28 október, 2018

H * A * M * A * M

Ég hef það fyrir sið, þegar ég fer utan (ég, fer, sem sagt UTAN, stundum, en aldrei ERLENDIS) að kíkja út fyrir þægindarammann, gera eitthvað það sem ég myndi aldrei taka mér fyrir hendur hérlendis. Glöggt dæmi um þessa áráttu mína birtist hér, hér  og hér, en þar greinir frá því þegar ég skellti mér á og síðan af bananabát. Þar greindi ég meðal annars frá því að ég æli þann draum í brjósti, að fljúga einhvern daginn í fallhlíf. 
Í nýjustu utanferðinni mátti sjá fallhlífar af þessu tagi fljúga yfir sjónum undan ströndinni og ég rifjaði auðvitað upp drauminn sem ég ber í brjósti, við undirtektir sem óþarfi er að hafa orð um. Eitthvað þurfti hinsvegar að gera til að búa til eftirminnilega reynslu og ekki værri verra að hún tengdist siðum heimamanna, sem í þessu tilviki voru Tyrkir.  Þessu velti ég nokkuð fyrir mér, en svo gerðist það, að fjölskylduhópurinn sem ég tilheyrði í þessari ferð, lenti í klónum að slyngum sölumanni, sem bar fram tilboð sem ómögulegt reyndist að hafna. Hann, eins og nærri má geta, kynnti fyrir okkur einstakt tilboð á HAMAM og ekki bara því, heldur einnig slökun og nuddi, í einum pakka á verði sem enginn hefði getað staðist.

Mynd af vef Doganay hótelsins.

Ef einhver veit svo lítið að hann hefur aldrei heyrt minnst á HAMAM þá skal það útskýrt hér:
Hér er um það að ræða sem einnig kallast "tyrkneskt bað", sem hefur það að meginmarkmiði að fjarlægja ysta lag húðarinnar með sérstakri aðferð. Aðfarirnar eru í grunninn þær sömu en einstakir þættir geta verið með mismunandi hætti eftir baðstofum.

Það sem gerðist
Við vorum fjögur sem fórum í einu holli. Var gert að mæta á tilteknum tíma, afklæðast (þó ekki svo að ósiðsamlegt teldist). Að því búnu var okkur ætlað að dvelja um stund í saltsána, sem var herbergi fullt af salti sem átti að gera okkur eitthvað sem ég skildi aldrei fyllilega, sennilega að leysa eitthvað um húðna sem fjarlægja skyldi. Í þetta saltsána fengum við, skýringarlaust, aldrei að fara, Því var það að aðgerðin byrjaði á að við vorum leidd inn í venjulegt sána, svona eins og Finnar fara í.  Þar dvöldum við í dágóðum hita í einar 10 mínútur, áður en við vorum leidd inn í sjálfan HAMAM salinn. Þar vorum við látin setjast á kassann sem sjá má á myndinni, eitt á hvern kant. Það var karl sem tók við mér, en konur sáu um hin.
Svo tók meðferðin við.
Fyrst var ég látinn leggjast á magann (er ekki enn kominn á það stig að vega salt í slíkri stöðu). Náunginn hellti því næst yfir mig  talsvert mörgum skálum af ca 40°C heitu vatni og í framhaldinu hóf hann að skrúbba og skrúbba og til þess notaði hann einhverskonar þvottapoka sem var eins og sandpappír. Hann skrúbbaði og skrúbbaði. Það var hreint ekki óþægilegt, en samt fylgdi því svosem enginn unaður. Þegar bakhlutinn hafði verið afgreiddur tók framhliðin við og fékk sömu meðferð.

Mynd af vef Doganay hótelsins. Þarna er ekki hópurinn sem ég var hluti af.

Að báðum hliðum afgreiddum var ég aftur skolaður með volgu vatni. Eftir það fór gaurinn eitthvað að bjástra, sem ég síðan uppgötvaði að fólst í framleiðslu á froðu. Henni steypti hann síðan yfir mig og lét liggja á mér, bæði að aftan og framan, meðan sápukúlurnar sprungu við húðina og fjarlægðu (væntanlega) húðarleifar sem eftir kunnu að vera. Þessi froðumeðferð var bara all þægileg.

Slökuninn og gríman
Aðgerðinni lauk svo með skolun úr volgu vatni, við þurrkuð hátt og lágt og síðan leidd inn í slökunarherbegi þar sem okkur var fært indælis te, sem hefði svosem getað innihaldið hvað sem var, en var harla gott á bragðið. Þarna reyndi ég að ná slökun, sem reyndist þrautin þyngri, þar sem heilmikill umgangur var þarna allt í kring, fólk að spjalla saman og börn að skrækja, en hvað um það.
Það næsta sem gerðist var, að að mér kom kona og tilkynnti mér að hún ætlaði að bera á andlitið á mér, en eitthvað slíkt hafði farið framhjá mér þegar innihald "pakkans" var kynnt. Ég maldaði auðvitað ekki í móinn, liggjandi á slökkunarbekknum, nýbúinn að klára teið góða.  Svo fann ég bara þegar hún bar eitthvað sandblandað á andlitið á mér með pensli. Það sama gerði hún síðan við hin í hópnum. Svo hélt "slökunin" áfram um stund, en þá var komið að næsta fasa, en áður var okkur sagt að skola okkur í framan. Þegar að því kom sá ég í spegli að andlitið á mér var hulið grænleitri grímu og brá nokkuð við, en lét auðvitað á engu bera og skolaði hana af eins og ekkert væri eðlilegra.

Nuddið
Þarna var komið að síðasta þættinum í meðferðinni: nuddinu. Karlinn sem tók á mér kunni greinlega til verka og til marks um það klifraði hann upp á nuddbekkinn til að ná kröftugra nuddi á bakið. Afar þægilegt og vísast hollt og gott og allt það.
Þarna taldi ég öllu vera lokið, en það var hreint ekki svo.

Samantektin og framhaldið
Okkur fjórum var safnað saman inni í litlu herbergi þar sem stjórnandi baðsins sat. Þangað komu síðan nuddararnir okkar hver á fætur öðrum og lýstu því, á tyrknesku, hvað þeir höfðu fundið að líkömum okkar og hverju þeir mæltu með í framhaldsmeðferðinni. Baðstjórinn fór síðan yfir  þessar skýrslur á ensku og sannarlega reyndumst við hvert og eitt burðast með erfiða bagga sem nauðsynlegt væri að nudda úr okkur. Ekki fer ég nánar út í það, en frá baðstjóranum fórum við öll með ómótstæðileg tilboð um meðferðir sem myndu bæta líf okkar og líðan. Við kváðumst ætla að hugsa málið og hugsanlega panta tíma.
Við erum enn að hugsa.

Þetta var bara hreint ágætt, þetta HAMAM. Um langtíma meinabót treysti ég mér ekki til að fjalla, en þetta var ágætt meðan á því stóð og eitthvað áfram.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...