27 mars, 2018

Þá er það frá (3)

...framhald þessa og þessa.

Sundið að stiganum gekk svo sem ágætlega að mér fannst og ekkert sem ég sá fyrir sem fyrirstöðu þess að ég gæti gengið um borð bara nokkuð hnarreistur. Að auki var hafflöturinn undir skut tvíbytnunnar í hvarfi frá öllum mögulegum áhorfendum, nema auðvitað sjókattarstjóranum og bananabátsfarþegunum þrem.
Ég náði til stigans, ætlaði að svifta mér upp úr, en uppgötvaði þá að ég hefði átt að skella mér í ræktina í vetur og styrkja upphandleggsvöðvana og jafnvel minnka  einnig lítillega þá þyngd sem vöðvunum var þarna ætlað að koma úr sjó.
Ég gat með öðrum orðum, ekki komið fæti upp í stigann, en neðsta trappa hans náði varla niður í hafflötinn.
Ég reyndi....
og ég reyndi...
og ég reyndi aftur. 
Ég komst að þvi, að ég virtist hafa grennst við átökin í kringum bananabátinn og sjóköttinn því ég varð var við að óþægilega mikið að þeim hluta líkamans, sem ekki hafði séð sól í ferðinni birtist áhorfendunum fjórum, skjannahvítur. Við svo búið mátti ekki standa og við tók hlé frá tilraunum til uppgöngu sem nýtt var til að reyna að bjarga því sem bjargað varð af virðingu minni að þessu leyti. 
Síðan reyndi ég aftur við stigann....
og aftur.
Handleggirnir titruðu, en hlýddu ekki. 
Hnjánum tókst ekki að ná festu á neðstu tröppunni.
Hversvegna í and......um gat sjókattarstjórinn ekki sett mig af við stefni bátsins, þar sem ég hefði getað stigið um borð í tvíbytnuna, tiltölulega vel á mig kominn?  Þessi spurning kom reyndar ekki í hugann fyrr en ég fór að fara yfir málið eftir á.
Þarna svamlaði ég sem sagt við stigann upp í tvíbytnuna án þess að komast lönd né strönd.
Hvar var áhöfn tvíbytnunnar?  Hví kom enginn mér til aðstoðar?

Björgunin

Frásögn fD eftir þessa atburði bendir til þess að talsvert löngu eftir að ég var þarna farinn að basla við að komast upp í stigann, hafi heyrst í talstöð tvíbytnunnar eitthvert kall sem varð til þess að skipstjórinn að stýrimaðurinn þustu aftur í skut og fD mun þá ekki hafa orðið um sel.
Loksins birtist mér efst í stiganum, stýrimaður tvíbytnunnar, fikraði sig niður stigann og rétti mér hönd, sem ég greip í og þar með tókst mér að troða vinstra hnénu upp í neðstu tröppuna.
Þar með var mér borgið.
Upp stigann lagði ég leið mína, rólega, titrandi fótum, þrútinn af adrenalínskoti, léttur í lund svona miðað við allar aðstæður, eins tilbúinn og ég gat verið til að mæta augnaráði hinna farþeganna  á tvíbytnunni. 
Það fagnaði enginn uppgöngu minni, þessari björgun minni úr háska. Engin samkennd, bara látið eins og ég væri ekki þarna. 
Það fékk ég að vita eftir á hjá fD (nema hvað) að þarna hefði ég birst, með sundbuxurnar óþægilega neðarlega, skjálfandi og másandi.  Það kom sér sannarlega vel, sem ég sagði í upphafi, að eina vitnið að ævintýri mínu, sem yrði til frásagnar á móðurmálinu var fD. Aðra sem þarna voru mun ég aldrei þurfa að hitta aftur og sannarlega hefði ég ekki þurft að skrifa neina frásögn af upplifun minni. Það geri ég ekki síst til þess að hún verði rétt frá fyrstu hendi, því ekki dettur mér annað í hug en að  eini samlandi minn í þessari ferð muni, með viðeigandi hætti segja frá þar sem því verður við komið. Sem sagt, rétt skal vera rétt.

Ekki tel ég ástæðu til að fjölyrða um framhaldið, jú það kom í ljós að ég hafði hlotið nokkrar skrámur við átökin í stiganum, en það var varla umtalsvert.

Moralen er.....

Hvað lærði ég, þessi ævintýradraumóramaður, svo af þessu öllu saman?
Ég lærði bara hreint ekkert umfram það sem ég vissi áður, t.d. það að maður ætti ávallt að taka sér það fyrir hendur og þróa áfram, sem maður hefur hæfileika, getu, aldur  og burði til. 
Svo einfalt er það. 
Einhverntíma var sagt: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".  Ég finn það eiga við mig í þessu sem ýmsu öðru, sem leiðir hugann að því, að ég á enn eftir að fara í fallhlífarflug (para-gliding). Ég er búinn að nefna það nokkrum sinnum við fD, hvort við ættum ekki að skella okkur í svoleiðis ævintýri. Ég þarf ekki að fjalla um viðbrögðin.
Hvað af verður? Byr hlýtur að ráða.

Fallhlífarflug - Para gliding

 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...