11 október, 2018

Hvað kemur mér það við?

Ég, rétt eins og þið hin, tel mig tilheyra þessu samfélagi okkar, með þeim réttinum og skyldum sem það felur í sér, svona eins og maður getur búist við að standi í stjórnarskrá og lögum og reglugerðum og bara allstaðar þar sem eitthvað er skráð um svona lagað.

Látum það vera.

Á hverjum degi stend ég mig að því að velta því fyrir mér, hvort ég sé kominn fram yfir síðasta söludag í mannlegu samfélagi, eða þá hvort það fólk sem mest hefur sig frammi er bara svo óþroskað að það er bara ekki hægt að hafa það til sölu enn. Æ, ég veit það ekki, en má vera að þarna sé eitthvert grátt svæði.

Þegiðu bara!
Ég hef smám saman verið að komast að þeirri niðurstöðu, að við búum við aðstæður þar sem best er fyrir mig að halda mér saman, ekki vegna þess að ég átti mig ekki á því að annað fólk er líklega ekki sammála mér, heldur einfaldlega vegna þess að þeir sem eru ósammála mér öskra á mig og ausa yfir mig svívirðingum í stað þess að í stað þess að rökræða við mig.

Ég tel að rökræður, sem er hugtak sem felur í sér að fólk þurfi að færa rök fyrir skoðunum sínum muni geta fært okkur áleiðis að betra samfélagi. Með þeim myndi umræðan halda áfram þar til hún hefði þróast á þann stað að allir væru bara nokkuð sáttir, þó þeir héldu áfram að vera ósammála.

Nálgun að álitamálum í samfélaginu, sem væri með þessum hætti, myndi þroska það og okkur sem það byggjum og leiða okkur áfram til betra samfélags.

Svona er þetta því miður ekki á Íslandi þessi árin.

Það eru til hópar sem telja sig eiga sannleikann og hver sem dirfist að draga rétt þeirra til hans í efa, fær það óþvegið, oftast þannig að það beinist að persónum fremur en málefnum, t.d. í þessum stíl: "Hvað vilt þú, gamli karlpungur upp á dekk? Þú ert nú meira fíflið!"

Misskilningur minn?
Nú kann það auðvitað að vera svo að ég misskilji þetta allt saman; að þetta sé einmitt sú "umræðuhefð" sem mun gera okkur færari um að takast á við framtíðina. Með henni takist að temja þá sem eru á öndverðum meiði þannig, að á endanum verði bara ein rödd; röddin sem segir þér hvernig hlutirnir eiga að vera og þú eigir ekkert að vera að hafa einhverja skoðun á því. 

Þó mér finnist þetta ekki eiga að vera með þessum hætti, þá mun ég víst vera kominn á þann aldur að vera búinn að missa leyfið til að tjá skoðanir mínar. Ég á víst að láta þennan vettvang eftir, þeim sem vita betur, sem reynist svo oftar en ekki vera svo, því miður.

Gröftur undir plástrinum
Ég fæ ekki betur séð, en mikilvægast sé í "umræðuhefð" okkar að finna eitthvað sem er að og skella á það plástri. Það er þetta gamla, að taka á einkennunum en nenna ekki að velta fyrir sér hvað olli þeim. Þingmenn hrópa hver á annan og útdeila ásökunum, það sama gera borgarfulltrúar, og baráttuhópar af ýmsu tagi.  Það eru dregin fram í dagsljósið orð eða hugtök, sem er síðan beitt eins og sverðum í átökunum við óvininn. Orð og hugtök sem verða að klisjum og koma í staðinn fyrir einhverja rökræna pælingu. Mér koma mörg í hug nú, en ég nenni ekki að fara að kalla á holskeflu frá baráttufólkinu; fólkinu sem telur sig eiga sannleikann.
Klisjuumræða
Hér ætla ég að nefna tvennt, en sleppi því þriðja svo mjög sem mig kann nú að langa til að taka það með.

Það fyrra:
Stórvaxandi neysla ungs fólks á lyfjum eða efnum af ýmsu tagi og geðsjúkdómar sem hrjá ungt fólk í meira mæli en áður hefur þekkst.  Samfélagið æpir á aðgerðir og kallar ráðamenn til ábyrgðar. Það á að setja plástur á þetta!  Engan hef ég enn heyrt velta því fyrir sér hvað það getur verið sem veldur þessari áberandi breytingu.  Er það raunin að enginn sé að leita að samhenginu? Hversvegna er ungt fólk í meiri vanda nú en áður var, í þessu þjóðfélagi þar sem börn eru talin nánast heilagar verur í orði, á sama tíma og halda má því fram að aldrei fyrr hafi æska barna verið erfiðari? Þið takið eftir því, að ég segi "halda má því fram".  Ég er reyndar búinn að skrifa heilmikið um þetta mál áður, og endurtek það ekki nú.

Það síðara:
Nú gangast allir upp í því að vera óskaplega miklir umhverfisverndarsinnar -  rjúka út að plokka, hamast við að sauma tuskuinnkaupapoka, og jari jari (eins og fD myndi segja). Erum við ekki búin að vita það árum saman að í óefni stefnir með þessa jörð okkar?  Erum við ekki búin að tala um þetta afskaplega lengi?  Hvað höfum við hinsvegar gert, þessir allsnægtavesturlandabúar?  

Ég hef þá tilgátu að við höfum, með sjálfum okkur, ætlað öllum öðrum að taka á í umhverfismálum.  Við höfum hugsað sem svo, að plastpokinn sem við keyptum utan um vörurnar í Bónus, skipti engu í heildarsamhenginu.  
Við erum samt svo góð, í orði, góð í að tala um hvað hinir eiga að gera. Förum kannski í átak, svona svipað og þegar við förum í megrun,  plokkum svona dag og dag, verðum þannig fyrirmyndarborgararnir sem aðrir geta dáðst að á facebook. 

Hvar eru rætur þessa vanda?  Þegar stórt er spurt.....

Ég get hugsað sem svo, kominn á minn aldur: "Það lafir meðan ég lifi". Jörðin verður ekki óbyggileg fyrr en ég er kominn undir græna torfu. Hvað kemur það mér við, sem gerist eftir það?

Svona má ég hinsvegar ekki hugsa, því þar með geri ég að engu allt það sem líf mitt hefur snúist um: afkomendur mína, starfið sem ég ég hef eytt ævinni í, bloggin mín, myndirnar mínar. Til hvers hefði líf mitt verið án þessa alls?

Nóg er nóg
Ég lýk þessum blæstri mínum á að biða þig sem nenntir að lesa alla leið, velvirðingar á að hafa hér og þar verið fremur ruglingslegur og/eða hvass.  Ég er lengi búinn að vera að leita einhverrar leiðar til að fá útrás fyrir gremju mína yfir því hvernig við lifum æ meir í núinu, hendum því sem var, reynum lítið, í raun, til þess að skapa framtíð fyrir okkur á jörðinni. 
Mér finnst stundum að við séum orðin föst í gildru sem við bjuggum til sjálf.  Okkur mun ekki takst að öskra okkur út úr henni. Við þurfum að reyna að muna hvernig við bjuggum hana til, og rekja okkur þaðan.  Þannig mun allt fara vel að lokum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...