Örin bendir á höfund. Mynd fD |
Nei, þetta var ekki að gerast!
En auðvitað var það að gerast.
Öll könnumst við miðflóttaaflið, sem felst í því að sá hlutur sem er á ferð í einhverja átt, leitast við að halda áfram í þá átt, jafnvel þó svo annar kraftur komi til sem reynir að breyta stefnu hans. Það þekkja, til dæmis hjólreiðamenn, að til þess að beygja þarf að halla sér inn í beygjuna þannig að krafturinn í þá átt verði meiri sem sá sem vill draga mann áfram í beina línu. En nóg um eðlisfræði.
VELTAN
Ég hallaði mér ekki inn í beygjuna (hafði öðrum hnöppum að hneppa, sem kölluðu á fulla einbeitingu). Þar með sat ég uppréttur í þann mund er bananabáturinn kipptist inn í beygjuna í kjölfar sjókattarins. Ekki veit ég hvort meðreiðarfólk mitt hafði vit á að taka á móti beygjunni eins og full þörf var á, en það skipti ekki máli.Banabáturinn valt.
Tíminn hægði á sér.
Ég fór á kaf.
Þegar maður er við það að falla fram af kletti, reynir maður að ná handfestu í einhverju. Ég hafði auðvitað handfestu. Henni sleppti ég ekki fyrr en mér varð ljós fáránleiki þess að hanga í bananabát á fullri ferð á hvolfi, neðansjávar.
Í SJÓNUM
Auðvitað var engin hætta á ferð, en þarna vorum við öll fjögur komin í sjóinn, Sjókattarmaðurinn brunaði til baka, sagði "sorrí" og velti bananabátnum á réttan kjöl og benti okkur á að klífa um borð.Klífa um borð, já.
Það var einmitt það.
Þarna fyrir framan mig gnæfði bananabáturinn. Mér varð það strax ljóst, að upp í hann kæmist ég aldrei. Reyndi samt og var næstum búinn að velta honum aftur. Sjókattarstjórinn sagði okkur að klifra upp í bátinn beggja megin frá. Allt í lagi, breski strákurinn flaug auðvitað upp sín megin, en ég var engu nær, jafnvel þó svo pjakkurinn reyndi að toga mig upp. Ég held að fyrr hefði ég togað hann niður mín megin.
Örin bendir á höfund. Mynd fD |
Að þessu fullreyndu og ég orðinn nokkuð móður, sagði sjókattarstjórinn mér að skella mér upp á pallinn sem var aftast á sjókettinum. Þarna voru allir samferðamenn mínir á bananabátnum komnir um borð í hann. Ég einn eftir í sjónum og gerði atlögur að því að komast um borð í sjóköttinn, en þær báru harla lítinn árangur. Við eina tilraunina munaði minnstu að sjókötturinn ylti og stjórinn hrópaði upp yfir sig: "No, no, no!".
Á SJÓKETTINUM
Örin bendir á stigann sem um er rætt. (mynd af síðu Aqua Sports) |
Um það bil 10 metrum fyrir aftan tvíbytnuna spurði stjórinn hvort ég kynni að synda, hverju ég játti, auðvitað. Þá spurði hann hvort ég gæti synt að stiganum í skut tvíbytnunnar (sjá mynd), hverju ég svaraði einnig játandi og sem ég síðan gerði, eftir að hafa stungið mér með eins umtalsverðum glæsibrag og efni stóðu til af sjókettinum.
VIÐ STIGANN
Ég gerði, eðlilega, ráð fyrir því að uppganga mín úr hafinu inn á þilfar tvíbytnunnar gæti orðið mér til eins mikil sóma og hæfði persónu minni, eftir þær svaðilfarir sem að ofan er lýst.
Það varð sannarlega ekki svo.
Frá því mun ég greina í síðasta hluta, í fyllingu tímans.
FRAMHALD>>>>>>
Engin ummæli:
Skrifa ummæli