08 apríl, 2018

Gústaf Ólafsson

Við Hvítá, hjá Auðsholtshamri 1980
Unglingar hafa einhvernveginn fengið á sig það orð á öllum tímum, líklegast, að geta verið snúnir viðureignar, enda undir það seldir að vera að ganga í gegnum þá miklu umbreytingu sem á sér stað þegar barninu er skipt út fyrir fullorðna manneskju.
Haustið 1979 fór ég að kenna ensku og dönsku í Reykholtsskóla og auðvitað mikið til reynslulaus, en hafði þó kennt unglingum einn vetur (1974-5) í Lýðháskólanum í Skálholti, .

Sannarlega voru unglingarnir sem ég stóð frammi fyrir í Reykholti ekkert ólíkir unglingum svona almennt. Þeir voru með ýmsum hætti eins og við var að búast og mis auðvelt við þá að eiga, fyrir utan það, auðvitað, að ég kann að hafa verið mis fær um að takast á við verkefnið.

Ég var viðstaddur minningarstund um einn þeirra í Skálholti í gær, Gústaf Ólafsson frá Arnarholti, en hann lést í Sundsvall í Svíþóð þann 29. janúar síðastliðinn eftir baráttu við ágengan og banvænan sjúkdóm, rétt rúmlega fimmtugar.
1980 - Við minnismerkið um Sigríði í Brattholti
ásamt Brynjari á Heiði.

Þessi piltur var einn þeirra sem ég fékk að kenna fyrstu árin mín í Reykholti. Hann var einn þeirra ótal ungmenna sem ég hef fengist við í gegnum árin, en hafa síðan horfið sjónum mínum þó minningin um þau skjótist stundum í hugann. Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um allt þetta unga fólk: hvort það fór inn á þær brautir sem ég hafði ímyndað mér eftir kynnin við þau.
Í gær fékk ég að vita ýmislegt sem ég ekki vissi um lífshlaup Gústafs, sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hér, enda brallaði hann víst margt eftir að hann slapp frá mér um og upp úr 1980.

Hann er eftirminnilegur eins og reyndar flestir nemendur mínir fyrstu árin.
Ég get sagt það sama um Gústaf og bræður hans tvo, Jónas Inga og Ingvar, að þeir báru með sér að vera afar heilsteyptir ungir menn. Fremur rólyndir, að mig minnir, léttir í lund, lifandi, góðlegir, kurteisir. Þeir báru heimili sínu gott vitni.


Það er auðvitað gömul tugga, þetta með að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Gömul tugga, vegna þess óréttlætis sem okkur finnst í því fólgið, en jafnframt staðfesting á því, að ekkert okkar getur búið við þá fullvissu að fá að lifa eins lengi og við viljum helst.

Fjölmargir skólafélagar Gústafs voru viðstaddir ágæta minningarathöfn í Skálholti í gær. Mér fannst afar sérstakt að sjá þarna nokkra fyrr um nemendur mína, sem ég hef geymt í hugarfylgsnum óbreytt, sem börn,  næstum 40 ár.  Það má segja að þetta hafi verið ákveðin áminning um það sem maður veit svo sem, að hvað sem öðru líður, leiðir tíminn allar lífverur, jafnt og þétt, hiklaust og fumlaust, allt frá upphafi lífs til loka þess. Við verðum víst að sætta okkur við það.

1980: Ingólfur á Iðu segir frá Iðuferju. 
Myndirnar sem ég læt fylgja hér, eru frá vormánuðum 1980, þegar nemendur Reykholtsskóla fóru í vettvangsferðir til að kynna sér ýmislegt um árnar sem setja mark sitt á líf okkar í Biskupstungum. Eldri hópurinn  tók Hvítá fyrir. Leiðin lá, meðal annars, að Gullfossi og að ferjustöðunum tveim: Iðuferju, þar sem Ingólfur Jóhannsson á Iðu, spjallaði við krakkana, og Auðsholtsferju, þar sem Einar Tómasson kom yfir um á ferjubát til að hitta okkur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...