25 desember, 2016

Jólajákvæðni

Stundum eiga sér stað átök hið innra. Það er svona eins og með klassísku myndina af púkanum með þríforkinn á annarri öxlinni og englinum með geislabauginn á hinni. Maður stendur frammi fyrir einhverju sem hægt er að bregðast við með tvennum hætti: annaðhvort að "standa í lappirnar" og berjast gegn meintu óréttlæti eða broti gegn þér og hagsmunum þínum, eða sýna skilning, sjá aðrar hliðar á málinu, neita að trúa því að eitthvað annað búi undir en virðist vera við fyrstu sýn.

Þarna kristallast baráttan milli engilsins og púkans, sem báðir búa innra með þér og valda því að þú er oftast í ákveðnum vafa þegar kemur að því að bregðast við ytra áreiti.  Það er, sem betur fer svo, að oftar en ekki er það engillinn ber sigur úr býtum, í það minnsta út á við. Maður hneigist til að trúa því, á endanum, að það sé ekki verið að brjóta á þér með neinum hætti. Maður kemst að þeirri niðurstöðu að það séu málefnalegar ástæður fyrir því sem kann að líta fremur illa út við fyrstu sýn.

Ekki neita ég því að púkarnir hafa háð dálitla baráttu á öxlum mínum undanfarnar vikur og sjálfsagt fleirum í umhverfi mínu. Það er dálítið kaldhæðnislegt í kringum hátíð ljóssins, að barátta þeirra er til kominn vegna ljóss sem kom og kom ekki, réttinn til ljóssins eða ekki. Kannski hefur þetta snúist um baráttuna milli þess sem samfélagið ætti að gera fyrir þig eða þú fyrir samfélagið, vegið á móti því sem samfélaginu er ætlað að öðru leyti. Mögulega gæti þetta snúist um kröfur til samfélagsins sem eru eðlilegar eða óeðlilegar.

Ég átta mig á því, að það sem er búið að brjótast í mér og fleirum að undanförnu eru siðferðisleg álitamál framar öðru eins og reyndar afar mörg mál um alllanga hríð, sem smám saman hafa gert það erfiðara að taka afstöðu með englinum. Það er þessi eilífa spurning um réttlæti og ranglæti, sem hægt er að teygja og toga þangað til að þessu háleitu hugtök verða að merkingarlausum klisjum.

Með engilinn sigri hrósandi á annarri öxlinni og sigraðan púkann á hinni held ég áfram göngunni í gegnum það sem er og verður, héðan í frá sem hingað til.
Þó engillinn hafi sigrað þessu sinni, veit maður aldrei hvað gerist næst.

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - fyrir PS

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - eftir PS



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...