Þetta er reyndar ekki ég, heldur bara einhver kennari í eldri kantnum. |
Ég byrjaði í þessum bransa haustið 1979, eftir að hafa lokið tilskildu námi í sérgrein minni í háskóla, auk þess að leggja stund á uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda.
Allt í lagi með það.
Ég var tiltölulega ákveðinn í því að kennari skyldi ég verða. Í 30 ár gekk það síðan svo, að á nánast hverjum virkum degi hvern vetur þurfti ég að vera klár í slaginn, hvernig sem á stóð. Klár í slaginn þýddi auðvitað að ég þurfti að vera undirbúinn fyrir það sem dagurinn myndi bera í skauti sér. Ég þurfti að reyna að vera búinn að sjá fyrir hvernig mismunandi hópar brygðust við því ég bar á borð fyrir þá. Ég hafði lært kennslufræði, sem gerði ráð fyrir því að nemendur væru alltaf tilbúnir að ganga í takt við það skipulag sem ég setti upp.
Það komu tímar þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að kennsla væri ekki starf við mitt hæfi, velti því fyrir mér hvern andsk. ég væri búinn að koma mér út í. Það komu tímar sem ég naut starfsins og fannst ég vera að gera gagn.
Ég hóf þennan kennsluferil minn fyrstu sex árin í grunnskóla. Undir lok þess tíma var ég orðinn talsvert þreyttur á því hve stór hluti tíma míns fór í að sinna öðru í kennslustundum en starfinu sem ég var ráðinn til að sinna. Agastjórnun hefur aldrei verið meðal uppáhaldsverkefna minna og því greip ég tækifærið þegar það baust og flutti mig yfir á framhaldsskólastigið. Það gerði ég haustið 1986.
Veturinn sá leið eins og í þoku og ég veit raunar ekki enn hvernig mér tókst að halda andlitinu í stórum dráttum. Þennan fyrsta vetur kenndi ég 37 tíma á viku, efni sem ég hafði aldrei kennt áður. Daganir liðu þannig að eftir að hafa kennt átta til níu tíma, þurfti ég að taka til við að undirbúa næsta dag, útbúa verkefni og fara yfir verkefni. Á þessum tíma var skóli annan hvern laugardag og það má segja að ég hafi verið í fríi annan hvern laugardag. Aðrir dagar voru vinnudagar.
Því get ég ekki neitað að þennan vetur komu þeir tímar að mig langaði að leggja upp laupana.
Ég gerði það ekki og næsti vetur var heldur viðráðanlegri þar sem undirbúningurinn frá þeim fyrsta nýttist, kennslustundafjöldinn breyttist ekki. Síðan varð þetta smám saman auðveldara og viðráðanlegra og það hlýtur að hafa gengið sæmilega úr því ég hélt mig við þetta starf í 30 ár, en árið 2010 hætti ég að kenna og hef meira og minna setið við tölvur síðan.
Ég held að í augum nemenda hafi ég að stærstum hluta talist þolanlegur, sumir veit ég, voru bara nokkuð ánægðir við mig, en aðrir áttu erfitt með að láta sér lynda við mig. Mér sjálfum fannst ég mistækur, það komu tímar sem mér fannst ég vera fæddur í þetta starf og síðan aðrir tímar þar sem ég nánast ákvað að hætta eftir veturinn.
Það sem ég tel vera jákvæðast við kennslustarfið er samskipti við ungt fólk á hverju einasta ári. Mér fannst ég aldrei fá tækifæri til að eldast, var alltaf í einhverskonar sambandi við það nýjasta á hverjum tíma, eins viturlegt að það var nú oft. Ég fann það fljótt eftir að ég hætti kennslunni og fór að fylgjast meira með svona utanfrá, að ég missti taktinn við unglingana og fór frekar að beina sjónum annað.
Það versta við kennarastarfið voru stærstan hluta starfsferilsins, hörmulega léleg laun. Þó þau hafi skánað talsvert held ég að ef á að takast að særa metnaðarfullt fólk inn í kennarastéttina, þurfi launakjör að batna enn frekar. Ef fólk leggur í 5 ára háskólanám þá þarf eitthvað að bíða sem er þess virði. Hugsjón er ágæt í sjálfu sér, en hún verður ekki sett á matarborðið.
Ég ímynda mér síðan aðra ástæðu fyrir lítilli aðsókn í kennaranám, en hún snýr að agaleysi í samfélaginu og bjargaleysi kennara til að takast á við það.
Svo er auðvitað þessi eilífi sannleikur, að annaðhvort er fólk kennarar í eðli sínu eða ekki. Ég hef unnið með sprenglærðum kennurum sem hafa ekki ráðið við starfið og réttindalausum kennurum sem hafa fallið við það eins og flís við rass - og allt þar á milli. Það er ekki lengd námsins sem ákvarðar hæfni kennarans heldur eðliseiginleikar hans.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli