25 mars, 2018

Þá er það frá (1)

I
Þetta er bananabátur sá sem fjallað er um, en þó ekki með
sömu ævintýramönnunum.
nngangur að þessu er fremur óáhugaverður, en telst samt nauðsynleg undirbygging þess sem á eftir kemur.

Það blundar í mér ævintýramaður og þeirri tilfinningu deili ég ekki með fD, sem helst vill vera með belti, axalabönd og frauðgúmmíhellur allsstaðar þar sem hún kemur við.
Ég hef átt mér ýmsa drauma varðandi ævintýri og hef fylgst með öðrum lenda í ævintýrum, en það hafa, af einhverjum ástæðum, ekki verið örlög mín að leitast beinlínis eftir einhverju sem kemur blóðinu á hreyfingu og kýlir mig upp af adrenalíni. 
Viljinn er og hefur verið fyrir hendi og ég hef nálgast það æ meir, eftir því sem árin líða, að verða mér úti um einhver þau ævintýr sem eftir má taka. Innri krafa um að takast eitthvað spennandi og krefjandi á hendur hefur farið vaxandi eftir því sem árunum hefur fjölgað. Það var því beinlínis ákvörðun mín, í nýafstaðinni ferð okkar fD til Taurito á Gran Canaria, á slóðir þar sem ekki heyrðist önnur íslenska en okkar í nánast tvær vikur, að  láta til skarar skríða. 

Þetta var inngangurinn.

Aqua sports - Catamaran - Bananabátur

Aqua Sports

CATAMARAN tvíbytnan
Hér er um að ræða fyrirtæki sem býður sólarferðalöngum mikið úrval af allskyns ævintýralegri reynslu bæði á láði og legi. Það sem varð fyrir valinu hjá okkur fD var sigling með tvíbytnu, svokallaðri Catamaran. Hluti af þessari siglingu átti síðan að vera ýmislegt, eins og gengur, en allavega varð niðusrstaðan að skella sér í þessa ferð.
Af minni hálfu var þar einn þáttur sem kitlaði mest: • Banana boat ride var það, heillin. Að því ævintýri öllu kem ég betur síðar, en sú reynsla er beinlínis tilefni þess að ég sest niður og skrifa eitthvað um harla venjulega túristaupplifun. Við vitum öll hvernig slík upplifun er: þú verður að einhverri vöru sem þarf að fara í gegnum eitthvert tiltekið ferli gegn einhverju tilteknu gjaldi.

Catamaran tvíbytnan og höfrungaskoðun

Siglt til hafs í höfrungaleit. Taurito í baksýn.
Í bænum Mogan gengum við um borð í þessa fínu tvíbytnu ásamt um 20 öðrum (tvíbytnan er gerð fyrir 100 farþega) og síðan var siglt til hafs, einhvern slatta af mílum, í leit að höfrungum. Seljandi ferðarinnar hafði sagt okkur að nú væri "höfrungatíminn" og sýnt okkur myndskeið í símanum sínum því til staðfestingar.
Hvað um það, enginn sást höfrungurinn, en á móti sáum við eina talsvert stóra skjaldböku svamla í yfirborðinu og einu sinni eða tvisvar sáum við hvalsbak í fjarska. Svo var haldið til baka og þeir sem ekki voru sjóveikir snæddu innifalinn málsverð.
Þegar komið var að ströndinni var tvíbytnan fest við akkeri og þeir sem vildu (þrír) fengu færi á að snorkla stutta stund.

Bananabáturinn

Sjóköttur á fullri ferð. Svona var þetta.
Í þann mun er snorklararnir voru búnir að snorkla litla stund kom sjóköttur (jet-ski) á fleygiferð að afturenda tvíbytnunnar, með bananabát í eftirdragi. Fyrir þá sem ekki vita, þá er bananabátur uppblásinn, ílangur belgur með minni belgjum á hvorri hlið, augljóslega til að halda honum á réttum kili. Ofan á belgnum eru síðan handföng fyrir farþegana.
Nú var kallað í hátalarakerfið að til boða stæði ókeypis ferð með bananabátnum.
Mér dettur ekki í huga að neita því, að þar sem ég stóð þarna frammi fyrir ákvörðun, sem hafði eiginlega verið meginforsenda þess að ég var nokkuð áfram um að fara í þessa siglingu, komu á mig innri vöflur, sem ég held að ekki hafi verið greinanlegar hið ytra. 
Það var kallað eftir þátttakendum í bananabátsferðina og ég lýsti mig reiðubúinn ásamt þrem öðrum. Ég spurði reyndar einn starfsmanninn hvort þetta væri mögulega eitthvað sem ekki hentaði mér, að teknu tilliti til aldurs og líkamlegs atgerfis. Starfsmaðurinn gaf ekki til kynna að ákvörðun mín væri út í hött.
Þar með greip ég björgunarvesti sem stóð til boða, en var fljótlega klæddur aftur úr því og síðan í annað, heldur verklegra.
Bananabátnum var lagt að skut tvíbytnunnar og fyrstu farþegarnir skutluðust upp á hann fremst, sænskt par um tvítugt. Þá kom að mér, eins og ég er. Eitthvað lét mjöðmin af sér vita þar sem ég klöngraðist léttilega (reyndi að láta það virðast léttilegt og gretti mig í átt frá mögulegum áhorfendum) um borð í bátinn, eða réttara sagt upp á belginn, þar sem ég greip um handfang fyrir framan mig. 
Síðasti farþeginn var táningspiltur, breskur og hann settist fyrir aftan mig. Þarna vorum við þá komin fjögur (19-19-64-16).
Svona var bananabáturinn. Farþegarnir eru aðrir.
Þar sem við vorum búin að koma okkur fyrir var ekkert til fyrirstöðu og sjókattarmaðurinn brunaði af stað. Eðlilega byggðist upp talsverð spenna innra með mér þar sem smám saman strekktist á kaðlinum sem tengdi sjóköttinn og bananabátinn. Allskyns hugsanir sóttu að, meðal annars pælingin um hvað í ósköpunum ég væri þarna búinn að koma mér út í. Þetta væri bara eitthvert unglingasport og engan veginn hæfandi virðingu eftirlaunamanns með minn starfsferil.  Ég huggaði mig við það, jafnharðan, að eina vitnið að þessum atburði, sem til frásagnar yrði í mínu málumhverfi, væri fD og hún rétt réði því hvort hún léti eitthvað frá sér fara einhversstaðar (sem hún svo auðvitað gerði). 

Nú var kaðallinn orðinn fullstrekktur og farskjótinn tók við sér. Það var eins og við manninn mælt, á skammri stund vorum við komin á fulla ferð, hoppandi og skoppandi um hafflötinn og við og við gengu lítilsháttar gusur yfir okkur þegar við brunuðum í gegnum öldugang sem sjókötturinn myndaði þar sem hann þeyttist áfram í sveigum til beggja hliða. 
Þetta var bara gaman. 
Stúlkan skríkti, það heyrðist minna í piltunum tveim  og ekkert í mér. Sannarlega hefði ég getað rekið upp einhver öskur hér og þar, en þar setti ég mörkin. Nóg var samt.
Svona gekk þetta fyrir sig um stund, gleðin, spennan, kitlið í maganum. Harla gott, bara.

En svo ákvað sjókattarstjórinn að taka krappa beygju........

Framhald þessarar frásagnar verður skráð þegar ég hef náð að móta í kringum það viðeigandi orðaheim. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...