Klemman snýst einfaldlega um það, hvort ég á að vera að láta fjölmargar og sívaxandi ambögur sem daglega birtast í ræðu og riti, fara í taugarnar á mér. Rökleg lausn er auðvitað sú að láta bara eins og ekkert sé, ekki síst vegna þess, að ekki ber ég ábyrgð á þessu. Það að auki veit ég það fullvel að málfarsfjas mitt á þessum vettvangi breytir engu til eða frá. Fjasið í mér skiptir líklegast engan neinu máli, nema mögulega sjálfan mig.
Ofan á þetta bætist síðan, að það mun vera eitthvað að hjá fólki sem finnur hjá sér þörf fyrir að setja út á málfar. Það hafa ónefndar rannsóknir sýnt svo ekki verður um villst, að sögn. Þetta er þekkt aðferð við að þagga niður í fólki, að gera lítið úr því.
Ég fæ ekki staðist það að hnýta í nýupptekinn og rétthugsaðan stíl hjá RUV, að tala nota alltaf þau þar sem venjan var að tala um þá, eða það. Það komust nefnilega einhverjir að því að þessi karlkynsmynd ætti upptök sín í feðraveldinu svokallaða.
Látum það vera. Ekki nenni ég að fara að fjasa um einhverjar kynjaðar feðraveldisstaðalmyndir.
Málfarsrétthugsun RUV
Vandinn hjá RUV felst í því að þar á bæ hefur fólki ekki tekist að halda þessu fornafni stöðugu í fréttaflutningi sínum, enda er þarna um eitthvað alveg nýtt að ræða sem laga verður sig að. Það kemur ekki síst til af því, að þau nafnorð sem notuð eru um fólk (af báðum kynjum), eru af ýmsum kynjum og tölum:
Manneskja er kvenkynsorð og þar með skal nota HÚN eða ÞÆR þegar vísað er til þeirra. (örugglega mæðraveldislegur uppruni í þessu orði).
Fólk er hvorugkynsorð og er bara til í eintölu, þó það vísi bara til fleirtölu og þar með skal nota ÞAÐ þegar vísað er til þess.
Einstaklingur (hjálpi okkur allir heilagir, ef við föllum í þá gryfju að nota þetta orð) er karlkynsorð og þar með skal nota HANN eða ÞEIR þegar vísað er til þeirra.
Barn er hvorugkynsorð og þegar vísað er til slíkra eintaka af menneskju er notað ÞAÐ eða ÞAU.
Nú er mér spurn:
Hvaða nafnorð er það í íslensku, til í eintölu og fleirtölu, sem hægt er að vísa til bæði með ÞAÐ og ÞAU?
Auðvitað detta mér nokkur í hug:
Hús, ríki, lamb, tröll, eintak ..... fullt af hvorugkynsnafnorðum sem til eru í eintölu og fleirtölu.
Hvaða orð er hægt að nota í íslensku um fólk eða manneskjur eða einstaklinga af báðum kynjum, sem hægt er að nota bæði í eintölu og fleirtölu? Jú, orðið KYN, auðvitað.
Ég finn slatta þar fyrir utan, en ekkert sem er hlutlaust og hægt að nota um bæði kyn í senn. Ég viðurkenni að ég er að vísu ekki búinn að leita lengi.
Í þessu kristallast rétthugsunartilburðirnir hjá RUV.
Það eru alltaf einhverjir (einstaklingar) að lenda í einhverju og rata fyrir þær sakir í fréttir. Hvernig skal tekið á því, svo ekki þurfi að nota karlkynsfornafnið hann?
Niðurstaða RUV er að þvælast bara einhvernveginn í gegnum þetta, enda virðist það ekki skipta neinu máli, svo fremi að karlkynsfornöfn komi ekki við sögu (nema búið sé að ganga úr skugga um að viðkomandi hafi allir verið karlkyns og tryggt að á meðal umræddra sé ekki að finna neitt hán).
Eðlileg niðurstaða, þegar um er að ræða hóp fólks/einstaklinga/manneskja, er að nota orð sem er í hvorugkyni. Þar með sitja menn (vá, hvað ég er vogaður!) uppi með hvorugkynsorðið FÓLK. Afskaplega gott orð bara, sem þó er gallað að því leyti, að það er ekki til í fleirtölu og þar með er ekki hægt að nota um það fornafn í fleirtölu. Svo einfalt er nú það.
Málfarsspekúlantar RUV hafa kosið að umgangast orðið fólk eins og það sé til í fleirtölu og segja sem svo í fréttum eða umfjöllun þar sem um er að ræða einhverja (já, ég sagði það) sem ekki hafa verið kyngreindir:
Fjöldi fólks lét lífið, þau voru af báðum kynjum.
Þar með er RUV búið að ákveða að nafnorðið FÓLK sé til í fleirtölu, þó ekki sé það svo. Þar með hefur rétthugsunin borið tungumálið ofurliði, enda tungumálið væntalega til orðið á forsendum feðraveldisins, ef að líkum lætur. Ég bíð þess í ofvæni að framundan sé tíminn þegar þetta falleg orð fólk, fer að birtast í æ ríkari mæli: Fólkin sem létust hétu..... Það var haft eftir fólkunum að....
------------------------
Fyrirsögnin á tilvísun í fréttir á Stöð tvö í gærkvöld þar sem fjallað var um skýli fyrir unga, heimilislausa karlmenn í fíknivanda/fíkla. Orðrétt sagði fréttaeintakið:
"Vonir standa til um að það verði hægt að taka þetta nýja skýli í notkun......". Ég spurði sjálfan mig (og fD), til hvers UMMIÐ væri. Við því fengust engin svör.
Hvaða fornafn notar maður með orðinu fíkill?
Jú, mikið rétt: HANN og ÞEIR í fleirtölu. Má það?
Lof sé þér sem komst í gegnum þetta og skildir inntakið.
Þetta er í tilefni af degi íslenskrar tungu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli