna vart orðaskil fyrir glymjanda og það var ekkert óvenjulegt við það. Í stað þess að lyftast í andanum undir kraftmikilli prédikun var sett í hvíldargírinn þar til kæmi að sálmi eftir prédikun.
Þetta fór nú talsvert á annan veg þessu sinni; byrjaði allt svo sem venja er til, en skyndilega, þegar nokkuð var á liðið prédikunina "blöstuðu" tenórarnir þrír vísunni "Fjármenn hrepptu fögnuð þann"  af slíkum krafti, að hárið á saklausum sópraninum bærðist, en hvort það var vegna kraftsins í ténórunum, eða skelfingarefans sem heltók þær, skal ekki fullyrt. Það hefði verið gaman að sitja í kirkjunni sem gestur og sjá hvernig andlitsdrættir þeirra endurspegluðu líðanina.
Til útskýringar á þessari mikilfenglegu innkomu tenórsins í miðja prédikum, skal geta þess, að tveim mínútum fyrir messubyrjun kom presturinn að máli við einn tenórinn og fól honum og hans mönnum að bresta í söng  á tilteknum stað í prédikuninni, svo sem lýst er hér að ofan. Sá sem tók við fyrirmælum prestsins leiddi síðan félaga sína tvo í allan sannleik um hvað til stæði, í þann mund er messa hófst með kraftmiklu orglespili.
Sópranarnir flettu í huganum í gegnum gögn um framgang messunnar og fundu innkomunni í prédikunina engan stað. Þegar tenórarnir stukku síðan aftur inn á tilteknum stað með annað erindi úr sama sálmi, varð ljóst að allur ketill sóprananna hafði fallið í eld og það mátti greina vantrúar- og uppgjafar fas í titrandi hárinu, sem var þeð eina sem tenórarnir, heldur sperrtir í glæsileik sínum, gátu nýtt til að meta innibyrgð viðbrögðin í sætaröðinni fyrir framan.

Það var síðan þegar síðustu tónar orgelsins hljóðnuðu í lok messunnar, sem flóðgáttir brustu. Allt sem sópranana hafði langað að segja var þá sagt og meira að segja á kjarnyrtri íslensku. Sumir héldu áfram að tjá sig um það sem gerst hafði, langleiðina heim.

Hver var svo að tala um að messur væru fyrirsjáanlegar?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...